Viðskiptabann á Írak

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 14:16:58 (3042)

1998-01-27 14:16:58# 122. lþ. 52.94 fundur 175#B viðskiptabann á Írak# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[14:16]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Í yfirlýsingu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í framhaldi af athugunum á afleiðingum af viðskiptabanninu á Írak kemur fram að bannið veldur nú mjög alvarlegum næringarskorti hjá almenningi í landinu. Þá kemur fram í vönduðum rannsóknarskýrslum, sem unnar hafa verið á vegum stofnana Sameinuðu þjóðanna og aðskiljanlegra sjálfstæðra stofnana, að bannið hefur orðið þess valdandi að mörg hundruð þúsund manns hafa látist af völdum þess og hefur verið talað um 750 þúsund börn í því sambandi. Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir Íslendinga sem eiga aðild að banninu og framfylgja því fyrir sitt leyti. Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir ríkisstjórnina sem ber ábyrgð á skuldbindingum okkar í þessu efni. Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir Alþingi Íslendinga sem ber ábyrgð á ríkisstjórninni því að í umboði Alþingis starfar hún.

Ástæðan fyrir því að ég tek þetta mál upp nú undir liðnum um störf þingsins er að þriðja árið í röð virðist utanrmn. Alþingis ætla að svæfa málið en í haust flutti hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Kristínu Ástgeirsdóttur þáltill. um að viðskiptabannið yrði tafarlaust tekið til endurskoðunar og þriðja árið í röð virðist málið ekki ætla að fást afgreitt. Það yrði ömurlegur vitnisburður fyrir Alþingi Íslendinga þegar komandi kynslóðir munu lesa í sögubókum um hörmulegar afleiðingar viðskiptabannsins á Írak sem er til komið að kröfu Bandaríkjastjórnar og viðhaldið vegna neitunarvalds hennar í öryggisráðinu að málið hafi aldrei fengist til lykta leitt á Alþingi. Ég treysti því að hæstv. forseti þingsins beiti sér fyrir því að þetta gerist ekki og fylgi því eftir við hv. utanrmn. að hún sendi málið frá sér til afgreiðslu í þingsal hið allra fyrsta þannig að afstaða Alþingis megi koma í ljós.