Mengun frá Sellafield

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 14:04:28 (3033)

1998-01-27 14:04:28# 122. lþ. 52.1 fundur 168#B mengun frá Sellafield# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[14:04]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Í byrjun ársins bárust af því fregnir að mælst hefði stórfelld aukning á geislavirkni í hafi við sunnanverðar Noregsstrendur. Þar var sérstaklega á ferðinni geislavirka efnið teknesíum 99 sem verður að mestu til við nýtingu á kjarnorku og endurvinnslu á úrgangi frá kjarnorkustöðvum. Þarna er um gífurlega aukningu að ræða frá árinu 1994. Þá byrjaði í mjög auknum mæli endurvinnsla á uppsöfnuðu efni frá Magnox-raforkuverinu í kjarnorkuverinu við Sellafield. Árið 1994 var heimilað að auka losun á teknesíum tuttugufalt í hafið. Svo virtist sem menn hefðu ekki stórfelldar áhyggjur af þessu efni sérstaklega en nú hefur komið í ljós að það safnast upp í lífverum, þangi, krabbadýrum, skelfiski og öðrum lífverum. Í Írlandshafi er magnið er komið langt yfir hættumörk Evrópusambandsins og þó það hafi ekki náð því enn í Noregi er ljóst að það mun fara upp í hættumörk þar.

Ég spyr hæstv. umhvrh. um viðbrögð umhvrn. við þessu alvarlega máli, um afstöðu Íslands á fundum OSPAR --- eða Óslóar-Parísarsamningsins sem fer með mál varðandi mengun hafsins í Norðaustur-Atlantshafi. Ég spyr hvort ríkisstjórnin hafi tryggt Geislavörnum ríkisins aðstöðu til að taka upp vöktun, sérstaklega varðandi þetta efni, við Íslandsstrendur með nauðsynlegum fjárveitingum.