Mengun frá Sellafield

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 14:06:43 (3034)

1998-01-27 14:06:43# 122. lþ. 52.1 fundur 168#B mengun frá Sellafield# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[14:06]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Eins og fram kemur hjá fyrirspyrjanda er á ferðinni alvarlegt mál sem umhvrn. hefur fylgst með. Við höfum átt fund með Geislavörnum ríkisins til þess að ræða ástandið og hvernig hægt sé að bregðast við eða fylgjast með málinu og þróun þess.

Vegna spurningar um fjárveitingar og stöðu Geislavarna ríkisins vil ég minna á að stofnunin heyrir undir heilbrrn. en ekki umhvrn. eins og fyrirspyrjanda er ábyggilega kunnugt um og kannski þingheimi öllum. Það er umhugsunarefni út af fyrir sig en þannig er það. Ég hef þess vegna ekki fjallað um fjármálin sérstaklega en þau voru rædd á fundi sem ég átti með forstöðumanni stofnunarinnar ásamt embættismönnum umhvrn.

Í tengslum við málið höfum við verið í sambandi við umhverfisráðuneytið í Noregi og á embættismannafundi sem haldinn var í seinustu viku, til að undirbúa ráðherrafund umhverfisráðherra Norðurlanda nú í febrúarlok, var fjallað um hvernig sá fundur gæti tekið á málinu. Ég á von á að þar verði sameiginleg yfirlýsing umhverfisráðherra Norðurlanda auk þess sem fleiri færi gefast, t.d. á umhverfisráðherrafundi OECD-ríkja síðar í vetur og á OSPAR-fundi sem fyrirhugaður er síðar á árinu. Ástandinu verður tvímælalaust mótmælt. Ljóst er að mótmæli og athugasemdir umhvrn. hér og umhverfisyfirvalda á Norðurlöndum um mengun frá Sellafield verða áréttaðar.

Hin hættulegu geislavirku efni hafa nú mælst, eins og hv. fyrirspyrjandi bendir á, í meira magni en gert hafði verið ráð fyrir. Að vísu telja menn að það sem mælst hefur sé ekki enn við hættumörk hér í umhverfi okkar, a.m.k. enn sem komið er. Þó er full ástæða til að fylgjast með því. Væntanlega verður hin sameiginleg afstaða umhverfisráðherra Norðurlanda að mótmæla þessu ástandi.