Miðstöð háskóla- og endurmenntunar á Austurlandi

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 17:32:40 (3080)

1998-01-27 17:32:40# 122. lþ. 52.7 fundur 260. mál: #A miðstöð háskóla- og endurmenntunar á Austurlandi# þál., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[17:32]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið var málið rætt á síðasta þingi og einnig við afgreiðslu fjárlaga. Þá var ákveðið að veita 8 millj. kr. til að vinna að því málefni að efla eða koma á laggirnar miðstöð eða starfsemi á háskóla- og endurmenntunarstigi á Austurlandi. Eftir að fjárlögin voru samþykkt hefur menntmrn. fjallað um málið og einnig hefur háskólanefnd Sambands sveitarfélaga á Austurlandi fjallað um málið og sent erindi til mín sem er til athugunar. Því er ljóst að forsendur eru fyrir því núna að sinna þessu verkefni með öðrum hætti en áður vegna þess að veittir voru fjármunir til að líta á frumþætti málsins. Sú vinna er að fara af stað og eins og fram hefur komið hafa ýmsir aðilar veitt umsagnir um hugmyndina og er gagnlegt að sjá það allt á einum stað í fylgiskjölum þeirrar tillögu sem fer nú til hæstv. menntmn. til athugunar.

Ég vil láta það koma fram, sem kom raunar fram í umræðum áðan um Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu, að 5. nóv. sl. undirrituðu skólameistarar framhaldsskóla á Austurlandi samkomulag til þriggja ára um skipulegt samstarf skólanna. Má rekja það samkomulag til frumkvæðis sem kom úr menntmrn. og starfs á vegum ráðuneytisins á Austurlandi sem hefur miðað að því að efla samstarf á milli skólanna. Samningurinn er liður í þeirri stefnu að efla samvinnu og verkaskiptingu á milli framhaldsskóla og skapa með því grundvöll að auknum gæðum náms og betri nýtingu fjár þegar til lengri tíma er litið.

Samningurinn sem skrifað var undir 5. nóv. er fyrsti samningurinn af þessu tagi sem gerður hefur verið milli framhaldsskóla á einu landsvæði. Það kemur fram í samstarfssamningnum, sem verður nú hrundið í framkvæmd og ráðinn hefur verið starfsmaður til að sinna, að eitt af þeim verkefnum sem skólarnir ætla að sinna sameiginlega er að hafa samráð um framboð á sviði fullorðinsfræðslu og símenntunar. Einnig kemur fram og hefur komið fram í umræðum um málið að mjög nauðsynlegt væri að tengja skólana betur saman með gagnvirku sjónvarpi eða öðrum búnaði sem gerði kleift að miðla fræðslu á milli skólanna með hinni nýju tækni. Þetta mál lýtur að nokkru leyti að þessu sama. Það lýtur að því að menn vilja auka veg endurmenntunar á háskólastigi, símenntunar og fullorðinsfræðslu á Austurlandi með háskólagæðastimpli. Menn vilja einnig koma málum þannig fyrir að hin nýjasta tækni verði nýtt til að auðvelda aðgang að slíku námi og tengja þá væntanlega saman skóla á Austurlandi, Akureyri og í Reykjavík þar sem háskólar starfa og einnig framhaldsskólana á Austurlandi innbyrðis þannig að menn sitji við sama borð ef svo má að orði komast þegar hinna nýju kosta er neytt með tilstuðlan nýrrar tækni. Mér finnst að þetta hljóti að verða fyrsta verkefnið þegar við förum að sinna þessum viðfangsefnum. Samhliða því sem hæstv. menntmn. fjallar um tillöguna finnst mér sjálfsagt að lagt verði á ráðin af hálfu menntmrn. í samvinnu við heimamenn hvernig við nýtum fjármunina best í þeim anda sem lýst er í tillögunni og á þeim forsendum sem liggja fyrir með samstarfi framhaldsskólanna og óskum manna þar um að þeir komi að fullorðinsfræðslu, símenntun og endurmenntun og tengist háskólum með einum eða öðrum hætti.

Þetta er viðfangsefnið, það er ágætt að orða það en það kann að vera mun flóknara í framkvæmd. Eins og kemur fram í umsögnum frá síðasta ári er áhugi bæði frá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands á því að taka þátt í þessu og vafalaust vilja fleiri skólar á háskólastigi láta að sér kveða. Við vitum að Kennaraháskólinn hefur þegar beitt sér fyrir endurmenntunarnámskeiðum á Austfjörðum með tilstuðlan fjarkennslubúnaðar og tölvubúnaðar. Ég er sammála því að við þurfum að ná höndum utan um þetta. Það er æskilegt að ráða starfsmann til að sinna því og meta kostina í þessu en markmiðin finnst mér að eigi að vera þessi: Að nýta sér samstarfið milli framhaldsskólanna, þau markmið sem þeir hafa sett sér, nýta sér hugmyndirnar um tæknibúnað til að auðvelda þetta og taka upp viðræður við háskólastofnanir og sjá hvernig hægt er að þróa þetta skynsamlega í anda þess mikla áhuga sem er á Austfjörðum til að skapa forsendur fyrir námi á háskólastigi þar án þess að þar verði reistur sérstakur háskóli eða komið á laggirnar sérstakri háskólastofnun með öðrum hætti en hér er lýst og um er fjallað í þessari þáltill.