Mengun frá Sellafield

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 14:09:07 (3035)

1998-01-27 14:09:07# 122. lþ. 52.1 fundur 168#B mengun frá Sellafield# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[14:09]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar, svo langt sem þær ná. Spurt var um fjárveitingar og ég heyri að það hefur ekki verið rætt á vettvangi ríkisstjórnar. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra vissi ef svo væri. Ég er ekki í aðstöðu til að spyrja hæstv. heilbrrh., húsbónda Geislavarna ríkisins, hvort tryggðar hafi verið fjárveitingar til stofnunarinnar svo hægt sé að taka upp vöktun á þessu efni. Það er alveg ljóst að efnið mun berast hingað. Það er á hraðferð norður með vesturströnd Noregs og fer inn í straumakerfið í gegnum Norður-Íshafið hingað suður til Íslands. Vafalítið kemur það hér fram innan fárra ára og því nauðsynlegt að hefja eftirlitið nú þegar.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann muni taka þátt í ráðherrafundi OSPAR-ríkjanna í Lissabon í júní á þessu ári. Þar fer hinn árlegi ráðherrafundur fram. Mun hann fara og fylgja eftir kröfum Íslands um þessi efni? Ég legg ríka áherslu á að reynt verði að ýta á bæði Breta og Frakka til að loka hið fyrsta endurvinnslustöðvunum Dounreay, Sellafield og La Hague.