Leiklistarlög

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 15:46:48 (3060)

1998-01-27 15:46:48# 122. lþ. 52.2 fundur 356. mál: #A leiklistarlög# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[15:46]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hlaut að láta það koma fram hér að staða Leikfélags Akureyrar er ekki jafntrygg ef þetta frv. verður að lögum eins og samkvæmt núgildandi leiklistarlögum. Það liggur alveg ljóst fyrir. Og 16. gr. sem vísar í að hægt sé að gera tímabundinn samning við rekstraraðila er engan veginn jafngóð og ákvæðið í gildandi lögum. Það er einfaldlega þannig. Menn geta rétt séð það fyrir sér hvernig eigi að starfrækja atvinnuleikhús úti á landi miðað við það að einungis séu gerðir við það tímabundnir samningar, að það hafi enga aðra lagastoð en þá að hægt sé að gera tímabundna samninga við það, rétt eins og hafa verið gerðir við leikhópa á Reykjavíkursvæðinu. Það er einfaldlega ekki boðlegt ef menn ætla að halda uppi metnaðarfullri starfsemi að vita aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Þess vegna, eins og ég sagði áðan, lít ég svo á að 16. gr. eigi fyrst og fremst við samninga sem þegar hafa verið gerðir og fordæmi er fyrir varðandi leikhópa. En það hlýtur að þurfa að gera aðrar ráðstafanir ef menn ætla að starfrækja metnaðarfullt atvinnuleikhús úti á landi.