Leiklistarlög

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 15:50:13 (3063)

1998-01-27 15:50:13# 122. lþ. 52.2 fundur 356. mál: #A leiklistarlög# frv., GHelg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[15:50]

Guðrún Helgadóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú komin hér vegna mjög ómaklegs áburðar hv. 6. þm. Norðurl. e., Svanfríðar Jónasdóttur. Í máli hennar hér áðan kom fram að ég hefði haft í frammi mjög reykvískan málflutning. Þingmaðurinn ætti að vita betur en flestir aðrir að fátt er nú fjær mér en að hugsa aldrei til landsbyggðarinnar. Ég held að við reykvískir þingmenn gerum meira af því en landsbyggðarmenn sinna Reykjavíkurmálefnum. Staðreyndir málsins eru einfaldlega þannig, varðandi Þjóðleikhúsið og flutning leikverka úti á landi, að venjulega er það svo að hugað er til þeirra sýninga sem best hafa reynst yfir leikárið. Þegar búið er að þjóna rúmum helmingi þjóðarinnar hér er gjarnan valið úr það verk sem best hefur þótt hafa fallið fólki í geð. Oft er það svo að þá er fjárveitingin einfaldlega búin og menn hafa auðvitað leitað allra ráða til að reyna að fjármagna slíkar ferðir, en þetta er erfitt.

Ég vil minnast á að leikhúsið tók í fyrsta skipti þá ákvörðun á síðasta leikári að sýna eina sýningu leikhússins í sjónvarpi og bjóða allri þjóðinni einu sinni í leikhúsið. Var þar flutt verk eftir Ólaf Hauk Símonarson. Þannig að vissulega eru þessi mál rædd. En þetta er erfitt, þetta er ákaflega kostnaðarsamt. Hins vegar má hugsa sér að þegar í upphafi hvers árs verði gert ráð fyrir slíkum fjárlagalið en við viljum nú vel til vanda sem í þjóðleikhúsráði sitjum til að menn fái þá það besta sem völ er á. En því fer fjarri, og ég vil fyrir mína hönd og annarra í þjóðleikhúsráði bera það af okkur að við hugsum ekki til landsbyggðarfólksins.