Almannatryggingar

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 18:30:51 (3095)

1998-01-27 18:30:51# 122. lþ. 52.8 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[18:30]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Svo sannarlega ber að fagna því ef verið er að leysa öll þau óteljandi vandamál sem komu upp eftir að lög um almannatryggingar voru klippt í tvennt og til komu lög um félagslega aðstoð, en sú aðgerð var gerð samkvæmt fyrirskipun Evrópusambandsins, þ.e. vegna samnings okkar við Evrópusambandið. Ég vildi að ég væri alveg sannfærð um að þetta frv. gerði það, auðveldaði þessi samskipti. Nú verð ég að segja eins og er að ég er aðeins rólegri en ég kannski ætti að vera vegna þess að ég sé að undirbúningsvinnu að þessu frv. hafa unnið m.a. Ágúst Þór Sigurðsson, Kristján Guðjónsson og Hildur Sverrisdóttir sem öll eru starfandi í Tryggingastofnun ríkisins og ég treysti því að þess vegna sé þetta í betra lagi en mér sýnist það vera í fljótu bragði.

Það sem ég rek augun í nú strax er smáósamræmi því að hér er segir í b-lið 1. gr. um tryggingar, með leyfi hæstv. forseta: ,,Sama gildir um maka hans og börn undir 18 ára aldri sem dveljast með honum.``

Í 32. gr. núgildandi almannatryggingalaga er talað um börn og unglinga 16 ára og yngri og ég spyr: Þyrfti ekki að samræma þetta svo að fólk sem er erlendis hafi ekki meiri rétt en þeir sem heima eru og kannski öfugt? Þarna hefur alla vega ekki verið litið til allra átta.

Það sem mér þykir að þessu frv., hæstv. forseti, er að ákvæðin eru ákaflega óljós og var nú ekki á bætandi. Þetta eru eintómar heimildir. Er það virkilega eðlilegt eins og segir í 1. gr. frv. að Tryggingastofnun ríkisins ákvarði hvort einstaklingur teljist tryggður hér á landi samkvæmt lögunum? Þá er verið að tala um lög eins og lögheimilislög. Er eðlilegt að Tryggingastofnun ríkisins skeri úr um hvort farið sé að lögheimilislögum? Mér finnst það hreint ekki eðlilegt. Enn síður finnst mér það eðlilegt sem segir í d-lið 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

,,Ráðherra setur reglugerð um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um skráningu Tryggingastofnunar ríkisins á tryggingaréttindum einstaklinga og hvað telja skuli viðurkennt nám erlendis.``

Hver í Tryggingastofnun ríkisins á að ákveða hvað sé viðurkennt nám erlendis?

Hér er miðað við eitt ár frá því að menn fara og sjálfsagt er hægt að sækja um það aftur og aftur. En ég vil spyrja: Hefur verið litið til EES-samningsins? Nú hef ég ekki alveg áttað mig á því hvort búið er þar með að leggja niður norræna flutningsvottorðið sem t.d. allir stúdentar sem til Danmerkur fara, verða að hafa. Þar kom upp þessi vandi að þeir urðu að vera sex mánuði í landinu til þess að öðlast réttindi og sama gilti um fólk sem kom hingað með samnorrænt tryggingavottorð. Ég mundi vilja biðja um já eða nei, bara svo að þetta sé einfaldað fyrir mér. Er því máli bjargað með þessu frv.? Þetta kom sérstaklega illa við námsmenn í Danmörku og ég tala ekki um þá námsmenn sem fæddu barn því að það kom í ljós að þeir höfðu stundum réttinn hvorugu megin.

Öðru vil ég vekja athygli á svo að fólk verði ekki of bjartsýnt, þ.e. að flytji öryrki úr landi og hann lúti þessum ákvæðum hér, þá skulu menn gera sér alveg ljóst að það er einungis grunnlífeyririnn sem hann tekur með sér. Allar bætur samkvæmt lögum um félagslega þjónustu verða eftir heima því að ekki er orð um að það eigi að greiða það í útlöndum og þá er auðvitað greiðslan einskis virði vegna þess að grunnlífeyrir er svo lágur að það er eins og vasapeningur á leiðinni til útlanda, varla mikið meira, þannig að þetta er svo sem ekki neinn nýr kafli í sögu tryggingamála.

Ég vil t.d. benda á að margir ellilífeyrisþegar sem hafa kosið að flýja vetrarkuldann --- meðan hann var og hét á Íslandi --- og fara til heitari landa kannski nokkra mánuði á ári, gátu fengið grunnlífeyrinn sinn, en þá féllu allar aðrar bætur niður og það auðvitað gerði fólki afar erfitt fyrir við að fara. Menn verða því að vita að hverju þeir ganga.

Þá er það svona alveg á mörkunum að ég geri mér ljóst hvað eftirfarandi þýðir. Ef ég mætti vitna í frv., hæstv. forseti, og ég bið þá báða, núv. og fyrrv. hæstv. heilbrrh. að hjálpa mér. Hér segir í b-lið:

,,Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur, sem tryggður er samkvæmt lögunum, sé áfram tryggður, sbr. þó 24. gr., [sem fjallar um slysatryggingar] þótt hann uppfylli ekki skilyrði 9. gr. a, [þ.e. skilyrði um lögheimili] enda starfi viðkomandi erlendis fyrir aðila sem hafi aðsetur og starfsemi á Íslandi og tryggingagjald, sbr. lög nr. 113/1990, sé greitt hér á landi af launum hans.``

Þetta gæti þýtt samanber nýsamþykkt lög um slysatryggingar sjómanna að erlendir áhafnarmeðlimir fyrirtækja sem eru íslensk fyrirtæki eins og þingið hefur nú samþykkt að þau séu þó skipin séu skráð undir hentifána, þ.e. að þá er vandalaust fyrir alla áhöfnina, útlendinga líka, að skrá sig með lögheimili hér á landi og ganga þar með inn í tryggingakerfið --- hæg eru heimatökin --- og leysa þar með þá tvískiptingu sem á sér nú stað samkvæmt hinum nýsamþykktu lögum þar sem útlendingar eru ótryggðir eða tryggðir eftir einhverjum erlendum reglum en Íslendingarnir sækja sitt til Tryggingastofnunar ríkisins. Þessar spurningar læðast að manni.

En fyrst af öllu þetta: Er breyting á því að stúdentar sem t.d. fara til Danmerkur, þurfi nú ekki lengur að búa við það að missa réttindin í báðum löndum, þ.e. þeir þurfi ekki að bíða í sex mánuði eins og þeir hafa þurft að gera? Þetta hefur verið ofurlítið öðruvísi á hinum Norðurlöndunum.

Í öðru lagi: Finnst hæstv. ráðherra að það sé verkefni Tryggingastofnunar ríkisins eða hæstv. heilbrrh. að ákveða hvað skuli viðurkennt nám erlendis? Mér finnst að hvorugur aðilinn eigi að annast það. Mér finnst heldur ekki að hæstv. heilbrrh. og Tryggingastofnun ríkisins eigi að ákveða hvernig lögheimilissetu fólks sé varið. Ég mundi því fara fram á það við hv. heilbr.- og trn. þegar hún fær þetta frv. til meðferðar, að að þessum málum sé hugað og eins þessum mismun á aldri barna í frv. og lögunum.

Það verður aldrei ofsagt að það er afskaplega erfitt að breyta ákveðnum þáttum í stóru og flóknu kerfi eins og almannatryggingakerfinu án þess að líta til ýmissa annarra laga sem varða það líka. Mér finnst satt að segja umhugsunarefni að Tryggingastofnun ríkisins var að ljúka við að gefa út þessa bók sem eru lög um almannatryggingar og lög um félagslega aðstoð eins og þau eru í janúar 1998. Þetta er handhæg og þægileg handbók. Það líða náttúrlega ekki nema 2--3 vikur þangað til enn er komin breyting, svo ruglingsleg sem hún nú er því að það er jafnvel ekki einu sinni hugað að því að númer lagagreina séu í lagi. Hvernig í ósköpunum er því hægt að ætlast til að stofnunin afgreiði samkvæmt þessum lögum eða að almenningur byrji að botna í rétti sínum? Ég held að það verði ekki of oft varað við því að vera að þessum bútasaumi í tíma og ótíma án þess að litið sé til allra þátta.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að lokum: Er alveg öruggt að búið sé að fara yfir EES-samninginn og athuga hvort þetta frv. er fullkomlega í takt við hann?