Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 189 . mál.


1327. Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á sérákvæðum í lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur tekið málið til umfjöllunar að lokinni 2. umræðu um það. Hefur meiri hlutinn ákveðið að leggja til nokkrar frekari breytingar á málinu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Í þeim felst eftirfarandi:
    Lagt er til að ákvæði (38. gr. eftir 2. umræðu) er varðar lög um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga verði fellt brott þar sem ákvæði um skipun ríkisbókara verður framvegis í lögum um fjárreiður ríkisins.
    Lagt er til að 48. gr. (eftir 2. umræðu), breyting á lögum um ríkislögmann, færist fram og komi aftan við 46. gr. sem breytir sömu lögum.
    Lögð er til breyting á ákvæði er varðar lög um almannatryggingar (67. gr. frumvarpsins eftir 2. umræðu). Annars vegar er lögð til lagfæring á því að láðst hafði að tala um ráðningu tryggingayfirlæknis, en hins vegar er lagt til að felld verði brott lögbundin álitsumleitan forstjóra við tryggingaráð og eftir atvikum tryggingayfirlækni við ráðningu starfsliðs Tryggingastofnunar. Er það til samræmis við breytingartillögur þær sem meiri hlutinn lagði fram við 2. umræðu. Þá er til samræmis lagt til að ákvæði 66. gr. falli brott.
    Lagt er til að ákvæði er mælir fyrir um breytingu á lögum um vörumerki, nr. 47/1968, (71. gr. frumvarpsins eftir 2. umræðu) verði fellt brott úr frumvarpinu þar sem þingið lögfesti 9. maí sl. ný heildarlög um vörumerki.
    Lagt er til að ákvæði um breytingu á þjóðminjalögum (124. og 125. gr. frumvarpsins eftir 2. umræðu) verði felld brott þar sem löggjafinn samþykkti 14. maí sl. sérstök lög til breytinga á þeim lögum sem hafa að geyma ákvæði sama efnis.
    Lagt er til að ákvæði um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna (140. gr. frumvarpsins eftir 2. umræðu) verði fellt brott þar sem menntamálanefnd hefur afgreitt til 2. umræðu frumvarp til laga um breytingu þeim lögum þar sem m.a. er tekið á sama máli.
    Lagt er til að ákvæði um breytingu á skipulagslögum (151. gr. frumvarpsins eftir 2. umræðu) verði fellt brott þar sem frumvarp til nýrra heildarskipulags- og byggingarlaga er nú komið til 3. umræðu.
    Lagt er til að ákvæði um breytingu á lögum um Landmælingar Íslands (153. gr. frumvarpsins eftir 2. umræðu) verði fellt brott þar sem ný heildarlög um landmælingar og kortagerð voru afgreidd frá þinginu 13. maí sl.



Prentað upp.
    Lagt er til að gerðar verði breytingar á lögum um náttúruvernd, nr. 93/1996, til samræmis við aðrar breytingar sem frumvarpið mælir fyrir um og gerðar voru tillögur um við 2. umræðu. Láðst hafði að taka breytingar á þessum lögum upp í upphaflegt frumvarp.
    Lagt er til að gerð verði sú breyting á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, að ekki verði skylt að auglýsa lausar sendiherrastöður. Í eldri lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, voru störf í þágu utanríkisþjónustunnar undanþegin meginreglu um auglýsingaskyldu. Hér er hins vegar einungis gert ráð fyrir að slík undanþága eigi við um sendiherrastöður en ekki önnur störf á vegum utanríkisþjónustunnar.

Alþingi, 15. maí 1997.



Vilhjálmur Egilsson,

Valgerður Sverrisdóttir.

Sólveig Pétursdóttir.


form., frsm.



Einar Oddur Kristjánsson.

Pétur H. Blöndal.

Ólafur Þ. Þórðarson.