Almannatryggingar

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 18:41:37 (3096)

1998-01-27 18:41:37# 122. lþ. 52.8 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[18:41]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka mjög jákvæða umfjöllun sem þetta frv. hefur fengið enda er hér um verulegar bætur að ræða fyrir marga þá sem í dag njóta ekki bóta almannatrygginga.

Það voru svo sem ekki mjög margar spurningar fyrir mig lagðar en þó nokkrar. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson fór inn á ýmsa hluti og vildi fá úr því skorið hvar sveigjanleikinn ætti sér stað varðandi 32. gr., um Íslendinga sem hafa átt lögheimili til langs tíma erlendis en eiga síðan að njóta almannatryggingakerfisins hér þrátt fyrir að þeir hafi ekki borgað skatta og skyldur hérlendis. Hér er eingöngu verið að tala um langvinna sjúkdóma. Við erum að tala um krabbamein, alnæmi og slíka sjúkdóma. Þarna hefur það átt sér stað hvað eftir annað að slíkir sjúklingar sem eiga aðstandendur hér en eru ótryggðir erlendis hafa lent í vanda. Hér er ekki verið að ræða um fólk sem borgar skatta og skyldur erlendis en vill síðan koma í einhverjar almennar aðgerðir hér heima. Það getur það ekki gert án þess að greiða í kerfið. Þarna erum við eingöngu að tala um lífshættulega langvinna sjúkdóma. Ég vona að þetta skýri það sem hann spurði um varðandi þetta atriði.

Hann spurði líka um Norðurlandasamninginn og EES-samninginn sem skarast á köflum. Þetta frv. er einmitt lagt fram vegna þess að þessi skörun er ljós og frv. á að bæta úr þeirri skörun. Hann spyr einnig að því hvort ég sé sammála því sem fram kemur varðandi kostnaðarmat á frv. Ég tel að það sé útilokað, eins og kemur reyndar fram í fylgiskjali, að reikna nákvæmlega út hvað þetta muni kosta. En rétt er að geta þess að þetta virkar á báða bóga því að þeir sem eru tryggðir annars staðar eiga að njóta þjónustunnar annars staðar.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir kom líka inn á ýmsa þætti og þekkir þetta málefni vel. Hún talaði um þau óteljandi vandamál sem eru í þessu kerfi og varaði við þeim bútasaumi sem hún kallar svo þegar verið er að endurbæta almannatryggingalöggjöfina. Ég get svo sem tekið undir það en þeir tímar koma að nauðsynlegt er að endurskoða löggjöfina þó hún sé ekki endurskoðuð í heild, þar sem um brýnar réttarbætur er að ræða og svo tel ég vera í þessu sambandi.

Hún spurði út í það við hvern við ættum nákvæmlega þegar við erum að tala um Íslendinga sem vinna hjá íslenskum fyrirtækjum erlendis og fyrirtækin borga skatta og skyldur hér heima. Þarna erum við að tala t.d. um þá sem vinna á skrifstofum flugfélaganna og eiga lögheimili erlendis um tíma og við erum t.d. að tala um íslenska trúboða erlendis svo eitthvað sé nefnt.

Varðandi stúdenta í námi erlendis sem hafa lent í því að hafa ekki fengið bætur, hvorki þar né hér, aðallega fæðingarorlof, þá á að koma til móts við þá þannig að þeir séu örugglega tryggðir á öðrum hvorum staðnum. En það hefur komið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar fyrir að íslenskir námsmenn hafa lent í því að hafa ekki fengið neitt fæðingarorlof. Þeir hafa verið of stutt erlendis og of lengi burt frá Íslandi. Við erum því að koma til móts við þá skörun sem þar er.

Varðandi það hvað sé viðurkennt nám, þá sker menntmrn. úr um það hvað sé viðurkennt nám og Tryggingastofnun fer síðan eftir því.

Og það hvort Tryggingastofnun eigi að skera úr um varðandi lögheimili almennt, þá er Tryggingastofnun stundum best til þess fallin í vissum tilvikum og með þessu frv. erum við að auka svigrúmið til að Tryggingastofnun geti komið til móts við það fólk sem ég hef hér áður talað um.

Ég vil endurtaka þakkir mínar fyrir jákvæða umfjöllun og ég vona að hv. heilbr.- og trn. vinni hratt og örugglega að því að koma þessu máli aftur inn í þingið.