Ferill 481. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 481 . mál.


1218. Nefndarálit



um till. til þál. um endurnýjun á stofnskrá Vestnorræna þingmannaráðsins.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fengið á sinn fund Árna Johnsen, formann Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Nefndin leggur nú sem endranær áherslu á mikilvægi góðra og náinna samskipta við næstu nágranna okkar, Færeyinga og Grænlendinga. Binda nefndarmenn vonir við að breytingar á Vestnorræna þingmannaráðinu leiði í raun til aukinna áhrifa þess í stjórnmálaumræðu um vestnorræn málefni.
    Í nefndinni var rætt sérstaklega um þá nýbreytni sem lögð er til að greiða skuli árgjald til starfsemi ráðsins og setja á stofn skrifstofu þess með einum starfsmanni. Telur nefndin sanngjarnt að Ísland greiði helming þess rekstrarkostnaðar sem af þessu hlýst og áætlaður er um 5 millj. kr. á ári.
    Í 17. gr. stofnskrár ráðsins eru ákvæði um aðsetur starfsmannsins og skal það vera í einu af þingum landanna. Gera skal samning við það þjóðþing um skiptingu á útgjöldum til starfsemi aðalskrifstofunnar. Nefndin fagnar því að uppi eru áform um að þessi starfsmaður hafi aðsetur í húsakynnum Alþingis og telur það vera í samræmi við forustuhlutverk Íslands innan ráðsins. Í væntanlegum samstarfssamningi við skrifstofu Alþingis má gera ráð fyrir að skrifstofan standi straum af kostnaði við vinnuaðstöðu og tækjakost og venjubundna þjónustu, svo sem eðlilegum síma- og póstburðarkostnaði. Aftur á móti greiðir ráðið sjálft allan launakostnað, ferðakostnað og annan almennan rekstur ráðsins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 7. maí 1997.



Geir H. Haarde,

Margrét Frímannsdóttir.

Siv Friðleifsdóttir.


form., frsm.



Össur Skarphéðinsson.

Tómas Ingi Olrich.

Árni R. Árnason.



Kristín Ástgeirsdóttir.

Hjálmar Árnason.

Hjálmar Jónsson.