Viðskiptabann á Írak

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 14:20:40 (3044)

1998-01-27 14:20:40# 122. lþ. 52.94 fundur 175#B viðskiptabann á Írak# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[14:20]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. 17. þm. Reykv. að það er brýnt að Alþingi láti frá sér heyra um þetta mjög alvarlega mál. Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. að við Íslendingar höfum skuldbindingar gagnvart Sameinuðu þjóðunum eins og aðrar þjóðir sem eru aðilar að þeim samtökum. En spurningin snýst um það hvort aðgerðir sem Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið bera þann árangur sem til er ætlast. Í þessu tilviki er öllum ljóst að þær gera það ekki. Þá stendur heimurinn frammi fyrir því hvort réttlætanlegt sé að viðhalda aðgerðum sem hafa þær hörmulegu afleiðingar að bitna fyrst og fremst á börnum og einnig á konum meðan yfirstéttin í viðkomandi ríki lifir í vellystingum praktuglega og tekur greinilega ekkert mið af ástandi þjóðar sinnar þó að þeir reyni reyndar hér og þar að nýta sér hana í áróðursskyni. Þarna er um stjórnvöld að ræða sem skirrast ekki við að halda sínu striki til þess að halda völdum. Það eru afar litlar líkur á því að breytingar verði á stjórnarstefnu.

Menn standa nokkuð berskjaldaðir gagnvart því hvernig hægt sé að breyta þessari stöðu en í mínum huga er alveg ljóst að viðskiptabannið hefur þvílík áhrif og svo alvarlegar afleiðingar að þetta getur ekki haldið svona áfram. Ég stend eins og aðrir býsna ráðalaus gagnvart því hvað hægt er að gera en það er ekki hægt að horfa upp á þetta lengur.