Almannatryggingar

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 18:10:23 (3090)

1998-01-27 18:10:23# 122. lþ. 52.8 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv., ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[18:10]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Sú umræða sem ég hóf snertir fundarstjórn forseta en ekki efnisatriði málsins. Það sem ég geri athugasemdir við er að frv. skuli lagt fram og talað fyrir því í því formi sem það er. --- Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort ekki væri hægt að gera ráðstafanir til að hæstv. ráðherra hlýði á mál mitt. Það er kannski sanngjarnt af því að málið snýst um frv. sem ráðherrann flytur.

Málið snýst einfaldlega ekki um það, eins og hæstv. ráðherra sagði, hvort mönnum væri eitthvað í fersku minni í sambandi við frv. hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar eða ekki. Um það snýst málið ekki. Málið snýst um það að fyrir liggur stjfrv. --- og er búið að liggja fyrir í langan tíma --- sem verið er að taka til 1. umr. Það liggur hins vegar ljóst fyrir og er upplýst af hæstv. ráðherra að hann dregur 2. gr. til baka og allt sem henni tilheyrir. Ég spurði hæstv. forseta hvort eðlilega væri farið að þingsköpum vegna þess að hæstv. ráðherra upplýsti að þær breytingar sem voru gerðar á lögunum, þ.e. út frá frv. Guðmundar Hallvarðssonar, voru gerðar með fullri vitneskju ráðherrans og ráðuneytisins. Það er þess vegna sem ég spyr hvort hér sé eðlilega að verki staðið. Það hefur liðið mjög langur tími. Vitaskuld þekkjast dæmi þess að frumvörp geti skarast í hita leiksins í lok þingtíma eða eitthvað þess háttar og við erum í sjálfu sér ekki að gera neina athugasemd við slíkt. Við erum að greiða fyrir störfum þingsins.

Hæstv. forseti sagðist ekki sjá í fljótu bragði að þetta bryti í bága við þingsköp, og ég hlíti alltaf úrskurði forseta. Ég vildi spyrja hæstv. forseta hvort hann hefði ekki talið eðlilegt með tilliti til forsögu málsins að þetta frv. hefði annaðhvort verið lagt fram aftur og þá tekið með afbrigðum eða prentað upp. Það hefði ekki staðið á okkur í stjórnarandstöðunni að taka málið án 2. gr. Það hefði verið einfaldast úr því að ekki var um efnisbreytingu að ræða heldur eðlilega breytingu vegna þess að lagasetning hafði átt sér stað í millitíðinni. Það hefðu verið eðlileg vinnubrögð og ég vil spyrja hæstv. forseta hvort ekki hefði verið rétt að viðhafa þá málsmeðferð að hæstv. ráðherra, þegar honum var ljóst hvernig málið var vaxið, að úr því að þau mistök höfðu átt sér stað að lagfæra ekki frv., hvort ekki hefði þá verið eðlilegt að prenta það einfaldlega upp þannig að menn hefðu staðið með rétt frv. í höndunum en ekki, eins og komið hefur fram, rangt í því tilviki að 2. gr. er inni. Ég ætla ekki að tala um 2. gr. eða frv. hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar. Mér finnst það í sjálfu sér ekki koma málinu við undir þessum dagskrárlið heldur fyrst og fremst það hvort verið er að láta umræðuna fara fram með eðlilegum hætti. Hefði ekki verið hægt að finna því annan farveg? Það er ekki minn vilji að tefja störf þingsins heldur vil ég einfaldlega hafa hlutina rétta. Hér finnst mér ekki hafa verið rétt að staðið.