Ferill 531. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 531 . mál.


1312. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Nú þegar kjörtímabil Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er hálfnað koma loks fram tillögur að breytingum á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Tillögurnar miða í rétta átt en ganga mun skemmra en ætla mátti miðað við yfirlýsingar og loforð. Ekki er heldur brugðist við þeirri gagnrýni að allt of mikið valdaframsal felist í gildandi lögum.

Endurgreiðsluhlutfall og samtímagreiðslur.
    Frá því að ný lög voru sett um Lánasjóð íslenskra námsmanna 1992 hafa kröfur um lægra endurgreiðsluhlutfall og samtímagreiðslur verið háværar og fyrir síðustu alþingiskosningar hétu allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn því að á þessu yrði ráðin bót.
    Ef litið er til fyrirliggjandi tillagna hvað varðar endurgreiðsluhlutfall er fasta greiðslan ekki lækkuð í þeim tillögum sem liggja fyrir frá meiri hlutanum en viðbótargreiðslan, sem er ákveðinn hluti af útsvarsstofni ársins á undan, er lækkuð í 4,75%. Með því að lækka eingöngu hlutfallsgreiðsluna en halda föstu greiðslunni óbreyttri hefur frumvarpið engar breytingar í för með sér varðandi endurgreiðslu fyrir fólk sem hefur tekjur á bilinu 800.000–1.100.000 kr. á ári.
    Samtímagreiðslur eru ekki teknar upp. Sá vaxtastyrkur sem meiri hlutinn boðar í 3. gr. á að greiðast öllum sem rétt eiga til námsláns, ekki bara þeim sem verða fyrir fjármagnskostnaði vegna lántöku hjá bönkum. Hér er því um að ræða styrk til þeirra sem fá lán úr sjóðnum hvort sem þeir þurfa fyrirgreiðslu banka eða ekki. Þar sem ekki er um að ræða styrk á móti kostnaði má vefengja að jafnræðis sé gætt milli námsmanna þar sem einungis sumir námsmenn fá styrkinn en ekki allir.
    Því er ljóst að niðurstaðan er nokkuð langt frá kosningaloforðum Framsóknarflokksins sem hljóðuðu svo að mánaðargreiðslur yrðu aftur teknar upp í stað eftirágreiðslna og að endurgreiðsluhlutfallið yrði lækkað og tekjutengt.

Ábyrgðarmenn.
    Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun gaf út 1995 um fjárhagsstöðu Lánasjóðsins er á það bent að eðli námslána sé annað en annarra lána vegna þess að námslán séu það form á námsaðstoð sem stjórnvöld ákvarði á hverjum tíma og námsaðstoð geti ekki verið háð því skilyrði að sá sem aðstoðarinnar nýtur komi með ábyrgðarmann fyrir aðstoðinni. Það stangist í raun á við ákvæði 1. gr. laganna um að hlutverk sjóðsins eigi að vera „að tryggja þeim sem falla undir lög þessi tækifæri til náms án tillits til efnahags“.
    Námsmenn hafa lagt áherslu á að felld verði niður krafan um ábyrgðarmenn á námslán. Ekki er brugðist við ábendingum Ríkisendurskoðunar eða kröfu námsmanna í þessu efni og ábyrgðarmannakerfið því óbreytt samkvæmt frumvarpinu og tillögum meiri hlutans.

Löggjöf og valdaframsal.
    Það vekur athygli þegar litið er til þeirra tillagna sem samkomulag náðist um milli stjórnarflokkanna, ekki síst í ljósi þess tíma sem flokkarnir hafa tekið sér til að vinna málið, að þrátt fyrir mikla gagnrýni á það valdaframsal sem felst í núgildandi lögum sem eru í 19 greinum með reglugerð í 39 greinum og úthlutunarreglur stjórnar sjóðsins með 97 efnisatriðum er haldið áfram á sömu braut. Æskilegt hefði verið að láta þetta flókna reglukerfi víkja fyrir ítarlegum lögum. Í greinargerð sem laganemarnir Kristrún Heimisdóttir og Ragnhildur Helgadóttir unnu undir handleiðslu Sigurðar Líndals lagaprófessors og nefnist „Framkvæmd laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna og sjónarmið um réttaröryggi“, kemur eftirfarandi fram: „Starfsemi sjóðsins byggir á fjórþættum reglum: Lögum, reglugerð, úthlutunarreglum og vinnureglum. Samspil þessara reglna er flókið, enda mikilvægar grundvallarreglur í hverri réttarheimild, og birtingu reglnanna er ábótavant. Ljóst er að regluverk Lánasjóðsins stenst vart þá grundvallarreglu réttarríkisins að reglur skuli vera skýrar, stöðugar og aðgengilegar.“
    Starf endurskoðunanefndarinnar sem vann að endurskoðun laganna miðaðist við að lögin yrðu ítarlegri. Sú leið var hins vegar því miður ekki farin. Minni hlutinn gagnrýnir þá málsmeðferð. Er það ljóst að mikið af þeirri gagnrýni sem sett er fram snýr að framkvæmd laganna þar sem stjórnin hefur vald til að ákvarða ýmsa þætti sem miklu varða um stöðu námsmannsins og möguleika.
    Samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna setti eftirfarandi athugasemdir og tillögur fram vegna vinnu að frumvarpi um LÍN:
    Kveða ber skýrar á um hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna í markmiðsgrein.
    Lánshæfi skal skilgreint í lögum og í stað núverandi fimm og tíu ára reglu komi einföld regla um rétt námsmanna til námslána í 11 ár, til vara er lagt til að svigrúmið fyrir grunnnám verði sjö ár og tíu ár í heild.
    Upphæð námslána, náms- og framfærslukostnaður skal skilgreindur ítarlega í lögum.
    Kveða þarf á um rétt stjórnar til takmörkunar skólagjaldalána eigi að vera heimilt að takmarka þau. Námsmenn gera tillögur um að takmarkanir verði gerðar á þessari heimild stjórnar. Lána á fyrir skólagjöldum til grunnnáms erlendis og þá ber að leggja af svokölluð markaðskjaralán.
    Skipan stjórnar verði breytt þannig að Iðnnemasambandið fái fulltrúa í stjórn. Fulltrúum menntamálaráðherra fjöldi jafnframt um einn til að mæta því.
    Skýrt verði kveðið á um heimild stjórnar til að skipa nefndir sem undirbúi mál og geri tillögur um afgreiðslu þeirra. Óvissu um hvort úrskurðir stjórnar séu kæranlegir til ráðuneytis skal eytt með skýru ákvæði.
    Kveða ber skýrt á um að námslán skuli greidd út mánaðarlega meðan námsmaður stundar nám, nema á fyrsta missiri. Um samtímagreiðslur og útfærslu þeirra vísast að öðru leyti til upphafsorða.
    Skilgreining námsframvindu skal vera í lögum. Til annarra atriða um útfærslu þeirra ákvæða er vísað til upphafsorða.
    Undanþágur frá kröfum um námsframvindu þarf að skilgreina í lögum. Kveðið skal á um að námslán í veikindum skerði ekki lánsrétt að öðru leyti, þ.e. veikindalán bætist við heildarsvigrúm námsmanns á námstíma.
    Heimild til að taka mið af sérstökum aðstæðum skal kveða á um í lögum.
    Námsmenn frá löndum EES þurfa að eiga rétt til námsaðstoðar hér á landi í samræmi við skuldbindingar Íslands.    
    Kveða þarf á um hvernig grunnframfærsla á Íslandi er skilgreind og hvað liggi upphæðinni til grundvallar. Námsmenn telja að til greina komi að Alþingi ákvarði þessa upphæð á grundvelli slíkra gagna.
    Kveða skal á um í lögum hvernig grunnframfærsla erlendis er reiknuð eða ákvörðuð.
    Stuðla vegna félagslegra aðstæðna námsmanna skal festa í lög. Kveða skal skýrt á um rétt barna einstæðra foreldra til námslána eins og þeir væru í leiguhúsnæði.
    Rétt til láns vegna meðlags skal festa í lög.
    Tekjuhugtakið skal skilgreina í lögum sem og áhrif tekna á upphæð námsláns.
    Frítekjumark skal skilgreina í lögum.
    Lán vegna maka, tekjur maka og meðferð þeirra tekna skal kveða á um í lögum.
    Ákvæði um niðurfellingu tekna ber að festa í lög.
    Kveða skal á um rétt til lána vegna bóka-, tækja- og efniskaupa í lögum.
    Lán vegna sjúkratrygginga skal festa í lög.
    Ákvæði um ferðalán skulu fest í lög.
    Hugtakið námstími skal skilgreint í lögum og tekið fram að nám á sumarmissiri í framhaldi af hefðbundnu námi teljist hluti af því en ekki sjálfstætt aðstoðarár.
    Skilyrði fyrir námsaðstoð og ákvæði um skuldabréf skal festa í lög eigi þau að standa.    
    Ákvæði um ábyrgðir fyrir allri lánsupphæðinni skulu jafnframt fest í lög eigi þau að standa.
26.    Ákvæði um að allt lánið megi setja á eitt skuldabréf skal vera í lögum.
27.    Ákvæði um frávik frá kröfu um ábyrgðarmenn ber að setja í lög.
28.    Ákvæði um hlutfall og heimild til töku lántökugjalds allt að 1,2% skal festa í lög eigi áfram að innheimta lántökugjöld af lánþegum sjóðsins.
29.    Úthlutunarreglur ber að skilgreina í lögum.
30.    Upphaf endurgreiðslu námslána skal ekki hefjast fyrr en á þriðja ári eftir námslo. Skilgreina þarf námslok skýrar en nú er og sníða reglur um framhaldsnám sem fela í sér styrki sem jafngilda launum.
31.    Skiptingu endurgreiðslunnar skal skilgreina í lögum. Skýra verður orðalag laganna þannig að ljóst sé að vextir leggist ekki ofan á reiknaða endurgreiðslu námsláns heldur séu þeir hluti heildarendurgreiðslunnar sem ekki fari yfir tiltekið hlutfall af útsvarsstofni.
32.    Skilgreina þarf ákvæði um verðtryggingu og fasta 1% vexti eigi vextir að leggjast á námslán á annað borð.
33.    Ákvæði um undanþágu frá endurgreiðslu þarf að vera í lögum.
34.    Önnur ákvæði um endurgreiðslukafla lánasjóðslaganna sem óbreytt eiga að standa skulu að sjálfsögðu tíunduð í nýju frumvarpi. Jafnframt skal leitast við að láta óskýrt orðalag víkja fyrir skiljanlegra máli, sbr. setningu í sviga.
35.    Ákvæði um veruleg vanskil þurfa að skoðast í samræmi við ákvæði um ábyrgðarmenn.
36.    Ákvæði um ofgreidd lán eiga heima í lögum og ástæða er til að annar háttur sé hafður á hafi námsmaður haft rangt við en ef um ónóga námsframvindu er að ræða eða ef mistök starfsmanna LÍN valda endurheimtu útlánaðs fjár.
37.    Ákvæði þarf að setja um endurgreiðslu eldri námslána. Skýrt þarf að vera að námslán sem tekin hafa verið á tímabilinu 1992–1997 lúta sömu endurgreiðslukjörum og kveðið verður á um í nýjum lögum. Þá verður að taka skýrt fram að þrátt fyrir að kveðið sé á um að nýjustu lánaflokkarnir séu endurgreiddir á undan hinum eldri skuli aðeins einn lánaflokkur endurgreiddur í einu.
38.    Ávæði um auglýsingar skulu verða í lögum.
39.    Ákvæði um dreifingu umsóknargagna skulu vera í lögum.
40.    Ákvæði um efni umsókna skulu vera í lögum.
41.    Ákvæði um innheimtu félagsgjalda SÍNE og BÍSN skulu vera í lögum.
42.    Ákvæði um upplýsingar frá umsækjendum og lægri lán skulu vera í lögum.
43.    Ákvæði um tilkynningu um synjun umsókna skulu vera í lögum til samræmis við stjórnsýslulög.
44.    Ákvæði um upplýsingaskyldu annarra stofnana skulu vera í lögum.
45.    Ákvæði um trúnað og meðferð upplýsinga skulu vera í lögum.
46.    Ákvæði um upplýsingaskyldu Lánasjóðs skulu vera í lögum.
47.    Ákvæði um ráðstöfunarfé og rekstrarkostnað skulu vera í lögum.
48.    Ákvæði um fjárlagatillögur og áætlanagerð skulu vera í lögum.
49.    Ákvæði um endurskoðun áætlana skulu vera í lögum.
50.    Ákvæði um birtingu ársreikninga og útgáfu ársskýrslu skulu vera í lögum.
51.    Ákvæði um undanþágu frá stimpilgjöldum skulu vera í lögum.
    Þessar athugasemdir og tillögur samstarfsnefndarinnar byggðu alfarið á þeim markmiðum sem nefnd um endurskoðun laga um LÍN setti í upphafi starfs síns og samstaða var um að ný lög um LÍN byggðust í grundvallaratriðum á því námslánakerfi sem við lýði er. Með því að sækja ákvæði og orðalag í núgildandi lög var samstarfsnefndin ekki að lýsa stuðningi sínum við þau ákvæði heldur gerðu það vegna samhengis og til að ítreka að ný lög um LÍN verði að vera ítarleg og takmarka þörf fyrir reglugerðarsetningu. Athugasemdirnar og tillögurnar eru birtar hér í sama tilgangi, að sýna hve mikið valdaframsal felst í lögunum og þá brýnu þörf sem er á að því verði breytt.

Breytingar á lögunum.
    Minni hlutinn mun eftir atvikum styðja breytingartillögur meiri hlutans en leggur fram viðbótarbreytingartillögur sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Um er að ræða nokkrar breytingar á lögunum.
    Lagt er til að Alþingi ákvarði framfærslukostnað á grundvelli skilgreindrar framfærsluþarfar. Þá er lagt til að námskostnaður verði nánar skilgreindur í lögunum og lánshæfi skilgreint þannig að námsmenn eigi rétt á námslánum til allt að sjö ára grunnáms eða tíu ára í heild.
    Lagt er til að samtímagreiðslur verði teknar upp þannig að eftir fyrsta missiri fái námsmaður mánaðarlegar greiðslur. Þá er lagt til að krafan um ábyrgðarmann verði felld út úr lögunum enda samræmist hún ekki ákvæðum laganna um jafnrétti til náms. Þá er lagt til að heimild til töku lántökugjalds verði felld út.     
    Lagt er til að vextir af námslánum skuli aldrei vera hærri en 1%.
    Lagt er til að endurgreiðsla námslána breytist þannig að fastagreiðslan lækki í 34.000 kr. Ef hún er höfð óbreytt breytir lækkun hlutfallsgreiðslunnar engu fyrir það fólk sem fer í lægst launuðu störfin að loknu námi. Þá er lagt til að hlutfallsgreiðslan lækki í 4,5%.
    Lagt er til að svigrúm verði aukið með því að taka fram í lögunum að námsmaður geti fengið lán með sömu kjörum og almenn námslán, bæði ef honum stendur ekki til boða fullt nám vegna skipulags skóla eða ef veikindi námsmanns, barns hans, fráfall nákomins ættingja eða þungun námsmanns gera það að verkum að honum tekst ekki að standast námskröfur. Námslán sem veitt verða í þessum tilfellum mega ekki skerða námsrétt að öðru leyti.
    Líkur hafa verið leiddar að því að þá fækkun er orðið hefur í tækni, og raungreinanámi, bæði hérlendis og erlendis megi einkum skýra með ósveigjanlegum reglum stjórnar sjóðsins og þröngri túlkun á þeim. Sama eigi við um fækkun barnafólks í námi. Með breytingatillögum minni hlutans er reynt að mæta þessari alvarlegu stöðu.
    Breytingatillögur minni hlutans mæta þeirri gagnrýni sem helst hefur verið á lögin og framkvæmd þeirra gagnvart námsmönnum. Þær bæta þannig upp tillögur meiri hlutans. Minni hlutinn vísar enn til þeirrar almennu gagnrýni að í lögunum felst of mikið valdaframsal og að þau þurfi að endurskoða í heild með það að leiðarljósi að lögin verði skýrari og valdaframsal til stjórnar verði minnkað.

Alþingi, 14. maí 1997.



Svanfríður Jónasdóttir,

Guðný Guðbjörnsdóttir.

Sigríður Jóhannesdóttir.


frsm.