Viðskiptabann á Írak

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 14:25:10 (3046)

1998-01-27 14:25:10# 122. lþ. 52.94 fundur 175#B viðskiptabann á Írak# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[14:25]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þá efnisumræðu sem fer fram um þá tillögu sem var nefnd upphaflega af hv. þm. Ögmundi Jónassyni heldur ætla ég að segja að ég tel að sú uppsetning mála sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. að málið snúist um að koma Saddam Hussein frá hvað sem það kostar er hræðileg utanríkispólitík og ég hafna henni.

Að öðru leyti ætla ég að segja að ég tel að málið snerti mjög alvarlega störf þingsins og vinnubrögð Alþingis yfirleitt. Fyrir þingnefndum liggja tugir tillagna á hverju ári og margar ár eftir ár án þess að fá neina afgreiðslu. Ég held að óhjákvæmilegt sé að þingsköpum verði breytt þannig að nefndir verði skyldaðar til að afgreiða öll þingmál með einhverjum hætti þannig að niðurstaða þingnefndanna komi hingað á borðin jafnvel þó að þingnefndirnir treysti sér ekki til þess að afgreiða þau. Í þeirri endurskoðun sem stendur yfir á þingsköpunum og vettvangi formanna þingflokkanna mun ég beita mér fyrir því að slík ákvæði verði sett í þingsköpin því að það ástand að líða meiri hlutanum að stöðva mál af því tagi sem hér er um að ræða ár eftir ár er algerlega óþolandi.

Að öðru leyti tek ég fram að á vettvangi utanrmn. hefur verið ýtt á afgreiðslu tillögunnar á þessu ári og ég veit ekki betur en það sé ætlun formanns nefndarinnar að taka hana fyrir fljótlega á nýjan leik því að málið snýr ekki fyrst og fremst að utanrrh. Þetta mál snýr að Alþingi og virðingu Alþingis, liggur mér við að segja.