Viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 13:53:33 (3024)

1998-01-27 13:53:33# 122. lþ. 52.1 fundur 166#B viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[13:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. utanrrh. Síðustu mánuði og einkum síðustu vikur og daga hefur hið illræmda hafnbann og viðskiptabann Bandaríkjamanna á Kúbu verið mjög til umfjöllunar, einkum og sér í lagi í tengslum við heimsókn hans heilagleika, Jóhannesar Páls páfa.

Það er mat flestra manna sem til þekkja að hvað sem líði stjórnmálaágreiningi og sögulegum ástæðum sé þetta áratugalanga viðskiptabann, sá áratugalangi viðskiptahernaður stórveldis á hendur fátækrar smáþjóðar í nágrenninu óverjandi. Steininn hefur þó tekið úr nú síðustu árin þegar hert hefur verið á viðskiptabanninu svo sem með ákvæðum hinna illræmdu Helms-Burton laga. Þau verka þannig að samkvæmt þeim gætu bandarísk stjórnvöld lögsótt í Bandaríkjunum íslensk fyrirtæki, t.d. verslunarfyrirtæki eða sjávarútvegsfyrirtæki, sem hæfu viðskipti á Kúbu sem að mati Bandaríkjamanna brytu í bága við ákvæði sömu laga. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. með vísan til þeirrar þróunar sem orðið hefur í þessum málum, þeirrar miklu umræðu sem fer nú fram bæði í Evrópu, í Bandaríkjunum og annars staðar á alþjóðavettvangi, hver sé afstaða hæstv. utanrrh. og hæstv. ríkisstjórnar, og ef ég gef mér það sem ég reyndar þykist vita að hún sé jákvæð í þeim skilningi að ríkisstjórnin styðji ekki þessi ólög eða aðgerðir, er þess þá að vænta að hæstv. utanrrh. og hæstv. ríkisstjórn muni beita sér í málinu á alþjóðavettvangi? Og er ekki svo að hæstv. utanrrh. Íslands er jafnskylt að gera það og t.d. utanríkisráðherrum margra Evrópuþjóða sem hafa fyrir hönd fyrirtækja og viðskiptaaðila í sínum löndum mótmælt þessum aðgerðum og tekið upp baráttu á alþjóðavettvangi til að hnekkja þeim?