Leiklistarlög

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 14:59:49 (3053)

1998-01-27 14:59:49# 122. lþ. 52.2 fundur 356. mál: #A leiklistarlög# frv., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[14:59]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hæstv. menntmrh. fyrir það frv. sem hér hefur verið lagt fram. Frv. er byggt á tillögum sem fulltrúar úr Bandalagi íslenskra leikfélaga, Leiklistarsambandi Íslands og leiklistarráði, auk annarra fulltrúa sem skipaðir voru án tilnefningar, undir forstöðu Sveins Einarssonar, fyrrv. þjóðleikhússtjóra, skiluðu til ráðherra. Ég tel að þetta frv. sé til verulegra bóta. Það er að mörgu leyti einfaldara og skýrara en fyrri lög um Þjóðleikhús og leiklistarráð.

[15:00]

Ég vildi þó leyfa mér að gera hér nokkrar athugasemdir. Sú fyrsta er við 6. gr. frv. þar sem talað er um þjóðleikhússtjóra og hvers konar persóna skuli ráðin til starfans. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Skipaður skal maður með staðgóða þekkingu á starfi leikhúsa.``

Ég tel að þetta sé afar óljóst. Ég held að í nútímaþjóðleikhúsi hljóti leikhússtjórinn að þurfa að vera menntaður í leikhúsfræðum, hafa umtalsverða tungumálakunnáttu og almenna klassíska menntun. Ég held að fram hjá því verði ekki komist vegna þess að þjóðleikhússtjóri stýrir ekki einungis rekstri hússins --- það geta svo sem ýmsir gert --- heldur á hann einnig að bera ábyrgð á listrænni stefnu og starfi leikhússins. Og það held ég að enginn geri nema sá sem hefur aflað sér umtalsverðrar þekkingar á leiklist og leikhúsfræðum, síst þegar þær kröfur eru einnig gerðar að leikhúsið skuli fara til útlanda, kynna leiklist sína þar og þá væntanlega íslenska leiklist og taka á móti erlendum listamönnum í sama tilgangi. Ég vil því biðja hæstv. ráðherra og þá hv. nefnd sem við málinu tekur að hugsa þetta mál vandlega. Ég held að öllum hljóti að vera fyrir bestu að þarna sé verulega vel til vandað. Um ráðningartímann hef ég ekkert nema gott eitt að segja og skal ekki gera hann að umræðuefni.

Þá vil ég víkja að 7. gr. sem snýr að þjóðleikhúsráði. Mér er til efs að þessi breyting sé til bóta. Ég sé ekkert athugavert við að menningarstofnanir í eigu allrar þjóðarinnar eins og Ríkisútvarpið og Þjóðleikhúsið séu undir eftirliti fulltrúa stærstu stjórnmálaflokkanna. Og af hverju segi ég það? Jú, báðar þessar stofnanir gætu verið í hættu. Það er auðvitað kannski einungis tilgáta og möguleiki að hægt sé að misnota þessar stofnanir í annarlegum tilgangi, við skulum t.d. segja pólitískum tilgangi. Báðar þessar stofnanir eru afar viðkvæmar hvað þetta varðar og þess vegna held ég að ekkert sé að því að fulltrúar lýðræðisins í landinu fylgist með því og beri að einhverju leyti ábyrgð á því að þetta komi ekki fyrir. Ég lít svo á að bæði þjóðleikhúsráð og útvarpsráð hafi þetta hlutverk fyrst og fremst. Mér finnst ekki heppilegt að formaður ráðsins skuli endilega vera skipaður af þeim hæstv. menntmrh. sem situr hverju sinni og mér finnst enn ástæðulausara að seta ráðsins miðist við embættistíma ráðherrans sem situr hverju sinni. Ég held að það hljóti að vera alveg óhætt að skipa þessi ráð til fjögurra ára í trausti þess að þar velji flokkarnir fólk sem þeir treysta fyrir þessum málaflokkum. Og ég held að sem betur fer hafi flokkarnir borið gæfu til þess eins og dæmin sanna um formennsku í þjóðleikhúsráði um árabil en þar hefur starfað frú Þuríður Pálsdóttir óperusöngvari og ég held að enginn hafi vantreyst henni til þess starfa, enda hefur ráðið unnið í mikilli sátt og samlyndi og að því marki einu að efla veg leikhússins sem allra mest. Ég leyfi mér að fullyrða að það hefur svo sannarlega tekist því að undanfarin ár hefur Þjóðleikhúsinu gengið allt í haginn undir ágætri forustu núv. þjóðleikhússtjóra, Stefáns Baldurssonar.

Ég vil því biðja menn að hugsa þetta mál vandlega. Það er gert alveg ljóst hér og ljósara en í fyrri lögum --- og því fagna ég --- að hlutverk þjóðleikhúsráðs er tvenns konar. Það er ráðgefandi varðandi listræna stefnu og listræn störf í húsinu og það er ábyrgðaraðili um rekstur þess, samanber ,,stjórnarnefnd Þjóðleikhússins`` eins og segir í 7. gr. Í 6. gr. segir að þjóðleikhússtjóri sé stjórnandi leikhússins og marki listræna stefnu þess í samráði við þjóðleikhúsráð en hann beri annars ábyrgð á þeim störfum. En í 7. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þjóðleikhúsráð er stjórnarnefnd Þjóðleikhússins og skulu allar meiri háttar ákvarðanir um leikhúsreksturinn bornar undir ráðið.``

Ég vona að ég skilji það því rétt að stjórnarnefndin beri hina fjárhagslegu ábyrgð en ábyrgð þjóðleikhússtjóra á listrænni stefnu sé í raun og veru algjör og ég tel að svo eigi að vera. Ég held að enginn sé færari um það en hann að bera ábyrgð á stefnu leikhússins á hinu listræna sviði. Þess vegna ítreka ég það að ég held að afar nauðsynlegt sé að þjóðleikhússtjóri hafi haldgóða menntun á því sviði og ég held að mikið vanti á að hver sem er geti sinnt slíkum störfum.

Nokkur önnur minni atriði ætlaði ég að fara nokkrum orðum um. Mér sýnist að áhyggjur hv. 6. þm. Norðurl. e. um Akureyrarleikhúsið séu kannski ástæðulausar að því leyti að í 16. gr. er talað um atvinnuleikhús og við verðum auðvitað að gera ráð fyrir því að fleiri atvinnuleikhús kunni að koma til þannig að ég er ekki svo óróleg út af því að gengið verði fram hjá hinu ágæta leikhúsi Akureyringa. Ég held að ekki sé óeðlilegt að þetta sé opið fleiri leikhúsum.

Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á því að núverandi þjóðleikhúsráð hefur haft frumkvæði um það að bjóða árlega einu leikfélagi utan Reykjavíkur að sýna í Þjóðleikhúsinu og hefur verið eins konar, má segja, næstum samkeppni um það. Fulltrúar leikhússins hafa farið út á land og kannað hvaða leiksýningar þeim hefur litist best á af þeim sem hafa sótt um og við höfum þar af leiðandi notið þess hér í Reykjavík að fá ánægjulegar heimsóknir utan af landi, frá leikfélögum úti á landi sem sýnt hafa í Þjóðleikhúsinu.

Um ferðir Þjóðleikhússins út á land er auðveldara um að tala en í að komast. Þær eru ákaflega dýrar. Ég býst við að allir séu sammála því að Þjóðleikhúsinu beri að færa leiksýningar sínar að einhverju leyti til allra landsmanna en það kostar einfaldlega peninga og þá peninga verður leikhúsið auðvitað að fá til þess að þetta sé unnt því ég held að alveg óhætt sé að segja að engar slíkar leiksýningar geta hugsanlega skilað hagnaði sem kæmi til móts við kostnað.

Þá ætla ég aðeins að víkja orðum að leiklistarráði. Ég held að það sé sannarlega til bóta að fækka í ráðinu. Það var áreiðanlega mjög þungt í vöfum þar sem mjög margir fulltrúar sátu í ráðinu. Hitt finnst mér kannski aðeins orka tvímælis, að nú samkvæmt þessu frv. skuli þrír tilnefndir af Leiklistarsambandi Íslands, einn af Bandalagi íslenskra leikfélaga en einn skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins. Ég get svo sem alveg sætt mig við að þarna sé skipaður formaður án tilnefningar en ég held að við ættum að athuga hvort Bandalag íslenskra listamanna ætti ekki að eiga þarna fulltrúa. Það er nú einu sinni þannig með leikhús að þar koma fleiri við sögu en leiklistarfólk. Þar er oftar en ekki tónlistarfólk á ferðinni og listmálarar að því leyti að leiktjaldamálarar eru þarna auðvitað líka, söngvarar og ýmsir aðrir. Ég held því að þar sem svo margir hverfa nú úr leiklistarráði, þá væri hægt að bæta fyrir það með því að a.m.k. einn fulltrúi yrði þarna frá Bandalagi íslenskra listamanna þó það yrði þá á kostnað þessara þriggja úr Leiklistarsambandi Íslands þannig að þeir yrðu tveir. Ég nefni líka dansara sem auðvitað eru meira og minna á sviði leikhúsanna. Ég held því að þessir aðilar þyrftu að koma þarna inn. Oft og tíðum eru tónskáld látin semja tónverk við leiksýningar þannig að ýmsir koma þarna við sögu.

Þegar við erum að tala um aðra listamenn en leiklistarfólk í tengslum við Þjóðleikhúsið, þá vil ég varpa þeirri hugmynd til hæstv. ráðherra, sem er svo sem ekki ný af nálinni, hvort ekki hefði verið ástæða til að koma einhverri reglulegri samvinnu á milli Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Þjóðleikhússins. Það er enn skylda Þjóðleikhússins samkvæmt þessu frv. að flytja óperur og oft er auðvitað nauðsynlegt að tónlist sé í leiksýningum. Þetta er leikhúsinu afskaplega erfitt vegna þess að það er svo dýrt. Og þegar við förum að hugsa til þess hversu fámenn þjóð við erum þá hlýtur þessi spurning að vakna. Mér er kunnugt um að hún vaknaði oft í huga fyrrv. framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Sigurðar Björnssonar óperusöngvara, sem oft minntist á hvort ekki væri hægt að koma þarna á einhverri reglulegri samvinnu. Það hefur verið leikhúsinu afar erfitt að hafa fjölmenna hljómsveit í sýningum vegna þess að það verður allt að greiðast samkvæmt ýtrustu yfirvinnutöxtum og öllu slíku. Án þess að ég vilji rýra tekjur tónlistarmanna --- síst skal ég verða til þess --- þá held ég að ekkert óeðlilegt væri að þessar stofnanir, sem meira og minna eru reknar af okkur öllum í sameiningu, gætu haft með sér einhvers konar samstarf. Ég vil nýta þetta tækifæri til þess að varpa fram þeirri spurningu hvort þetta gæti ekki komið til greina áður en frv. yrði að lögum.

Þá held ég að ég sé að mestu búin að vekja máls á því sem ég tel athyglisvert hér. Einungis að lokum, þá er í 19. gr. dálítið óvenjulegt orðalag og ég spyr hvort að einhver ástæða sé fyrir því, en greinin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.`` Síðan er bætt við: ,,Heimilt er að ákvæði er taka til starfsemi Þjóðleikhússins séu sett í sérstakri reglugerð.``

Ég skil þetta reyndar ekki alveg vegna þess að auðvitað er reglugerð sem ráðherra setur skv. 1. málsl. sérstök reglugerð, vænti ég. Og ég vil spyrja af hverju hún er, þessi tvöfalda heimild til reglugerðarsetningar. Nú er ég ekki að væna hæstv. ráðherra um að hann ætli sér að setja reglugerð sem fer út fyrir lagastoð, en þetta er satt að segja dálítið óvenjulegt og þess vegna spyr ég.

Að öðru leyti, hæstv. forseti, fagna ég þessu frv. Ég held að það sé prýðilegt að sameina þau tvenn lög sem hér eru sett í einn lagabálk og ég get ekki séð annað en að þetta ætti að geta orðið íslenskri leiklist til framdráttar.