Nýbygging fyrir Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 16:15:26 (3068)

1998-01-27 16:15:26# 122. lþ. 52.4 fundur 110. mál: #A nýbygging fyrir Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[16:15]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingar sem hann hefur veitt um að nú hafi verið settur niður starfshópur til að kanna forsendur skólastarfsins og bygginga yfir það, þá hugsanlega án skuldbindinga eins og hæstv. ráðherra nefndi. Það er nauðsynlegt skref í málinu og ég vona að það leiði til þess fyrr en seinna að ákvarðanir verði teknar um bættar húsnæðisaðstæður skólans og afar nauðsynlegt að þar verði vel að unnið. Þetta mun vera nýleg ákvörðun af hálfu hæstv. ráðherra því að ekki var kunnugt um hana síðast þegar ég frétti um málið. Ég treysti því að vel verði starfað af þeim hópi sem hæstv. ráðherra hefur tilnefnt tvo af sínum embættismönnum í. Með þessari tillögu, sem ég legg til að fari til hæstv. menntmn., legg ég áherslu á að ákvarðanir verði teknar um fjárveitingar sem fyrst, bæði náttúrlega til að standa undir nauðsynlegu starfi þar sem er smávegis fjárveiting, ef ég man rétt, til að kanna þessi efni varðandi framhaldsskólann en einnig til að undirbúa framkvæmdir og tímasetja þær. Þessu vildi ég aðeins bæta við um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa upplýst þingið um þetta efni.