Nýbygging fyrir Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 16:17:31 (3069)

1998-01-27 16:17:31# 122. lþ. 52.4 fundur 110. mál: #A nýbygging fyrir Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[16:17]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar í nokkrum orðum að þakka hv. flm. tillögunnar fyrir flutning hennar. Einnig fagna ég því sem hæstv. menntmrh. sagði að starfshópur væri farinn af stað til að vinna í málefnum Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu.

Það vill svo til að ég heimsótti skólann í septembermánuði í fyrra. Ég hef komið í flesta framhaldsskóla á Íslandi en það sló mig þarna að ég hef hvergi séð unnið við aðrar eins aðstæður og eru þarna. Maður hefur á tilfinningunni að þrengslin séu slík að nemendur sitji nánast hver ofan á öðrum og þar að auki er húsnæði krókótt og mjög óhentugt í alla staði. Hins vegar fann ég að þarna var góður starfsandi og mikill áhugi meðal kennara á að gera sitt besta og t.d. mikill áhugi á samstarfi við aðra framhaldsskóla á Austurlandi til að gera námið hagkvæmara og eiga kannski möguleika á að bjóða upp á fleiri fög. Ég held að það sé mjög sérstakt í svo erfiðu starfsumhverfi hve starfsfólkið var jákvætt og tilbúið til að leggja sig fram og gera sitt besta við þessar aðstæður.

Mér finnst það alvarleg tíðindi, sem komu fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, að á þessu svæði stundi hlutfallslega færri nemendur nám í framhaldsskóla en annars staðar á landinu. Það hvetur mann til þess að setja það í það samhengi hvort það geti hugsanlega stafað af því að þarna sé ekki boðið upp á nægilega góðar aðstæður. Maður hafði það a.m.k. á tilfinningunni að fólk við nám þarna nyti ekki jafnréttis á við aðra framhaldsskólanemendur á Íslandi.