Agi í skólum landsins

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 16:35:27 (3071)

1998-01-27 16:35:27# 122. lþ. 52.5 fundur 186. mál: #A agi í skólum landsins# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[16:35]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka hv. frsm. Hjálmari Árnasyni fyrir að hreyfa þessu máli í þáltill. Þetta er mjög þarft mál og þarf að ræða það ítarlega.

Agi hefur bæði kosti og galla. Kostir agans eru þeir að hann beinir orku ákveðins hóps fólks í eina átt og gerir það að verkum að sá hópur sem er saman kominn, hvort sem það eru nemendur í barnaskóla, unglingaskóla, háskóla, eða á þingi, getur unnið nokkuð ótruflaður. Agi getur hins vegar líka farið út í öfgar eins og við sjáum í heraga þegar hann kemur fram sem blind hlýðni sem getur verið mjög hættulegt. Hættulegt lýðræðinu eins og við höfum séð í sögunni. Hins vegar leiðir agaleysi í ákveðnum hóp til orkusóunar. Einstaklingarnir trufla hvern annan. Þeir vinna hver fyrir sig, ekki saman, heldur gegn hver öðrum. Það getur leitt til alls konar ringulreiðar, agaleysis sem við köllum, jafnvel eineltis og ofbeldis sem eru ákaflega neikvæðir þættir og við viljum ekki sjá. Hins vegar er fylgifiskur agaleysis, merkilegt nokk, það að frumkvæði einstaklings og sjálfstæði hans fær dafnað þannig að þarna er nokkuð vandmeðfarið að finna hinn gullna meðalveg milli of lítils aga og of mikils aga.

Ég hef oft dáðst að íslenskum ungmennum í samanburði við erlend ungmenni, hvað íslensk ungmenni eru sérstaklega sjálfstæð og ákveðin og geta tekið ákvarðanir upp á eigin spýtur. Mér finnst íslensk ungmenni hafa mjög mikið frumkvæði miðað við félaga þeirra erlendis þar sem agi er víðast hvar mjög mikill. Kosturinn við agaleysið er að frumkvæðið helst og einstaklingurinn verður sjálfstæður. En þetta má ekki bitna á því að þau komist ekki til þroska vegna þess að þau ná hreinlega aldrei þeim markmiðum sem felast í góðu námi í góðum skóla. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn taki á þessu og reyni að finna eitthvert bil milli járnaga, heraga, og hins vegar agaleysis eða ringulreiðar.

Herra forseti. Hvers vegna eigum við í þessum vanda hér á Íslandi? Hvers vegna vita foreldrar ekki hvernig á að ala upp börn? Það er vegna þess að foreldra vantar fyrirmynd. Þegar ég t.d. sé og tek eftir því með börn mín að tölvuleikir æsa þau og trylla þá hef ég enga fyrirmynd. Ég veit ekki hvað börn mega vera mikið í tölvuleikjum eða hvort það sé yfirleitt hollt fyrir þau að vera í tölvuleikjum og ég get ekki farið aftur í mína æsku og reynt að finna út fyrirmyndir þar. Hversu lengi lék ég mér á tölvu sem barn? Hversu lengi var mér leyft að horfa á vídeó eða sjónvarp þegar ég var barn? Foreldra vantar fyrirmyndir. Hvað er eðlilegt að gera þegar breytingar eru svo örar? Þess vegna er mjög mikilvægt að gefnar séu út einhverjar leiðbeinandi reglur um það fyrir foreldra hvað er eðlilegt og hver er eðlilegur agi t.d. í sambandi við umgengni við þessa nýju tækni. Einn þátturinn í því að hafa aga er að vita hvaða reglur á að setja. Það gildir bæði fyrir foreldra og börn.

Herra forseti. Ég er mjög hlynntur því að þetta verði skoðað. Ég er á því að agi sé of lítill í skólum hér á landi, hann megi vera meiri. Hann megi vera töluvert meiri. En við skulum gæta okkar á því að hann verði ekki járnagi. Ég tek undir með hv. flutningsmanni að það er sjálfsaginn sem við eigum að byggja upp. Sjálfsaginn verður aldrei að járnaga, hann verður aldrei að heraga. Sjálfsaginn er það sem við eigum að byggja upp og reyna að búa til og gæta þess að einstaklingurinn haldi því dásamlega sjálfstæði sem íslenskir unglingar búa við og einnig að þau haldi frumkvæði sínu sem oft og tíðum er drepið niður í íslenskum skólum, því miður. Þetta er mjög mikilvægt. Ég vonast til að sú nefnd sem verður sett á laggirnar, ef þetta verður samþykkt, komist að skynsamlegri niðurstöðu um það hvað aginn eigi að vera mikill.