Almannatryggingar

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 18:07:22 (3088)

1998-01-27 18:07:22# 122. lþ. 52.8 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv., ÁRJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[18:07]

Ásta R. Jóhannesdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég get tekið undir það að þessi umræða hefði e.t.v. getað átt sér stað undir efnisumræðu um frv.

Það er mjög sérkennilegt að 2. gr. frv. skuli vera haldið inni eftir að búið var að samþykkja frv. fyrir jól, sem gengur lengra en þessi frumvarpsgrein. Eins og komið hefur fram í máli hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur gengur lagagreinin lengra, og það eru atriði í lagagreininni, sem við samþykktum fyrir jól, sem ganga lengra en grein hæstv. ráðherra.

Auðvitað má segja að þegar menn lesa frv. gætu þeir haldið að ráðherrann væri að leggja fram breytingu á lögunum sem ætti að ganga skemur en það frv. sem varð að lögum fyrir áramót. Það er mjög óvenjulegt að láta þá grein ganga í gegnum þingið og gegnum umræðuna sem gengur skemur en sú grein sem við samþykktum og er orðin að lögum.

Ég tek undir þá gagnrýni sem hefur komið fram um fundarstjórn forseta, þó að e.t.v. mætti ræða þetta undir lið sem heitir athugasemdir um störf þingsins, ef það væri hægt. En vissulega tek ég undir að þetta virkar a.m.k. óeðlilega frá mínum bæjardyrum séð. Engu að síður gætum við rætt þetta frekar í umræðunni um frv. í heild.