Miðstöð háskóla- og endurmenntunar á Austurlandi

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 17:13:03 (3078)

1998-01-27 17:13:03# 122. lþ. 52.7 fundur 260. mál: #A miðstöð háskóla- og endurmenntunar á Austurlandi# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[17:13]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Tillaga sú sem ég mæli fyrir um miðstöð háskóla- og endurmenntunar á Austurlandi er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að stuðla að því í samvinnu við háskólanefnd Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi og Atvinnuþróunarfélag Austurlands að hið fyrsta verði komið á fót miðstöð háskólastigs og endurmenntunar í Austurlandskjördæmi.

Verkefni miðstöðvarinnar verði fyrstu árin að auðvelda og þróa tengsl nemenda framhaldsskóla, almennings og atvinnulífs á Austurlandi við skóla og nám á háskólastigi og tengja saman aðila sem sinna endurmenntun og símenntun á Austurlandi.``

Flm. ásamt þeim sem hér talar eru hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir og Jón Kristjánsson.

Tillaga þessi er komin öðru sinni fyrir Alþingi, nú með smávægilegum breytingum frá síðasta þingi, sem rétt er að geta en þá bar hliðstætt mál heitið ,,Tillaga til þingsályktunar um upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi``.

Í tillögugreininni var vísað til samráðsnefndar framhaldsskóla á Austurlandi sem er nú háskólanefnd Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi sem vísað er til. Annað er í rauninni orðalagsbreytingar sem breyta ekki innihaldi. Tekið er upp hugtakið endurmenntun og símenntun og áhersla lögð á það en í hinni fyrri tillögu var talað um námskeið og fjarkennslu m.a. sem verkefni fyrir þessa miðstöð.

[17:15]

Við frágang málsins var talið rétt að birta með tillögunni umsagnir þeirra sem gáfu hv. menntmn. umsögn um málið á síðasta þingi. Þær fylgja þessu máli til glöggvunar bæði fyrir þá sem skoða það hér í þinginu og aðra en umsagnir um málið á fyrra þingi voru undantekningarlaust jákvæðar má segja. Tekið var jákvætt undir efni tillögunnar, allt frá umsögn sem kom frá menntmrn. til nefndarinnar sem og annarra sem um málið fjölluðu, þar á meðal voru háskólarnir í landinu eða fulltrúar þeirra sem sendu inn umsögn.

Við umræðu um málið á síðasta þingi talaði hæstv. menntmrh. og tók mjög jákvætt á efni þessa máls og þar komu fram athyglisverð atriði. Segja má að almennt hafi þetta mál fengið ágætar viðtökur, einnig þar sem eðlilegt er að áhuginn sé hvað mestur, þ.e. á Austurlandi þar sem mikið hefur verið um þetta fjallað og talsvert hefur verið að gerast í sambandi við málið jafnhliða því sem þessi tillaga hefur legið fyrir þinginu.

Það er rétt að rifja upp það sem fram kemur í greinargerð, svo ég vitni þar með beint til greiðargerðar þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Að mati flutningsmanna eru ekki raunhæfar forsendur í bráð til þess að efna til sjálfstæðs háskóla á Austurlandi og önnur tilhögun er vænlegri til að Austfirðingar fái með skjótum hætti greiðari aðgang og betri tengsl við háskólastigið en nú er. Lagt er til að Alþingi feli menntamálaráðherra að stuðla að því í samvinnu við háskólanefnd Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi (SSA) og Atvinnuþróunarfélag Austurlands að hið fyrsta verði komið á fót miðstöð háskólastigs og endurmenntunar í fjórðungnum. Verkefnasvið þessarar miðstöðvar verði fyrst í stað einkum tvíþætt eins og fram kemur í nafngiftinni miðstöð háskólastigs og endurmenntunar, þ.e.:

að þróa víðtæk tengsl við skóla og nám á háskólastigi annars staðar á landinu og miðla þeim tengslum til nemenda framhaldsskóla, almennings og atvinnulífs á Austurlandi;

að stuðla að endurmenntun og námi á þessu skólastigi á Austurlandi, m.a. í formi námskeiða og fjarkennslu.

Endurmenntun, símenntun og fjarkennsla í samstarfi við þá háskóla sem fyrir eru gætu orðið meðal helstu verkefna miðstöðvarinnar og tengst framhaldsskólum, fyrirtækjum og starfsgreinafélögum innan fjórðungsins.``

Þetta lýsir í rauninni hugsun okkar flm. varðandi verkefni miðstöðvarinnar. Þó að það hafi ekki komið fram með áberandi hætti má vera að einhverjum finnist að ekki sé sá metnaður að baki þessum tillöguflutningi sem þeir hefðu viljað sjá, þ.e. að gera tillögu um að koma upp háskóla á Austurlandi. Eins og hér hefur komið fram og tillagan ber með sér teljum við það ekki skynsamlega byrjun á þessu máli en væntum þess jafnframt, í ljósi þess hvernig í málið er gengið af okkar hálfu, að þessi hugsun og sú þróun sem hér er gert ráð fyrir fái raunverulegan stuðning og framgang. Auðvitað er afar mikilvægt að það gerist.

Ég vil geta þess að starfandi hefur verið sérstök nefnd, nú kölluð háskólanefnd Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, og hefur nú verið að störfum á annað ár. Hún lagði efni fyrir aðalfund Sambands sveitarfélaga sl. sumar, í lok ágúst, þar sem fjallað var um málið í ljósi greinargerðar nefndarinnar og með hliðsjón af þeirri tillögu sem flutt var á síðasta þingi. Ég leyfi mér að vitna til samþykktar aðalfundar SSA um málið, með leyfi forseta, sem er svohljóðandi:

,,Aðalfundur Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, haldinn á Fáskrúðsfirði dagana 28.--29. ágúst 1997, telur háskóla- og endurmenntun mikilvæga þætti í byggðastefnu og því nauðsynlegt að stuðla að jafnrétti til slíkrar menntunar á landsbyggðinni.

Fundurinn lýsir yfir stuðningi við sameiginlega hugmynd í þingsályktunartillögu þingmanna Austurlands og tillögu háskólanefndar SSA um að hið fyrsta verði komið á fót miðstöð háskóla- og endurmenntunar á Austurlandi.

Fundurinn felur háskólanefnd SSA að vinna að stofnun slíkrar miðstöðvar í samstarfi við austfirskt atvinnulíf, aðila sem sinna háskóla-, endur- og símenntun svo og stofnanir sem vinna að byggðamálum.

Fundurinn minnir á að það er ríkisins að fjármagna verkefni á háskólastigi. Því þarf að leita eftir stuðningi menntamálaráðherra við málið og fá fjárveitingu frá Alþingi þegar á árinu 1998 til að koma miðstöðinni á fót.``

Eins og þarna kemur fram var lögð áhersla á að fá fjárveitingu til málsins og hið ánægjulega gerðist við afgreiðslu fjárlaga fyrir hátíðir að veittar voru 8 millj. kr. til undirbúnings þessa máls með hliðsjón af sérstöku erindi sem háskólanefnd SSA hafði komið á framfæri við nefndina. Þar var óskað eftir fjárveitingu til að ráða starfsmann til að undirbúa stofnun miðstöðvar háskóla- og endurmenntunar og auk þess til að kosta sérstakt tilraunaverkefni til að nýta gagnvirkt sjónvarp eða fjarfundabúnað til kennslu í framhaldsskólum á Austurlandi. Það síðara með tilliti til þess að nauðsynlegt sé að framhaldsskólarnir tengist því starfi sem hér er um að ræða. Þeir skila fólkinu upp á háskólastigið eða a.m.k. í áttina að því og eru þær stofnanir sem byggt er á við undirbúning að háskólamenntun. Fjárveiting sú sem þarna fékkst mun vera til athugunar vegum menntmrn. Þar verður kannað hvernig hún nýtist sem best enda brýnt að svo verði við undirbúning þessa máls.

Nefndin sem þarna hefur verið að starfi á annað ár hefur látið það koma fram að hún geri ráð fyrir að annað þurfi að taka við innan tíðar. Nefndarstarfið og ráðning starfsmanns til undirbúnings er auðvitað mikilvægt veganesti til að þróa þessa hugmynd frekar og tryggja að unnið verði að henni þannig að hún komi til framkvæmda. Jafnhliða er sjálfsagt og brýnt að Alþingi segi álit sitt á málinu með því að álykta um málefnið, þetta óskamál Austfirðinga á sviði háskólamenntunar ef svo má segja. Þannig væri stuðningur þingsins við þetta málefni ljós. Ég vænti þess, virðulegur forseti, að hv. menntmn. sem fær málið til frekari meðferðar tryggi að tillagan fái afgreiðslu á þessu þingi. Mér sýnist að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að Alþingi taki afstöðu til málsins og jákvæða afstöðu í ljósi góðra undirtekta frá nánast öllum sem hafa tjáð sig um þetta efni.

Ég vil geta þess, virðulegur forseti, að þegar hæstv. menntmrh. ræddi þetta mál við umræðu um hliðstæða tillögu á síðasta þingi, vék hann m.a. að því umhugsunarefni að áhuginn í aðalatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum, á háskólamenntun og að nýta krafta þeirra sem hefðu öðlast slíka menntun væri minni en þyrfti að vera. Svo ég sé ekki að leggja hæstv. ráðherra orð í munn vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að vitna til ummæla hans en eftir að ráðherra hafði velt þessu fyrir sér sagði hann:

,,Þetta er atriði sem mér finnst að við getum ekki litið fram hjá og er atriði sem þarf að ræða hér eins og annars staðar og velta því fyrir sér hvort kröfurnar sem þessi undirstöðuatvinnugrein gerir til menntunar starfsmanna sinna séu nægilega miklar.``

Ég rifja þetta upp hér vegna þess að ég held að þetta sé alveg hárrétt ábending. Ég tel að hún hafi fengið staðfestingu og sé að koma fram með ýmsum hætti m.a. á Austurlandi. Ráðherrann bætti því við að athyglisvert væri að óskirnar eftir endurmenntun og símenntun kæmu frá þeim sem þegar hefðu öðlast slíka menntun og sem vildu bæta við sig. Ég tel að hér sé um að ræða ákveðinn vítahring víða í undirstöðum atvinnulífs okkar sem endurspeglast m.a. í því að fólkið sem þegar hefur öðlast allgóða undirstöðumenntun sækir í endurmenntun og notar þau tækifæri sem þar eru til en hinir sem ekki hafa komist á sporið, ef svo má segja, gera ekki kröfur um að aðstaða sé til frekari menntunar og knýja ekki á um endurmenntun.

Á fyrrnefndum aðalfundi SSA sl. sumar var kynnt könnun sem háskólanefndin hafði staðið fyrir varðandi hug forstöðumanna fyrirtækja á Austurlandi til menntunar og þarfarinnar fyrir að bæta við sig menntuðu starfsfólki. Svörun var nú ekki sem skyldi í þessari könnun sem Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri stóð fyrir. Ekki var nema 36% svarhlutfall og það gerðist m.a. að sjávarútvegsfyrirtækin voru almennt treg til að svara þessu. Helst var að svör kæmu frá þjónustufyrirtækjum og annars staðar þar sem háskólamenntað fólk var frekar í forsvari.

Ég nefni þetta hér, virðulegi forseti, til þess að leggja áherslu á að fjórðungur eins og Austurland sem byggir sitt á frumvinnslugreinum, í sjávarútvegi og landbúnaði, langtum meira en t.d. á höfuðborgarsvæðinu, hefur mikla þörf fyrir að aðstaða verði bætt til að sóknar á háskólastigi (Forseti hringir.) og í endurmenntun.

Ég treysti því að sá góði hugur sem fram hefur komið um þessi efni í tengslum við flutning þessarar tillögu á síðasta þingi og í þeirri umræðu sem orðið hefur varðandi tillöguna utan þings verði til þess að málið fái jákvæðan framgang og stuðning þannig að undirstöðurnar verði að þessu leyti treystar á Austurlandi eins og gera þarf um allt land.