Almannatryggingar

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 18:22:07 (3094)

1998-01-27 18:22:07# 122. lþ. 52.8 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[18:22]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Við fyrstu sýn og í fljótu bragði verður ekki annað séð en að þær breytingar sem hér er lagt til að gerðar verði á almannatryggingalögum séu flestallar til bóta. Það er alveg ljóst --- og sá sem hér talar þekkir það eilítið enda forsvarsmaður að þeim reglum, mælti hér fyrir þeim og hafði þær í gegn jafnvel við nokkra mótstöðu ef ég man rétt --- þegar þessi sex mánaða regla var sett á sínum tíma og þá sem undanfari EES-samningsins --- hún var þó ekki hluti hans en kom engu að síður inn á svipuðu tímabili eða nokkru áður --- að þetta hefur skapað ákveðin vandkvæði og það er að finna og reynslan sýnir ákveðin markatilvik sem nauðsynlegt er að taka á og núgildandi löggjöf hefur ekki gefið nægjanlegt svigrúm til að gera. Ég fagna því út af fyrir sig að hér skuli lagt til að löggjafinn heimili framkvæmdarvaldinu að meta það út frá mannúðarsjónarmiðum og út frá ýmsum kringumstæðum öðrum en leyft hefur verið fram að þessu.

Ég vil hins vegar rifja upp hvers vegna þessi sex mánaða biðtími var settur á sínum tíma. Það var að ákveðnum gefnum tilefnum. Það voru dæmi þess að fólk sem hér var ekki sjúkratryggt og hafði ekki verið um langt árabil gerði það gjarnan að koma hingað upp til að sækja sér læknisaðstoð og þá kannski ekki síst læknisaðstoð sem kostaði mikla peninga. Þetta var fólk sem hafði jafnvel búið erlendis um áratuga skeið og það þótti brýnt og ég held með réttu, að reynt yrði að koma einhvern veginn í veg fyrir þetta háttalag. Maður minnist dæma í því sambandi af fólki sem hafði búið utan hins Evrópska efnahagssvæðis, í Bandaríkjunum og víðar og hafði sökum þess heilbrigðiskerfis sem margir renna hýru auga til þar vestra, en þar höfðu menn hreinlega ekki efni á að sækja sér nauðsynlega læknishjálp og komu þá heim til gamla landsins og sóttu hana hingað fyrir lítinn pening og oftar en ekki kannski ókeypis. Menn vildu setja á þetta einhverjar hömlur sem eðlilegt er.

Á hinn bóginn, eins og ég gat um, eru engar reglur þannig samansettar að einhverjar undantekningar þurfi ekki að vera og einhver sveigjanleiki þurfi ekki að vera í kerfinu. Ég þekki nokkur dæmi þess að fólk hefur lent í erfiðleikum vegna þessarar sex mánaða reglu sem hefur verið mjög altæk og gefið litla möguleika á túlkun auk þess sem því miður, og það verður nú kannski seint komið í veg fyrir það fyrir fullt og fast, að fólki var ekki og er raunverulega ekki enn þá fullljóst hvernig staða þessara mála er, hvernig þessi sex mánaða biðtími virkar og hver réttarstaða þess yfirleitt er þegar það er á ferð landa í millum sem gerist nú í stórauknum mæli. Ég fagna því að menn séu að feta þessa slóð.

Að gefnu tilefni vil ég varpa fram spurningu því auðvitað er full ástæða til að löggjafarvaldið geri það núna á fyrsta stigi málsins þó vafalaust komi heilbrn. til með að reyna að glöggva sig betur á því við meðferð þess. Í athugasemdum með 3. gr. er í fyrsta lagi vísað til þess að talið sé nauðsynlegt að Tryggingastofnun ríkisins hafi heimild til þess að veita undanþágu í þeim tilvikum sem mannúðarástæður kalla á. En síðan er bætt við að ekki sé hér lagt til: ,,að 32. gr. laganna verði breytt á þann hátt að þar verði kveðið á um allar undanþáguheimildir frá meginreglunni heldur er farin sú leið að afla með þessum hætti skýrrar afstöðu löggjafans.`` Að gefnu tilefni vil ég spyrja hæstv. heilbrrh.: Til hvaða undantekningartilfella er hér fyrst og fremst verið að vísa? Hvers konar dæmi eru það fyrst og síðast sem heilbrrn. og Tryggingastofnun hafa orðið vör við í þessum efnum sem kalla á þennan sveigjanleika? Það kunna að vera gildar ástæður fyrir því að menn setji hér ekki upp langan lista þeirra tilvika hugsanlegra og óhugsanlegra sem upp gætu komið en engu að síður hygg ég að brýnt sé að hv. þingmenn fái einhverja hugmynd um það í heild og breidd hvaða tilvik hér sé einkanlega átt við.

Einnig er það athyglisvert og það kemur nú svo sem ekkert á óvart að fenginni reynslu --- því stundum er býsna fróðlegt að lesa, sérstaklega með frumvörpum sem koma ofan úr heilbrrn., athugasemdir eða fylgiskjal fjmrn. --- að þar maður sér oft og tíðum í gegnum þessa mynd. Þar er gert ráð fyrir að þessi rýmkun sem við bindum vonir við, kosti satt að segja ekkert mjög mikla peninga og gefið er til kynna að það verði hverfandi sem þetta kosti tryggingakerfið. Þá fer maður að efast um það hvort þessir hlutir hér sem samkvæmt orðanna hljóðan eru til að auka rétt einstaklinga og eru aukin réttarbót fyrir fjölmarga, skipti jafnmiklu máli og maður hafði ætlað. Er hæstv. heilbrrh. sammála þessu áliti fjmrn. eða fjárlagaskrifstofu þess um að þetta skipti sárafáum krónum og einstaklingarnir sem þetta eigi við um séu aðeins örfáir?

Ég ætla ekki að orðlengja þetta, virðulegi forseti. Hins vegar vil ég nota ferðina og spyrja hæstv. ráðherra líka, af því við erum að ræða gagnkvæman rétt á hinu Evrópska efnahagssvæði, um þennan Norðurlandasamning sem hér var drepið á því þess þekktust allnokkur dæmi að gildandi samningur Norðurlandanna í milli á félagslega sviðinu og á sviði heilbrigðismála um gagnkvæmar tryggingar skaraðist, skulum við segja, við ákvæði EES. Í sumum tilfellum var hann betri ef við getum orðað það svo og fyllri, í öðrum tilfellum ekki. Engu að síður minnist ég þess að allt fram á síðasta ár a.m.k. heyrði ég dæmi þess að fólk lenti í nokkrum vandræðum um það hvernig bæri að túlka, hvor samningurinn væri rétthærri og hvort Norðurlandasamningurinn yrði í öllum tilfellum að víkja þegar þessir tveir samningar, EES-samningurinn og Norðurlandasamningurinn, sköruðust. Um þetta hafa lögfræðingar verið ósammála. Ég þykist nú vita það. En það er illþolandi satt að segja að almenningur, tryggingartakar sem fara landa í millum, fái ekki skýr svör í þessum efnum. Því spyr ég hvort hæstv. ráðherra geti upplýst þingheim um það hvort þetta vandamál sé úr sögunni, hvort þær breytingar og þróun hafi orðið á þessum samningum sem Alþingi er kannski ókunnugt um og þær lagfæringar hafi verið gerðar til samræmis sem gera það ónauðsynlegt út af fyrir sig að taka á þessum þætti mála. Ef ekki hins vegar, hvort hæstv. ráðherra telji þá brýnt að reyna að gera eitthvað í þessu vandamáli sem var viðvarandi og ég þekki allnokkur dæmi um.