Almannatryggingar

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 18:15:09 (3093)

1998-01-27 18:15:09# 122. lþ. 52.8 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[18:15]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þetta frv. sem hér er til umræðu um breytingu á lögum um almannatryggingar, með síðari breytingum, er eins og kom fram í máli hæstv. heilbrrh. breytingar á gildandi lögum og reglum sem eru í raun sanngirnismál og er til að gera lögin og reglurnar um almannatryggingar sveigjanlegri. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra hefur komið í ljós eftir að lögunum um almannatryggingar var breytt árið 1993 og við gerðumst aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, að í sumum tilvikum misstu menn niður réttindi --- en það var í rauninni ekki í anda laganna --- vegna þess að EES-samningarnir og lögin stönguðust á því tryggingin hér á landi miðast við lögheimili en víða á EES-svæðinu er rétturinn bundinn við atvinnuþátttöku. Eins og kom fram í máli ráðherrans hefur það komið fyrir og við þekkjum mörg dæmi þess að einstaklingar hafa ekki fengið þær almannatryggingabætur sem þeir áttu ella rétt á vegna þess að ólíkar reglur voru í gildi.

Ég nefni sem dæmi mál sem ég hef oft heyrt af og fólk hefur leitað til mín með. Það eru greiðslur fæðingarorlofs þar sem námsmenn t.d. á Norðurlöndum hafa ekki átt rétt á fæðingarorlofi, hvorki í dvalarlandinu né hér á landi vegna þess að ekki var samræmi í reglum, þó svo að íslenskur námsmaður í Bandaríkjunum t.d. gæti átt réttinn hér á landi. Og móðir sem flutti frá Norðurlöndunum átti ekki lengur rétt á greiðslum þar og ekki hér vegna þess að barnið var ekki fætt hérna. Svona mætti náttúrlega lengi telja. Það er allt of langt mál að tína til öll þau tilvik sem komið hafa upp en vissulega er löngu tímabært að taka á þessum málum, gera þessar reglur sveigjanlegri og samræma þær.

Hér er líka verið að taka á málinu með biðtímann. Reyndar þarf það að koma hér fram að sex mánaða biðtími eftir sjúkratryggingum kom inn í lögin 1993 en er alveg óháður samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Ýmis mál hafa komið upp þar sem mönnum hefur ekki þótt sanngjarnt að þeir væru ekki taldir sjúkratryggðir hér á landi. Ég get ekki séð annað en að verið sé að taka á þeim málum í þessu frv. Einnig tel ég eðlilegt sem hér er lagt til, að sett verði upp sérstök viðbótarskrá við þjóðskrána af þeim ástæðum sem getið er í frv.

Í b-lið 1. gr. er talað um að mönnum skuli veittur réttur til að tryggja sig áfram, þ.e. að þeir sem starfi erlendis fyrir aðila sem hafi aðsetur og starfsemi á Íslandi, eigi rétt á að tryggja sig eigi síðar en fjórum vikum fyrir brottför af landinu. Það er ágætisbreyting, jákvæð breyting. En ég vil leggja áherslu á að það verði kynnt rækilega því það er nú oft svo að menn fara ekki að vasast í þessum málum fyrr en þeir eru lentir í vandræðum. Þá er farið að athuga hvort menn séu með trygginguna. Það er því mikilvægt er að þeir sem eru í þessari aðstöðu séu upplýstir um að þeir eigi rétt á að tryggja sig fjórum vikum fyrir brottför af landinu.

Ég vil fagna þeim breytingum sem lagðar eru til í þessum nýja kafla. Það er ljóst að þetta mun hafa einhvern viðbótarkostnað fyrir Tryggingastofnun í för með sér við almannatryggingarnar því þarna er verið að gera rétt fleiri skýrari í lögunum og má búast við að fleiri geti þá sótt sinn rétt en áður og menn verða að gera sér grein fyrir því. En það er fagnaðarefni að þarna skuli lagastoðin, reglurnar og réttindi þeirra sem ættu að eiga þarna rétt, vera skýrð betur því ég held að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og Norðurlandasamningurinn sem gilti fyrir þann samning og sömuleiðis almannatryggingalögin hafi aldrei verið hugsuð þannig að einhverjr ættu að fara þar halloka sem ella hefðu átt rétt á greiðslum eins og því miður hefur orðið reyndin í ýmsum málum.

Ég tel mikilvægt að heilbr.- og trn. fari vel yfir þetta mál sem ég veit að hún mun gera og ég get ekki séð annað en að málið ætti að fá góða afgreiðslu í nefndinni.