Þjónustugjöld í heilsugæslu

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 18:47:12 (3097)

1998-01-27 18:47:12# 122. lþ. 52.9 fundur 41. mál: #A þjónustugjöld í heilsugæslu# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[18:47]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Það frv. til laga sem ég mæli fyrir gengur út á að fella niður þjónustugjöld í heilsugæslu. Að flutningi þessa lagafrv. standa allir þingmenn þingflokks Alþb. og óháðra.

Frv. felur í sér breytingu á tvennum lögum, annars vegar breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu og hins vegar breyting á lögum um almannatryggingar sem ég mun víkja að nánar á eftir. En almennt er um þetta frv. eftirfarandi að segja:

Frá og með fjárlögum fyrir árið 1992 hafa álögur á sjúklinga verið auknar jafnt og þétt. Af þeim sökum hefur kjararýrnun orðið mest hjá því fólki sem á við sjúkdóma að stríða. Í þeim tilvikum þar sem hópar og stéttir hafa orðið aðnjótandi góðærisins í efnahagslífinu og fengið kaupmáttaraukningu hefur hún síst gengið til þeirra sem búa við vanheilsu. Þessar álögur hafa birst í ýmsum myndum. Dregið hefur verið úr stuðningi við einstaklinga í gegnum breytingar á lögum um almannatryggingar, t.d. með aukinni greiðsluþátttöku í tannlæknakostnaði fyrir börn og lífeyrisþega og gildir hið sama almennt um kostnaðarhlutdeild sjúklinga á heilbrigðisstofnunum. Staða þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda hefur því stórversnað á undanförnum árum. Þau gjöld sem um ræðir í þessu lagafrv., komugjöld á heilsugæslustöðvar, eru aðeins hluti af stærri mynd og ber að skoða þau í ljósi óheillaþróunar síðustu ára.

Hægt er að líta á þetta mál frá ýmsum sjónarhornum. Í fyrsta lagi er um kjaramál að ræða. Það er kjaramál fyrir alla, þ.e. gjaldtaka í heilbrigðisþjónustunni er kjaramál fyrir alla en sérstaklega fyrir lágtekjufólk. Lágtekjufólk hefur samkvæmt orðanna hljóðan minni tekjur, minni fjárráð. En það er ekki nóg með það heldur er á hitt einnig að líta að samkvæmt athugunum sem gerðar hafa verið, bæði hér á landi og annars staðar, er heilsufar lágtekjufólks almennt lakara en gerist hjá öðrum þjóðfélagshópum. Þeir sem sinna ýmsum láglaunastörfum í iðnaði og erfiðisvinnu búa við meiri sjúkdómstíðni en gerist hjá öðrum þjóðfélagshópum. Það er því ekki nóg með að við séum að fjalla um kjaramál. Við erum að fjalla um kjaramál sem bitnar verst á tekjulágu fólki.

Ástæðan fyrir því að við teljum mikilvægt að byrja að þessum þætti heilbrigðisþjónustunnar þegar við reynum að snúa af braut óheillaþróunar síðustu ára er sú að heilsugæslan er grunnþjónusta sem skiptir mjög miklu máli að verja. Samkvæmt könnun sem landlæknisembættið gerði árið 1995, eða var alla vega birt í skýrslu frá landlæknisembættinu árið 1995 undir heitinu Blikur á lofti velferðar, var því haldið fram að takist að stýra fólki til heimilislækna og inn í hina almennu heilsugæslu geti það orðið til að lækka tilkostnað utan sjúkrahúsa um verulegar upphæðir. Frá hagstjórnarlegum sjónarhóli er þetta skynsamleg nálgun.

Enn er á það að líta að þessari rukkun í heilsugæslunni fylgir talsvert skrifræði og skrifræðinu fylgir kostnaður. Komugjöldin á heilsugæslustöðvar hafa skilað inn í almannasjóði rúmum 200 millj. kr., um 240 millj. kr. á síðasta ári. Þegar litið er á fjárlögin og tekjur ríkissjóðs almennt þá erum við ekki að tala um mjög háar upphæðir þó það skipti mjög miklu máli fyrir þá einstaklinga sem hlut eiga að máli. En ég er að vekja athygli á því að tilkostnaðurinn við að innheimta þessa peninga er mjög mikill. Þegar stimpilvélarnar voru settar upp fyrir fáeinum árum þurfti að taka allt starfsfólk heilsugæslustöðvanna, eða það fólk sem sinnti stjórnsýslunni, á námskeið til að kenna því hvaða reglur ættu að gilda um skrifræðið og í þessari framkvæmd allri felst mikill tilkostnaður.

Í athugunum sem gerðar hafa verið á heilbrigðiskerfinu, t.d. á vegum OECD, hefur komið fram að ef tilkostnaðurinn við að sækja og nýta sér heilsugæsluna fer yfir ákveðin mörk, þá verður það til þess að fæla fólk frá því að nýta sér þá þjónustu og slíkt leiðir til ójafnaðar í þjóðfélaginu, nokkuð sem OECD hefur varað við. Og við sem viljum berjast fyrir jöfnuði í samfélaginu hljótum að vara mjög eindregið við því.

Þá erum við komin að samhenginu um tilkostnaðinn við þetta kerfi og kostnaðinn fyrir einstaklingana sem nýta sér það. Spurningin er þá þessi: Hvenær borgar innheimtan sig og hvenær hættir hún að borga sig? Þetta er spurning sem allir ættu að spyrja sig, jafnvel þeir sem eru því fylgjandi að hafa komugjöld á heilsugæslustöðvum eða annars staðar í þessu kerfi. Þetta vildi ég sagt hafa almennt um frv. og hvers vegna það er sett fram.

Ef vikið er nánar að þeim lagagreinum sem lagt er til að breytt verði, þá er eins og ég sagði áðan lagt til að breyting verði gerð á lögum um heilbrigðisþjónustuna. 2. mgr. 20. gr. laga um heilbrigðisþjónustu hljóðar nú svo:

,,Ráðherra setur gjaldskrá fyrir veitta þjónustu heilsugæslustöðva og skal hún vera í samræmi við hliðstæðar gjaldskrár samkvæmt lögum um almannatryggingar.``

Þessi grein eða ígildi hennar hefur verið í lögunum um heilbrigðisþjónustu frá upphafi. Nú er lagt til að hún verði felld niður og heilsugæsla verði ókeypis framvegis. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að 2. mgr. 20. gr. laganna orðist svo, með leyfi forseta:

,,Ekki eru tekin gjöld fyrir þjónustu heilsugæslunnar við einstaklinga. Um þjónustu sem aðrir greiða fer eftir sérstakri gjaldskrá sem ráðherra setur.``

Ég hef gert almennt grein fyrir ástæðum þess að við viljum ráðast í þessar breytingar. Á árunum fram að 1992 þótti gefast vel að hafa heilsugæsluna ókeypis. Það ýtti undir að fólk notaði sér þá þjónustu og ætla má, eins og ég gat um áðan, að með því að efla heilsugæsluna sé fundin leið til að halda sérfræðikostnaði niðri. Tvennt vinnst: Annars vegar sparar heilbrigðiskerfið í heild og hins vegar verður aðgengi almennings að frumþjónustunni greiðara.

Í öðru lagi hefur komið í ljós á þessum áratug að heilbrigðisráðherrar vilja misnota þessa grein og leggja íþyngjandi byrðar á þá sem þurfa heilbrigðisþjónustu. Þetta er um þá breytingu sem við leggjum til á lögum um heilbrigðisþjónustuna.

Í frv. er einnig lagt til að heimildin til að leggja á gjöld í heilsugæslu verði afnumin úr almannatryggingalögum. Þar hljóðar ákvæðið nú á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara. Þá er ráðherra heimilt að birta sem reglugerðir reglur Evrópubandalagsins um almannatryggingar, enda eigi ákvæði þeirra stoð í lögum þessum.``

Þannig hljómar þetta nú. Í því frv. sem hér er til umræðu leggjum við til að í stað fyrri málsl. 66. gr. laganna komi tveir málsliðir, svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Ráðherra er heimilt að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara í reglugerð. Í reglugerðinni er þó ekki heimilt að leggja gjöld á þá einstaklinga sem leita þjónustu heilsugæslunnar.``

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frv. Þetta er nokkuð sem hefur verið mjög í umræðunni í þjóðfélaginu á liðnum árum og þekkja allir rækilega rök með og á móti að leggja gjöld á sjúklinga, eða það héldum við. Við héldum að menn hefðu almennt gert sér grein fyrir því hvaða afleiðingar þessi gjaldtaka á sjúklinga hefur haft á liðnum árum og ekki síst eftir að það fékkst staðfest í skýrslu sem landlæknisembættið birti á síðasta ári þar sem í ljós kemur að þessi gjaldtaka hefur orðið til þess að mismuna fólki í velferðarþjónustunni og ræðst það af efnahag fólks hversu mikið og gott aðgengi það hefur að þeirri þjónustu.

Fyrr í dag bar hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fram fyrirspurn sem beint var til hæstv. forsrh. í fjarveru hæstv. heilbrrh. um hvort virkilega stæði til að leggja sérstakan matarskatt á fólk sem legðist inn á sjúkrahús og hvort til stæði að taka upp aukin gjöld, skattheimtu á fólk sem legðist inn á spítala. Hæstv. forsrh. svaraði því nánast þannig, eða efnislega var svar hans á þá leið, að það kæmi honum ekki við. Hann skipti sér ekki af slíku. Í rauninni er þetta fáheyrt að hæstv. forsrh. í ríkisstjórn leyfi sér að taka þannig á einhverju stærsta hitamáli þjóðarinnar á síðari tímum þar sem tekist er á um skipulag velferðarþjónustunnar í landinu. Þá hrista hæstv. ráðherrar bara höfuðið og segja að þeim komi þetta ekki við. Fróðlegt væri í tengslum við umræður um þetta frv. að heyra frá hæstv. heilbrrh. hver sjónarmið ráðherrans eru, ekki aðeins á komugjöldum á heilsugæslustöðvarnar heldur varðandi þá spurningu sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir bar fram fyrr í dag um matarskatt á sjúklinga á spítölum og skattheimtu á sjúklinga. Ætlar hæstv. heilbrrh. að hrista höfuðið líkt og hæstv. forsrh. gerði fyrr í dag og segja að honum komi þetta ekki við? Eða hver eru viðbrögð hæstv. ráðherra?