Agi í skólum landsins

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 16:20:34 (3070)

1998-01-27 16:20:34# 122. lþ. 52.5 fundur 186. mál: #A agi í skólum landsins# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[16:20]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um skipan nefndar til að auka aga í skólum landsins.

Flutningsmenn eru auk þess er hér stendur hv. þm. Guðni Ágústsson og Ólafur Örn Haraldsson. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd til að leggja fram tillögur um aukinn aga í skólum landsins.

Í nefndinni sitji fulltrúar menntamálaráðherra, Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Landssamtakanna heimili og skóli, Íþróttasambands Íslands, Ungmennafélags Íslands, samtaka framhaldsskólanema, Kennarasambands Íslands, Hins íslenska kennarafélags, Skólastjórafélags Íslands, Skólameistarafélags Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Æskulýðssambands Íslands.``

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Tillagan fjallar sem sé um aga í skólum. Í upphafi er rétt að taka skýrt fram að hér er ekki verið að boða það að innleiddur sé pískurinn margfrægi í skólum landsins né að höfða til ofbeldis með nokkrum hætti. Hugtakið agi er vandmeðfarið og er eðlilegt að haft sé í huga hvaða skilgreining er höfð þar á bak við.

Eins og segir í greinargerðinni er langt á milli hömluleysis og bælingar. Það sem er útgangspunkturinn í þessari þáltill. og sú hugsun sem þar er á bak við miðar við sjálfsaga, að börn og unglingar geti alist upp í slíku umhverfi að þau geti ræktað með sér sjálfsaga. Það er fyrst og fremst sjálfsaginn sem er horft til.

Segja má með fullgildum rökum að til þess að ungmenni nái að þroska með sér og rækta sjálfsaga þurfi þau að alast upp í tiltölulega öguðu umhverfi. Með nokkrum rökum má segja að umhverfi það sem við búum börnum okkar í dag sé ekki mjög agað. Ég leyfi mér, herra forseti, að nefna nokkur dæmi þar að lútandi.

Varla líður sá dagur að ekki sé greint frá því í fjölmiðlum að upp hafi komið mál er tengjast eiturlyfjaneyslu og afbrotum er því tengist. Fíkniefnavandinn hefur vaxið mjög óðfluga í samfélagi okkar og er orðinn eitt meginböl og er virkilegur ógnvaldur gagnvart þjóðfélaginu öllu, ekki síst ungu fólki. Það er þekkt að drykkjuskapur meðal fólks í landinu, og ekki síst ungs fólks, er töluverður og miðað við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum má segja að drykkjuskapur hér sé mikill. Við þekkjum dæmi úr fréttum af verslunarmannahelgi þar sem börn undir fermingaraldri fara ein síns liðs án samfylgdar við foreldra eða fullorðna á útisamkomur og sjást þar veltast um drukkin og í annarlegu ástandi. Við þekkjum vandamálið í miðborg Reykjavíkur og miðbæjum ýmissa stærri sveitarfélaga hér á landi. Og því hefur jafnvel verið haldið fram að einstaklingar geti ekki gengið óhultir um miðborg Reykjavíkur að næturlagi um helgar vegna áfengisneyslu, vegna ofbeldis, skemmdarverka og slíks.

Herra forseti. Þau vandamál eru alþekkt sem hafa oft komið upp af dansleikjahaldi á vegum skólanna, ekki síst framhaldsskólanna þar sem hverjum skólanum á eftir öðrum hefur verið úthýst úr samkomuhúsum vegna drykkjuskapar, óláta og ýmissa uppákoma er tengjast ekki síst drykkjuskap. Frásagnir af alls kyns ofbeldi og skemmdarverkastarfsemi eru því miður allt of algengar í fjölmiðlum. Umferðarmenning á götum Reykjavíkur og götum landsins er rómuð. Biðraðamenning Íslendinga hefur ekki verið afskaplega þróuð þó vissulega hafi orðið jákvæðar breytingar á allra síðustu árum þar á.

Þá er athyglisvert að samkvæmt upplýsingum sem komu fram í viðtali við lækni frá bráðamóttöku á Sjúkrahúsi Reykjavíkur mun slysatíðni barna hér á landi vera ein sú hæsta sem þekkist í heiminum. Þannig má áfram telja og ég hygg að þau dæmi sem hafa verið nefnd bendi eindregið til þess að börn okkar búi ekki við afskaplega agað umhverfi.

Líka má segja að í þessu umhverfi séu skilaboð til barna og unglinga afskaplega tvíræð. Ég nefni sem dæmi að hér eru í gildi ákveðnar reglur um útivistartíma barna og unglinga. Hins vegar er það alkunna að sá útivistartími er mjög gjarnan virtur að vettugi og jafnvel kornung börn sjást um miðjar nætur, ekki síst um helgar á sumrin, vera á þvælingi úti við. Við vitum það jafnvel að það eru dæmi þess að skemmtanir barna byrja klukkan 8 eða 9 að kvöldi og standa fram yfir miðnætti og er ég þá að tala um skemmtanir, jafnvel á vegum skóla, fyrir börn á bilinu 8--10 ára.

Við vitum að það eru í gildi lög um aðgang að áfengi en svo dæmi sé tekið benda rannsóknir til að óheyrilega stór hluti af unglingum í 9. og 10. bekk í grunnskóla neyti áfengis og hafi aðgang að áfengi að eigin sögn. Þetta eru dæmi um tvöföld skilaboð samfélagsins til barnanna. Þekkt eru vandamál sem komið hafa upp vegna samkvæma barna og unglinga í heimahúsum þar sem foreldrar eru fjarri og sinna eigin hugðarefnum eða áhugamálum. Það er þekkt í samfélagi okkar að vinnuveitendur ráða jafnvel grunnskólabörn til starfa á meðan skólaárinu stendur og kemur jafnvel til árekstra milli skólans og atvinnurekandans. Könnun á vegum Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála staðfestir þetta í rauninni.

Því hefur oft verið haldið fram að metnaðarleysi sé of algengt meðal nemenda í framhaldsskólum. Nemendur kæri sig kollótta um hvort þeir nái besta árangri og láti sér duga að ná og jafnvel að ná nokkrum áföngum í stað þess að setja markið hátt og ná öllum áföngum sínum og þá með góðri einkunn.

Það kemur einnig fram, herra forseti, í könnun að námsleiði er nokkuð algengur í skólum landsins, ekki síst í grunnskólum. Því hefur stundum verið haldið fram að kennsluaðferðir hjá okkur séu ekki réttar. Umdeilt hefur verið hvort svonefnd blöndun í bekki hafi skilað því sem hún á að skila og þannig má áfram telja. Við þekkjum dæmi þess að nemendur leggi sig afskaplega vel fram í íþróttum og skili þar mjög góðum árangri á sama tíma og þeir sinna ekki námi sínu í skóla eða skyldum sínum gagnvart heimilinu og þannig má áfram telja.

Ég dreg þetta fram til þess að reyna að skýra það umhverfi sem við búum börnum okkar og unglingum. Það er ólga, það er óagað umhverfi og það eru jafnvel tvöföld skilaboð sem við sendum börnum okkar. Af því má hugsanlega draga þá ályktun að börnin viti í rauninni varla til hvers er ætlast af þeim og standi jafnvel nokkuð ein og ráðvillt í þessu umhverfi. Það kann að vera skýringin fyrir sumu í atferli barna okkar og unglinga.

Herra forseti. Þau dæmi sem ég hef nefnt hér eru má segja áþreifanleg og sýnileg en við getum jafnframt spurst um aðra þætti, þá sem ekki eru jafnaugljósir, um tilfinningaþáttinn og hinn andlega þátt sem snertir börnin við að alast upp í slíku umhverfi.

[16:30]

Það er þekkt úr öllum kennslufræðilegum rannsóknum að nemendur þurfa að búa við öryggi. Þeir þurfa öryggi heima við og öryggi í skóla. Þeir þurfa að sjá tilgang í námi sínu. Námsleiði dregur úr námsárangri og þannig má áfram telja. Það sýnir sig líka að áfengisneysla dregur úr námsárangri, þ.e. að saman fer áfengisneysla unglinga og lakur námsárangur. Lítil tengsl foreldra við börn sín hefur bein áhrif samkvæmt rannsóknum á námsárangur barna og þannig má áfram telja.

Andspænis þessu má segja að fjölmargir aðilar eru að reyna sitt besta. Margir foreldrar reyna sitt besta til að ala börnin upp og vilja þeim í sjálfu sér allt hið besta. Hið sama má segja um skóla og ég hygg flesta kennara og skólafólk. Þeir reyna sitt besta til að veita börnunum aðhald, veita þeim lærdóm og aðstoða þau til þroska. Hið sama gildir í rauninni um íþróttahreyfinguna sem stundar afskaplega öflugt starf, sem er uppeldisstarf þar sem menn leggja sig einnig alla fram um að veita börnunum aðhald og aðstoða þau til þroska. Vandinn virðist hins vegar vera sá að þessir aðilar, heimili, skólar, íþróttafélög og ýmis félagasamtök sem sinna tómstundum unglinga tala afskaplega lítið saman. Niðurstaðan af því vegna þess hversu einangraðir þessir uppeldisaðilar eru ef svo má kalla virðist vera sú eins og einhver orðaði það að aðaluppalandinn eru ,,allir``. Það er kunnara en frá þurfi að segja þegar ungt fólk kemur heim til sín eða í skóla og heldur því fram að ,,allir`` megi stunda þetta, ,,allir`` megi hitt o.s.frv. og undan því láta foreldrar gjarnan vegna þess að þeir hafa ekki samskipti sín á milli vegna þess að umhverfið er tiltölulega óagað.

Ég leyfi mér að fullyrða, herra forseti, að töluverð gerjun er í samfélaginu vegna þessa. Fólk hefur áhyggjur af þessu og fólk er e.t.v. að vakna upp við vondan draum. Þannig hafa Landssamtökin heimili og skóli skorið upp herör og eru að reyna að hrista upp í foreldrum í samstarfi við skólana. Um það má vissulega segja að mjór er mikils vísir. Ég vil vekja athygli á því og má aldrei líta fram hjá því að ábyrgðin hvílir fyrst og síðast á foreldrum. Foreldrar munu aldrei geta vikið sér undan ábyrgð þótt uppeldishlutverkið hafi í vaxandi mæli verið að færast inn í skóla, t.d. með einsetnum grunnskóla, með leikskólum og með auknu íþróttastarfi og þar fram eftir götunum þá hvílir ábyrgðin á foreldrunum. Það er þeim mun mikilvægara að foreldrar forgangsraði í heimaranni sínum á þeim skamma tíma sólahringsins sem þeir virðast verja með börnum sínum að þeir verji þeim tíma þá vel, með börnunum, í þágu barnanna.

Samkvæmt könnun frá Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála bendir ýmislegt til þess að u.þ.b. helmingur barna í 9. og 10. bekk grunnskóla upplifi helgarnar þannig að þau hafi lítil sem engin samskipti við foreldra sína. Þau hverfi þess í stað hvert á vit annars, út á götu, í tölvuleiki, að vídeóleikjum, að sjónvarpi og þar fram eftir götunum. Þetta er áhyggjuefni og það er ástæða til að þeir fjölmörgu aðilar sem að uppeldi barna okkar koma taki höndum saman og hefji vitundarvakningu meðal þjóðarinnar en ég ítreka að ábyrgðin hvílir fyrst og fremst á foreldrum.

Í rauninni gengur þáltill. út á að hæstv. menntmrh. skipi nefnd þeirra aðila sem um getur í tillögunni til að fjalla um málið, vekja athygli á því og ef möguleikar eru að koma með ábendingar til úrbóta. Ég vænti þess, herra forseti, að tillagan fái jákvæða afgreiðslu á Alþingi og verði svo vísað til hæstv. menntmn.