Nýbygging fyrir Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 16:12:36 (3067)

1998-01-27 16:12:36# 122. lþ. 52.4 fundur 110. mál: #A nýbygging fyrir Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu# þál., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[16:12]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Málefni Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu hafa verið til meðferðar á vettvangi menntmrn. um nokkurt skeið. Heimilað var í fyrsta sinn sl. vor að hann útskrifaði stúdenta. Einnig hefur verið gengið frá samningi milli framhaldsskólanna á Austurlandi um samstarf, eins og fram kom í máli hv. þm. Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu er einn af sjö framhaldsskólum sem mun næsta haust bjóða nýja námsbraut, svokallaða sjávarútvegsbraut, og verður það vonandi til þess að efla tengsl skólanna við heimabyggðir sína, þeirra skóla sem starfa í sjávarútvegsbyggðum.

Um uppbyggingu skólans og ákvarðanir um húsnæðismál hans, þá hefur á liðnu hausti verið skipst á erindum milli menntmrn. og sveitarstjórnarinnar í Hornafirði. Ég fékk fyrst bréf 22. sept. frá bæjarstjóranum á Hornafirði þar sem hann óskaði eftir því að ráðuneytið gengi til viðræðna við heimamenn um byggingamál og málefni framhaldsskólans. Síðan hefur verið undirritaður samningur við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu, svokallaður skólasamningur um starfsemi skólans á næstu þremur árum og var hann sá fyrsti af framhaldsskólunum sem ráðuneytið samdi við á þeim nýju forsendum.

Hvað varðar byggingarmálin þá hef ég ákveðið og samþykkt af hálfu menntmrn. að skipaður verði starfshópur til að fjalla um og gera tillögur um framtíð Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu og meta húsnæðisþörf hans með tilliti til spár um nemendafjölda og áætlana um námsframboð. Ég hef falið tveimur embættismönnum í ráðuneytinu það verkefni, Kristrúnu Ísaksdóttur deildarsérfræðingi, sem hefur komið að málefnum skólanna á Austurlandi og beitt sér fyrir þeirri vinnu sem þar hefur verið unnin til að ná því markmiði að allir skólarnir sameinuðust um þann samning sem fyrir liggur, og einnig er í viðræðuhópnum af hálfu ráðuneytisins Hermann Jóhannesson, deildarstjóri eignadeildar. Þess hefur verið óskað að tilnefndir verði fulltrúar frá sveitarfélaginu til viðræðna og þá verði farið yfir málefni skólans án þess að menn skuldbindi sig til að hefja neinar framkvæmdir. Skoða þarf ýmis málefni heima fyrir og átta sig á aðstæðum áður en ákvarðanir verða teknar um framkvæmdir en þær viðræður munu vonandi hefjast á þeim formlegu forsendum innan tíðar.