Leiklistarlög

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 14:31:05 (3050)

1998-01-27 14:31:05# 122. lþ. 52.2 fundur 356. mál: #A leiklistarlög# frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[14:31]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir frv. til leiklistarlaga á þskj. 543. Eins og kemur fram í athugasemdum við frv. er það samið í menntamálaráðuneytinu, en hliðsjón var m.a. höfð af tillögum nefndar sem ráðuneytið skipaði árið 1994 til að huga að nýjum leiklistarlögum. Í þeirri nefnd áttu sæti fulltrúar frá Bandalagi íslenskra leikfélaga, Leiklistarsambandi Íslands og leiklistarráði, auk fulltrúa sem skipaðir voru án tilnefningar, en formaður var Sveinn Einarsson, fyrrverandi þjóðleikhússtjóri. Nefndin skilaði álitsgerð í ágúst 1995. Meðal annarra gagna sem lágu fyrir við samningu frumvarpsins má nefna frumvarp til laga um Þjóðleikhús, sem lagt var fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989--1990, en varð ekki útrætt.

Frumvarpið var í drögum kynnt þjóðleikhússtjóra, framkvæmdastjórn leiklistarráðs og fulltrúum úr leiklistarlaganefndinni auk þess sem það hefur verið kynnt leiklistarráði.

Nýjum leiklistarlögum er samkvæmt frumvarpinu ætlað að leysa af hólmi tvenn núgildandi lög, þ.e. annars vegar leiklistarlög, nr. 33/1977, með síðari breytingum, og hins vegar lög um Þjóðleikhús, nr. 58/1978, með síðari breytingum. Þannig er stefnt að heildstæðum lögum um leiklistarmálefni þar sem ákvæði um Þjóðleikhús verði sérstakur kafli. Þessi formbreyting er eðlileg miðað við efnislegt samhengi. Í meginatriðum svara I., III. og IV. og að nokkru V. kafli frumvarpsins til núgildandi leiklistarlaga, að því er efnisatriði varðar, en II. kafli til núgildandi laga um Þjóðleikhús.

Helstu breytingar og nýmæli sem í frumvarpinu felast skulu nú stuttlega rakin og þá fyrst þau sem varða svið núgildandi leiklistarlaga, nr. 33/1977, með breytingum samkvæmt lögum nr. 10/1979.

1. Ákvæði um fjárstuðning ríkisins við leiklistarstarfsemi, umfram rekstur Þjóðleikhússins, eru gerð almennari en nú er. Tekið er fram að slíkur stuðningur geti auk almennrar leiklistarstarfsemi tekið til barnaleikhúsa, brúðuleikhúsa, óperustarfsemi og listdans, bæði á vegum atvinnumanna og áhugaleikfélaga, en ekki gert ráð fyrir að lögbinda framlög til einstakra aðila.

2. Gert er ráð fyrir, eins og í gildandi lögum, að sveitarfélög veiti fé til leiklistarstarfsemi, en fellt er brott ákvæði um að framlag sveitarfélags til hvers leikfélags skuli eigi vera minna en ríkissjóður greiðir. Er það gert með tilliti til meginreglu um fjárhagslegt sjálfræði sveitarfélaga.

3. Lagt er til að lögfest verði heimild til að gera samninga af hálfu ríkisins við sveitarfélög, lögaðila, félög eða stofnanir um fjárstuðning við atvinnuleikhús eða hliðstæða starfsemi á sviði listdans, óperu og annarra sviðslista.

4. Skipan leiklistarráðs er breytt, fulltrúum fækkað til muna og sérstök framkvæmdastjórn ráðsins lögð niður.

Kaflinn um Þjóðleikhús felur í sér talsverða styttingu og einföldun miðað við gildandi þjóðleikhúslög. M.a. er gert ráð fyrir að felld verði brott ýmis ákvæði sem teljast mega úrelt vegna breyttra aðstæðna eða hafa ekki reynst virk í framkvæmd. Að öðru leyti miða þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að því að efla sjálfstæði leikhússins með því að draga úr lagafyrirmælum um starfstilhögun þess og stjórnkerfi, jafnframt því að leitast er við að marka skýrar línur um ábyrgð og forustuhlutverk stjórnenda. Er í því efni tekið mið af þeirri meginstefnu sem fram kemur í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá 1996. Auk þessara almennu breytinga skal eftirtalinna atriða getið en jafnframt er vísað til athugasemda við einstakar greinar sem ég mun ekki rekja hér nema að litlu leyti:

1. Skipan þjóðleikhúsráðs er breytt að því leyti að gert er ráð fyrir að fulltrúar í ráðið séu valdir með öðrum hætti en nú er. Í stað tilnefningar af hálfu fjögurra stærstu þingflokkanna og Félags íslenskra leikara er lagt til að tveir fulltrúar verði tilnefndir af Leiklistarsambandi Íslands en þrír skipaðir af menntamálaráðherra án tilnefningar. Skipunartími ráðsins verði ekki bundinn við bilið milli alþingiskosninga heldur ákveðinn fjögur ár, þó þannig að starfstími þeirra fulltrúa sem skipaðir eru án tilnefningar takmarkist við embættistíma ráðherrans ef hann situr skemur. Þá er gert ráð fyrir að fulltrúi starfsmanna leikhússins eigi sæti á fundum ráðsins með málfrelsi og tillögurétti.

2. Þjóðleikhúsinu er gert lögskylt að kosta kapps um hagkvæmt samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna listgreinum á starfssviði þess.

Ákvæðum um skipun þjóðleikhússtjóra er breytt en í meginatriðum er verið að laga þessi ákvæði að almennum reglum nýrra laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þ.e. laga nr. 70/1996. Þetta hefur í för með sér að skipunartími þjóðleikhússtjóra verður fimm ár í stað fjögurra eins og var og er samkvæmt þjóðleikhúslögum, en hefur þegar verið breytt með lögum nr. 83/1997, þ.e. svokölluðum bandormslögum, um breytingar á sérákvæðum í lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Afnumið er ákvæði núgildandi þjóðleikhúslaga um að endurnýja megi skipun þjóðleikhússtjóra einu sinni til næstu fimm ára ef meiri hluti þjóðleikhúsráðs mæli með því. Í stað þess er gert ráð fyrir að um endurskipun fari eftir almennri reglu starfsmannalaga, en hún kemur fram í 23. gr. laga nr. 70/1996, og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Embættismenn skulu skipaðir tímabundið, til fimm ára í senn, nema annað sé tekið fram í lögum.

Ef maður hefur verið skipaður í embætti skv. 1. mgr. skal honum tilkynnt eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartími hans rennur út hvort embættið verði auglýst laust til umsóknar. Sé það ekki gert framlengist skipunartími hans í embætti sjálfkrafa um fimm ár, nema hann óski eftir að láta af störfum með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 37. gr.``

Í frv. þessu til leiklistarlaga er þó áskilið að um endurskipun þjóðleikhússtjóra skuli leitað umsagnar þjóðleikhúsráðs og jafnframt að embættið skuli ætíð auglýst til umsóknar ef sami maður hefur gegnt því tvö eða fleiri skipunartímabil samfleytt. Þannig yrði heimilt að framlengja skipunartíma þjóðleikhússtjóra einu sinni um fimm ár án auglýsingar að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs en frekari endurskipun kæmi einungis til greina eftir auglýsingu embættisins og yrði þá um að ræða keppni við aðra umsækjendur ef því væri að skipta.

Loks er samkvæmt frv. afnumin núverandi tilhögun um skörun á störfum fráfarandi þjóðleikhússtjóra og þess sem við tekur. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. núgildandi þjóðleikhúslaga skal þjóðleikhússtjóri skipaður og launaður frá 1. janúar og eiga þess kost að fylgjast með starfsemi leikhússins til loka þess leikárs. Honum er þá ætlað að undirbúa starfs- og fjárhagsáætlun fyrir næsta leikár og fara með atkvæði þjóðleikhússtjóra í framkvæmdaráði, þegar þar er um hana fjallað, en taka að fullu við störfum í upphafi nýs leikárs. Þessi tilhögun fellur illa að hinni almennu reglu um fimm ára skipunartíma þar sem með þessu móti verður skipunartíminn í raun og veru hálfu ári lengri. Meiru varðar þó hitt að mikill vafi hlýtur að leika á hversu heppilegt það er í framkvæmd að tveir menn eigi að deila með sér ábyrgð á sama forstöðumannsstarfi. Eins og rakið er í athugasemdum við 6. gr. virðist ekki augljós ástæða til að hafa hér aðra skipan en í öðrum listastofnunum.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir höfuðatriðum þessa frv. til nýrra leiklistarlaga og sé ekki ástæðu til að rekja athugasemdir við einstakar greinar frv. Eins og ég sagði í upphafi máls míns hefur frv. verið kynnt fyrir þeim sem starfa að leiklist og láta sig leiklist sérstaklega varða og að nokkru og verulegu leyti tekið mið af þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram á þeim samráðsfundum.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntmn. og 2. umr.