Viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 13:57:30 (3026)

1998-01-27 13:57:30# 122. lþ. 52.1 fundur 166#B viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[13:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Ég vona að vísu að það sé ekki það sem valdi jákvæðri afstöðu hans í þessu máli, að hann vilji gera það sem komi ráðamönnum á Kúbu illa. Einhver hefði kannski freistast til að skilja orð hans áðan þannig. Ég er reyndar sammála því mati hæstv. ráðherra að það sé á allan hátt til góðs og mundi verka jákvætt í öllu tilliti, líka stjórnmálalegu, að þessum hömlum yrði aflétt. Fyrst og fremst er það þó mikilvægt til að sú þjóð geti þróast og byggt lífskjör sín upp með eðlilegum hætti en það hefur hún ekki getað vegna viðskiptabanns hins volduga nágranna síðastliðin 35 ár og fleira hefur síðan komið til sem hefur skapað þar miklar þrengingar.

Þær tvær atvinnugreinar sem Kúbverjar binda núna miklar vonir við að byggja upp eru ferðaþjónusta og sjávarútvegur. Í báðum tilvikum er málið okkur Íslendingum skylt. Við eigum þegar samskipti við Kúbverja á sviði ferðaþjónustu og gætum að mínu mati auðveldlega tekið upp aukið samstarf við þá á sviði sjávarútvegs, einkum og sér í lagi ef hinu óréttmæta viðskiptabanni yrði aflétt.