Samstarf útvarpsstöðva á landsbyggðinni við Ríkisútvarpið

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 14:01:24 (3029)

1998-01-27 14:01:24# 122. lþ. 52.1 fundur 167#B samstarf útvarpsstöðva á landsbyggðinni við Ríkisútvarpið# (óundirbúin fsp.), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[14:01]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. menntmrh. Um nokkurt skeið hafa Sunnlendingar á fastalandinu ekki haft virka fréttaritara Ríkisútvarpsins, hljóðvarps eða sjónvarps en þessar stofnanir eru flestum landsmönnum afar kærar. Ekki hefur verið komið á svæðisútvarpi á Suðurlandi og hafa Sunnlendingar saknað þess mjög. Nú hefur um nokkurt skeið verið rekin einkaútvarpsstöð á Selfossi undir nafninu Útvarp Suðurlands. Dreifibúnaður útvarpsstöðvarinnar hefur nýlega verið efldur og nú næst þetta ágæta útvarp um nær allt Suðurland, frá Hellisheiði í vestri að Vík í Mýrdal í austri auk Vestmannaeyja. Fyrirspurn mín er því þessi:

Er mögulegt að hæstv. menntmrh. beiti sér fyrir því að Ríkisútvarpið kaupi fréttatengda útvarpsþætti eða annað efni tengt mannlífi á viðkomandi svæðum? Gæti það keypt efni af einkaútvarpsstöðvum þar sem ekki er rekið svæðisútvarp, styrkt þannig starfsemi einkarekinna útvarpsstöðva og eflt upplýsingamiðlun af landsbyggðinni?