Þjónustugjöld í heilsugæslu

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 19:10:15 (3104)

1998-01-27 19:10:15# 122. lþ. 52.9 fundur 41. mál: #A þjónustugjöld í heilsugæslu# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[19:10]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Sjálfsagður hlutur, hæstv. forseti. Hér hefur margt fróðlegt komið fram í umræðunni. Og án þess að ég ætli að þreyta hv. þm. með því að endurtaka það sem ég sagði hér áður í formgölluðu andsvari mínu, þá vona ég að hæstv. ráðherra, ef hann kýs að koma hér upp aftur, svari þeim spurningum sem ég setti fram.

Varðandi önnur málsatriði sem fram komu hjá hæstv. ráðherra vil ég segja að það tilbrigði við gjaldtöku í heilsugæslustöðvum sem ráðherrann setti hér fram er aðeins tilbrigði við þann aðgangseyri sem nú er við lýði. Hitt er verra að ég heyrði ekki betur, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, en að hér væri aftur kominn upp á borðið hinn illræmdi kaskó-skattur, kaskó-gjaldið, sem þjóðin reis gegn fyrir fáeinum árum. Það varð m.a. til þess að sjúklingar í landinu stofnuðu samtökin Almannaheill til að mótmæla kaskó-skattinum og annarri álagningu sem þáv. ríkisstjórn stóð fyrir gagnvart sjúklingunum.

Ef ég skildi ráðherrann rétt þá er talað hér um valkvætt stýrikerfi. Þannig eru heitin yfirleitt þegar verið er að setja skatta á fólk. Þegar menn hafa hugsanlega slæma samvisku gagnvart því að leggja skatta á fólk, þá heitir það svona fínum nöfnum. Ábyrgðarvæðing hét það einhvern tíma þegar verið var að skera niður við sjúklinga inni á sjúkrastofnunum. Þá var starfsemin ábyrgðarvædd. Nú er talað um stýrikerfi, valkvætt stýrikerfi. Mér skildist það á hæstv. ráðherra að um það væri að ræða að menn ættu kost á að greiða lágt gjald, eins konar tryggingu, en ef þeir þyrftu að nýta sér þessa þjónustu --- þetta þurfum við að fá nánari upplýsingar um --- að þá kæmu hærri gjöld til sögunnar.

Nú skal ég viðurkenna að ég er að lesa á milli línanna, ráða í það sem hæstv. ráðherra sagði, sem er nú ekki mjög sanngjarnt. En ég held að við þurfum að fá nánari útskýringar af hálfu hæstv. ráðherra um hvað við er átt. Er hér verið að tala um kaskó-skattinn að nýju? Eða hvað er yfirleitt átt við með hinu valkvæða stýrikerfi? Ég fæ ekki betur séð en að slæmur hlutur hafi fengið nýtt nafn. Lagt er til að þessi hlutur verði aflagður í því frv. sem hér er til umræðu. Það gengur út á að afnema með öllu komugjöld á heilsugæslustöðvar.