Þjónustugjöld í heilsugæslu

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 19:14:10 (3105)

1998-01-27 19:14:10# 122. lþ. 52.9 fundur 41. mál: #A þjónustugjöld í heilsugæslu# (breyting ýmissa laga) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[19:14]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Við vorum að ræða um komugjöld á heilsugæsluna og hið svokallaða valfrjálsa stýrikerfi sem ég ræddi hér um áðan. Hv. þm. spurði hvort þar væri kominn hinn illræmdi kaskó-skattur, eða hvað hann var nú kallaður á sínum tíma? Við erum að tala um allt annan hlut. Við erum að tala um að fullfrískt fólk borgi vissan skatt. Að vissu marki er það skattur. Og þetta er nokkurs konar sjúkrasamlag.

Við erum að tala um fólk sem ekki er öryrkjar og ekki er ellilífeyrisþegar sem borga eitthvað miklu lægra. Með því eru þeir að tryggja sér fría heilsugæslu. Þannig erum við að tryggja heilsugæsluna sem grunneiningu og grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Þetta er hugsunin á bak við þetta. Ég tel þetta það sem við eigum að stefna að, enda muni þetta tryggja einstaklingnum aðgang að heilsugæslunni, frírri heilsugæslu, fyrir utan þetta sjúkrasamlagsgjald. Maður borgar þetta gjald frískur og fjörugur og á þá kost á því þegar hann veikist að fara inn í heilsugæsluna án þess að þurfa að greiða fyrir.

[19:15]

Ég tel mikilvægt að ná samkomulagi um þessa leið. Við höfum reynt það mjög lengi en hvort okkur tekst í þessari atrennu sem við erum að gera á málinu skal ég ekki segja til um. Oft hefur verið talað um mikið stefnuleysi í heilbrigðismálum almennt sem er náttúrlega alrangt. Málið er að þegar til á að taka vilja menn ekki breyta gildandi kerfi og um það eru menn að fást nákvæmlega eins og í þessu tilviki.

Varðandi önnur mál sem komu upp í andsvari við hv. þm. Ástu Ragnheiði hér áðan var það einhver klemmuaðferð sem hv. þm. ætlaði að beita á mig og ég átti að fjalla um tillögu sem ég hef ekki séð. Hv. þm. talaði auðvitað frá eigin brjósti hvað hann gæti sagt. En ég gæti þá sagt við hv. þm. að ég tel að ekki sé möguleiki á að setja einhvern allt annan skatt á einu sjúkrahúsi en öðru. Það verður að vera eitthvert samræmi í því. En hv. þm. veit af því að sjúklingur greiðir t.d. ýmis göngudeildargjöld inni á göngudeildum þessara sjúkrahúsa þó að þeir dveljist þar ekki daglangt. Kannski er hv. þm. Ögmundur Jónasson að boða að allt slíkt eigi að leggja niður. Þá þurfum við að koma með einhverja skatta á móti hverju nafni sem þeir nefnast. Þá minni ég aftur á að þær tillögur sem ég hef borið fram um þetta valfrjálsa stýrikerfi finnst mér vera svolítill mælikvarði á það hvað menn eru tilbúnir að greiða fyrir þjónustuna, eins og ég segi, frískir og fjörugir.