Viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 13:55:49 (3025)

1998-01-27 13:55:49# 122. lþ. 52.1 fundur 166#B viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[13:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda. Ég tel að það viðskiptabann sem hefur verið á Kúbu þjóni ekki þeim tilgangi sem stefnt er að. Ég er þeirrar skoðunar að það sé líklegra til að styrkja lýðræðisþróun á Kúbu að þessu viðskiptabanni verði aflétt.

Íslendingar hafa haft ágætt samstarf í ýmsum utanríkismálum við Evrópusambandið, m.a. í þessu máli, og við höfum deilt skoðunum Evrópusambandsins í því. Sú skoðun hefur komið fram af okkar hálfu á alþjóðlegum vettvangi og hún hefur ekkert breyst. Ég á hins vegar von á því að sú mikla umræða sem er um þetta mál geti orðið til þess að breyting verði gerð á. Það eru margir sem halda því fram að e.t.v. mundi það koma valdhöfum á Kúbu hvað verst ef viðskiptabanninu yrði aflétt vegna þess að þá gætu þeir ekki lengur kennt því um hversu ástandið í landinu er bágt. Það er alveg ljóst að valdhafar þar kenna því um að viðskiptabannið hafi leitt til þess ástands sem þar er. Svo er alls ekki. Það eru aðrar ástæður sem liggja þar að baki. Ég er þeirrar skoðunar að heppilegt væri, og vonandi fara Bandaríkjamenn út í það á næstunni, að aflétta þessu viðskiptabanni. Síðan liggur fyrir mikið endurreisnarstarf á Kúbu sem hið alþjóðlega samfélag þarf að taka þátt í.