Leiklistarlög

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 15:48:12 (3061)

1998-01-27 15:48:12# 122. lþ. 52.2 fundur 356. mál: #A leiklistarlög# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[15:48]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég lít svo á að það sé meira starfsöryggi fyrir t.d. Leikfélag Akureyrar eða Íslensku óperuna að hafa, með samþykki ríkisstjórnar og Alþingis, fimm ára samning um fjárveitingar og öryggi með þeim hætti heldur en eina línu í lögum sem nefnir viðkomandi stofnun og síðan sé það háð fjárveitingavaldinu hverju sinni hvort upphæðin sem veitt er er hærri eða lægri. Með samningnum er tryggt öryggi í viðkomandi starfstíma. Síðan eru ákvæði í samningnum um það að menn setjist niður og fari yfir málin og komist að nýrri niðurstöðu eða haldi áfram samstarfinu á sama grunni. Þetta er mjög mikið öryggi. Við erum að gera svona samninga t.d. við alla framhaldsskóla í landinu, skólasamninga. Það er ekki til að veikja stöðu skólanna heldur til að þeir hafi aukið öryggi um nokkurt árabil varðandi það hvernig þeir geti hagað starfsemi sinni. Ein lína í frv. þar sem stæði ,,Leikfélag Akureyrar`` veitir ekki sömu tryggingu og slíkur samningur sem hefur verið staðfestur af ríkisstjórn og Alþingi.