Þjónustugjöld í heilsugæslu

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 19:03:55 (3099)

1998-01-27 19:03:55# 122. lþ. 52.9 fundur 41. mál: #A þjónustugjöld í heilsugæslu# (breyting ýmissa laga) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[19:03]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í fyrstu gera athugasemd við orð hæstv. ráðherra um að þjónustugjöld hafi ekki hækkað. Hæstv. ráðherra veit auðvitað að þau hafa hækkað í tíð þessarar ríkisstjórnar, bæði í heilsugæslunni og annars staðar, án þess að ég ætli að fara að tína það til.

Vegna umræðu um matargjald þá kemur hér fram að þetta hafi verið til umræðu ríkisstjórnar í dag. (Gripið fram í: Nei.) Það hefur ekki verið.

Getur það hins vegar verið --- og hvers konar vinnubrögð eru það, hæstv. forseti, --- að fulltrúar ríkisstjórnarinnar í stjórnarnefnd Ríkisspítalanna leggi til matargjald eða matarskatt á sjúklinga og keyri það í gegnum nefndina án þess að ráðherrarnir standi þar að baki? Eru þeir að koma skattinum á án þess að ríkisstjórnin viti nokkuð um það eða hæstv. heilbrrh., herra forseti? Þetta eru ákaflega sérkennileg vinnubrögð. Og ég á bágt með að trúa því að kjörnir fulltrúar úr ríkisstjórnarflokkunum sem nú leggja til tillögur um aukinn skatt á sjúklinga hafi ekki samráð um það við yfirboðara sína, ráðherrana í ríkisstjórninni eða ráðherra þessa málaflokks. Getur verið að það sé rétt? Hvaðan hafa þeir umboð til að leggja fram svona skatt á sjúklinga? Það væri fróðlegt, herra forseti, að fá svör við því.