Leiklistarlög

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 15:52:35 (3064)

1998-01-27 15:52:35# 122. lþ. 52.2 fundur 356. mál: #A leiklistarlög# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[15:52]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að gera lítið úr því sem gert er. Hins vegar er bæði í gildandi lögum og í þessu frv. gert ráð fyrir því að á vegum Þjóðleikhússins skuli árlega farnar leikferðir sem víðast um landið. Og maður veltir því fyrir sér að ef þessi texti er í lögunum en síðan hafa ekki reynst fjárveitingar til að sinna þessu verkefni, þá sé forgangsröðunin e.t.v. önnur en hún ætti að vera miðað við það að menn skuli uppfylla það sem í lögum stendur. Í frv. er þetta endurtekið þannig að greinilega er ætlast til að Þjóðleikhúsið sinni þessari skyldu. Ég veit alveg og geri mér fullkomlega grein fyrir að þetta er dýrt og erfitt og ég virði það að menn eru að reyna að finna nýjar leiðir til að koma sér á framfæri gagnvart þjóðinni. En þótt sjónvarp sé gott er það nú einu sinni svo að það jafnast ekki á við leikhúsið sjálft. Sú upplifun er auðvitað einstök að vera viðstaddur leiksýningu.

Ég skil ekki af hverju þingmanninum fannst það svo ómaklegt að ég talaði um að hún hefði þessi reykvísku viðhorf. Hún er nú einu sinni þingmaður Reykvíkinga og þarf engan að undra. En þessi viðhorf eru ekki bara hennar heldur býsna margra og eru því miður viðhorf sem lita býsna oft viðhorf okkar þegar við erum að fjalla um það hvernig við deilum gæðunum til allra landsmanna og þá verður það stundum svo óskaplega dýrt ef það á að gerast annars staðar en í Reykjavík. Þetta er því miður bara staðreynd sem við stöndum frammi fyrir.