Almannatryggingar

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 18:02:33 (3086)

1998-01-27 18:02:33# 122. lþ. 52.8 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv., GHelg (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[18:02]

Guðrún Helgadóttir (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð hv. 11. þm. Reykn. Ágústs Einarssonar. Hér er afar sérkennilega að verki staðið. Í fyrsta lagi er það rangt, hæstv. forseti, sem ráðherra segir að 2. gr. frv. sé samhljóða þeirri grein sem samþykkt var á þingi fyrir jól. Þær eru ekki samhljóða. Þar er sá reginmunur á að ef þingmaður sem ekki veit að til stendur að tala ekki fyrir nema hluta frv. eins og það er, les frv. sér hann að þar hefur fallið út þýðingarmikið atriði, þar sem það er ekki gert að skilyrði, til að slysatryggja sjómenn, að greitt sé af launum þeirra hér á landi.

Það er ómögulegt fyrir venjulegan þingmann að ætla annað en að ráðherrann hafi ætlað sér að breyta þessu og hætta að krefjast þess að greidd séu launatengd gjöld. Það er því ekki rétt að þetta sé algjörlega samhljóða. Ég fagna því hins vegar að 2. gr. verður ekki tekin til afgreiðslu því að lengi getur vont versnað.

Það sem er athugavert við alla þessa meðferð er hins vegar þetta: Þingmenn taka mark á þeim frv. sem liggja á borðum þeirra. Þeir undirbúa þátttöku sína í umræðu miðað við það frv. sem liggur fyrir. Við getum ekki fundið á okkur hvenær þeim sem ætlar að mæla fyrir frv. þóknast að hætta við eitthvað sem í því stendur. Ég trúi því ekki að starfsmenn hins háa Alþingis telji þarna rétt að farið og ég minnist þess ekki að hafa séð þetta gerast hér fyrr.

Það er annað sem mér finnst líka sérkennilegt við gerð þessa frv. Venjan er sú að þegar nýr kafli er settur inn í langan lagabálk þá koma greinar frv. í réttri röð, og sé einhverju bætt inn hækkar númerið einfaldlega á þeim lagagreinum sem á eftir koma. Eins og gefur að skilja hlýtur sú breyting að verða þegar 53. gr. er felld út úr núverandi lögum um almannatryggingar og ég vænti þess þá að þau greinanúmer sem á eftir koma breytist að sama skapi. Hér er hins vegar valinn sá kostur að búa til nýjan kafla á eftir I. kafla og 9. gr. I. kafla er síðasta greinin. Síðan komi heill kafli sem verði 9. gr. a, b, c og d. Ég hef aldrei séð þetta áður. En þetta er líklega gert til þess að ekki þurfi að hækka greinanúmerin sem á eftir koma.

Ég held, hæstv. forseti, að hér sé mjög óvenjulega að verki staðið og erfitt fyrir hv. þingmenn að átta sig á ef þetta á að verða siður á hinu háa Alþingi.