Ferill 267. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 267 . mál.


1219. Nefndarálit



um till. til þál. um bann við hönnun, framleiðslu, notkun og sölu á jarðsprengjum.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fengið á sinn fund Helga Ágústsson og Jón Egil Egilsson frá utanríkisráðuneytinu. Bárust nefndinni einnig ýmsar upplýsingar frá ráðuneytinu.
    Á alþjóðavettvangi hafa Íslendingar ákveðið stutt tillögur um bann við hönnun, framleiðslu, notkun og sölu á jarðsprengjum. Á síðasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna studdu 155 ríki bann af þessu tagi, án mótatkvæða. Í alþjóðasamstarfi þingmanna hefur þetta málefni einnig verið til umræðu og hafa alþingismenn ávallt stutt tillögur um slíkt bann. Meðal annars samþykkti 96. þing Alþjóðaþingmannasambandsins í september 1996 ályktun um stuðning við gerð lagalega bindandi alþjóðasamnings um bann við framleiðslu, notkun og sölu á jarðsprengjum og um nauðsyn þess að hreinsa landsvæði þar sem jarðsprengjum hefur verið dreift.
    Þótt nokkurrar bjartsýni gæti er ekki hægt að segja til um hvort samkomulag um bann við jarðsprengjunotkun næst á þessu stigi. Hins vegar er fullvíst að Ísland mun undirrita alþjóðlegan samning um þetta efni þegar og ef hann liggur fyrir. Með vísan til þessara fyrirliggjandi upplýsinga leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 7. maí 1997.



Geir H. Haarde,

Margrét Frímannsdóttir.

Siv Friðleifsdóttir.


form., frsm.



Össur Skarphéðinsson.

Tómas Ingi Olrich.

Árni R. Árnason.



Kristín Ástgeirsdóttir.

Hjálmar Árnason.

Hjálmar Jónsson.