Viðskiptabann á Írak

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 14:27:12 (3048)

1998-01-27 14:27:12# 122. lþ. 52.94 fundur 175#B viðskiptabann á Írak# (aths. um störf þingsins), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[14:27]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir því að menn geri sér almennt ekki grein fyrir því hve alvarlegt þetta mál er og veldur þar án efa þekkingarskortur. Í rauninni er ekkert undarlegt að vanþekking sé á málinu því að um það hefur verið lítið fjallað í fjölmiðlum miðað við tilefni. En staðreyndin er sú, og það er óumdeilt, að viðskiptabannið á Írak hefur haft í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar fyrir alla alþýðu manna í Írak. Það er staðreynd að við erum að tala um atburði sem hefur verið líkt við fjöldamorð. Það er einnig staðreynd að refsingar af þessu tagi brjóta gegn mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og í því ljósi er alvarlegt að Íslendingar láti hafa sig út í að fylgja í blindni fyrirskipunum sem hafa slíkar afleiðingar.

Hæstv. utanrrh. talaði um skuldbindingar Íslendinga. Íslendingar hafa skuldbundið sig gagnvart Genfarsáttmálanum og gagnvart mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Með aðild okkar að viðskiptabanninu á Írak höfum við brotið sáttmálann og allt tal um að ofbeldisstjórn Saddams Husseins verði veikt með viðskiptabanninu hefur reynst úr lausu lofti gripið. Þvert á móti virðast svipaðir hlutir vera að gerast og eftir Versalasamningana í kjölfar fyrra heimsstríðs. Þá var búinn til jarðvegur fyrir nasismann enda benda fréttir einmitt til þess að Hussein gangi sífellt betur að þjappa almenningi að baki sér með skírskotun til stríðsskaðabótanna sem lagðar hafa verið á Írak og síðan refsiaðgerðanna gegn almenningi.

Þetta er þó ekki mergurinn málsins heldur hitt að aldrei er réttlætanlegt að murka lífið úr fólki á þann hátt sem við tökum þátt í að gera undir merkjum Sameinuðu þjóðanna og það getur aldrei verið réttlætanlegt að brjóta mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna eins og við erum að gera með viðskiptabanninu. Ef hv. alþingismenn telja þetta vera rangar staðhæfingar er nauðsynlegt að þeir láti það koma fram. Að öðrum kosti er það siðferðileg skylda okkar að taka þessi mál til endurskoðunar þegar í stað því þau þola enga bið.