Leiklistarlög

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 15:14:48 (3054)

1998-01-27 15:14:48# 122. lþ. 52.2 fundur 356. mál: #A leiklistarlög# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[15:14]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Þetta nýja frv. til leiklistarlaga nær yfir það svið sem núgildandi þjóðleikhúslög, frá 1978, og núgildandi leiklistarlög, sem eru frá 1977, ná yfir eins og fram hefur komið í umræðunni og aldur þessara laga bendir til að það sé eðlilegt að endurskoða þessa starfsemi nú.

[15:15]

Í fljótu bragði finnst mér þetta frv. vera til bóta á flestum sviðum og í takt við þá þróun sem átt hefur sér stað bæði varðandi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og hvað varðar þróun frjálsra leikhópa. Þó er ljóst að þetta frv. virðist að sumu leyti bera sömu einkenni og þau frv. sem hæstv. menntmrh. hefur flutt um skólastigin, þ.e. að völd menntmrh. eru aukin frá því sem nú er í stjórnun, t.d. á Þjóðleikhúsinu, á kostnað pólitískt valinna fulltrúa. Þetta er væntanlega liður í stjórnunarstefnu ríkisstjórnarinnar og væntanlega hugsað til þess að auka fagmennsku í þessari stofnun sem ég mundi svo sannarlega fagna. Ég deili ekki skoðun hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur að eðlilegast sé að fulltrúar stjórnmálaflokkanna sitji þarna. Ég tel eðlilegt að þetta sé stofnun á vegum framkvæmdarvaldsins og hún sé undir stjórn menntmrh. Ég tek hins vegar undir þá hugmynd að eðlilegt væri að Bandalag íslenskra listamanna ætti fulltrúa í þjóðleikhúsráði og þó að hætta geti orðið á einhverjum pólitískum tilnefningum, þá held ég að það verði að treysta því að menntmrh. hverju sinni útnefni fólk sem stýri þessari stofnun faglega.

Atriðið sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir nefndi áðan varðandi 16. gr. þarf athugunar við að mínu mati með tilliti til leiklistarstarfsemi úti á landsbyggðinni. Ég átta mig ekki á því í fljótu bragði hvað kemur til með að breytast. Mér sýnist að það geti verið meira undir vilja menntmrh. komið nú en það var áður. En ég vil fagna sérstaklega þeim atriðum sem nefnd eru á bls. 4 í greinargerðinni, þ.e. að það nýmæli er nefnt að sérstakur stuðningur er við barnaleikhús, brúðuleikhús og listdans bæði á vegum atvinnumanna og áhugaleikfélaga. Einnig tel ég þá breytingu sem nefnd er á stuðningi við óperustarfsemi og listdans ekki óeðlilega, að það sé opnað og sá stuðningur sem fyrirhugaður er sé gerður almennari.

Mér sýnist í fljótu bragði, hæstv. forseti, að hér sé um jákvætt frv. að ræða, sem vissulega þarf þó ítarlegrar skoðunar við í hv. menntmn., og að flestar þær breytingar sem lagðar eru til varðandi Þjóðleikhúsið séu til bóta.

En ég vil, vegna ákvæða 6. gr. um skipan þjóðleikhússtjóra, að lokum spyrja hæstv. menntmrh. um stöðu núv. þjóðleikhússtjóra, þ.e. hvort hann geti óskað endurráðningar að loknu þessu starfstímabili eða hvort staðan verði þá auglýst. Mér finnst það ekki alveg nógu skýrt, a.m.k. miðað við fyrsta lestur minn á frv.