Leiklistarlög

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 15:44:53 (3059)

1998-01-27 15:44:53# 122. lþ. 52.2 fundur 356. mál: #A leiklistarlög# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[15:44]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel það gefa ranga mynd af þessu frv. að tala um það eins og það sé fjandsamlegt Leikfélagi Akureyrar. Svo er alls ekki. Það gefur líka ranga mynd af þessu frv. að láta eins og 16. gr. setji Leikfélagi Akureyrar óeðlilegar skorður.

[15:45]

Eins og málum er nú háttað er samningurinn milli menntmrn. og Akureyrarbæjar og ef menn vilja gjörbreyta samskiptum menntmrn. og Leikfélags Akureyrar þarf frumkvæðið að koma frá heimamönnum og þá þarf að taka það upp alveg sérstaklega. Eins og þetta frv. horfir við liggur það alveg ljóst fyrir að menntmrn. getur mjög hæglega samið við Leikfélag Akureyrar og staðið að því að stuðla að góðri starfsemi þar. En þá þurfa heimamenn fyrst að ákveða hvort þeir vilja að gerður verði slíkur samningur, eða samið verði sérstaklega við Akureyrarbæ. Hitt er líka að þó mælt sé fyrir um tímabundna samninga þá segir það ekkert annað en að hægt sé að endurskoða samningana af báðum aðilum eftir ákveðinn tíma. Þannig er staðið að rekstri Íslensku óperunnar. Hún er rekin núna á grundvelli slíks samnings til nokkurra ára og gengur ágætlega. Það er því vel hægt að halda uppi mjög öflugri starfsemi á grundvelli samninga til nokkurra ára og síðan geta báðir aðilar sest niður eftir þann tíma og endurskoðað samninginn og það þýðir ekki að honum verði rift, nema síður sé, ef vel gengur. En báðir aðilar fá þá tækifæri eftir ákveðinn tíma. Þeir hafa festu í samskiptum sínum um nokkurt árabil, setjast síðan niður, fara yfir málið og komast að nýrri niðurstöðu. Ég sé því ekki neitt í þessu frv. sem stuðlar að því að Leikfélag Akureyrar geti ekki dafnað ef menn vilja ganga til slíkra samninga um starfsemi þess.