Matarskattur á sjúklinga

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 13:36:52 (3006)

1998-01-27 13:36:52# 122. lþ. 52.1 fundur 163#B matarskattur á sjúklinga# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[13:36]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Nú eru uppi áform um að leggja matarskatt á sjúklinga. Ríkisstjórnin sem hælir sér af því að lækka skatta á almenning áformar nú að setja sjúklingaskatt í formi fæðisgjalds. Því spyr ég, herra forseti, hæstv. forsrh.: Er það með vilja og vitund hæstv. forsrh. að tillögur um fæðisgjald eða matarskatt á sjúklinga eru til afgreiðslu í stjórnarnefnd Ríkisspítala, að tillögu fulltrúa stjórnarflokkanna í nefndinni? Er það samþykkt stefna ríkisstjórnarinnar að rukka sjúklinga um þúsund krónur á dag fyrir fæði sitt, jafnvel þó þeir séu fastandi? Á að krefja sjúklinga um þúsund krónur daglega þegar mörgum þeirra eru aðeins ætlaðar rúmar 600 kr. á dag til framfærslu í sjúkleika sínum og hafa verið kannski í marga daga á 600 kr. dagpeningum meðan þeir biðu eftir aðgerð heima á biðlista? Ég spyr hæstv. forsrh.: Hefur þessi þúsund króna matarskattur á dag á sjúklinga á sjúkrahúsum verið ræddur í ríkisstjórninni? Eru menn þar sammála um að þessi hópur sé aflögufær í góðærinu til að ná inn auknu rekstrarfé til sjúkrahúsanna? Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum gera menn á þeim bæ ráð fyrir að fá um 92 millj. kr. tekjur af þessum sjúklingamatarskatti.

Ég óska eftir svörum frá hæstv. forsrh. við þessum spurningum.