Þjónustugjöld í heilsugæslu

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 19:17:39 (3106)

1998-01-27 19:17:39# 122. lþ. 52.9 fundur 41. mál: #A þjónustugjöld í heilsugæslu# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[19:17]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagði að menn vildu ekki breyta núverandi kerfi. Jú, menn vilja bæta núverandi kerfi og menn hafa verið að vinna að umbótum innan velferðarþjónustunnar á liðnum árum og áratugum á ýmsum sviðum sem hefur leitt til þess að við búum við eitt öflugasta og besta heilbrigðiskerfi í heiminum. Við viljum ekki láta eyðileggja það. Út á það gengur slagurinn.

Síðan er spurningin um að það eigi ekki að vera misræmi í skattheimtu. Þá er spurningin: Á hvern hátt á að draga úr misræmi? Á að rukka alla eða á að draga úr rukkuninni? Hæstv. ráðherra beindi spurningu til mín hvora leiðina ég þar vildi fara og ég segi tvímælalaust að það eigi að fara síðari leiðina og þá er það rétt sem hæstv. ráðherra segir að auðvitað þarf þá að afla skatttekna með öðrum hætti.

Varðandi hið valkvæða stýrikerfi þá erum við með almenna skattheimtu sem hinn fríski greiðir. Það heitir t.d. tekjuskattur. Það heitir tekjuskattur einstaklinga, það heitir tekjuskattur fyrirtækja og þar fram eftir götunum. Þetta greiða allir þegnar þjóðfélagsins. Nú spyr ég vegna þess að ég hef ekki fengið nægileg svör við því: Hvað felst nánar í þessu kerfi? Er þetta valkvætt? Þurfa ekki allir að borga þetta gjald? Er það valkvætt? Er það valfrjálst? Ef svo er þá erum við aftur farin að tala um kaskó-skattinn sem var til umræðu í þjóðfélaginu fyrir fáeinum árum og varð til þess að þjóðin reis upp til að mótmæla því kerfi.

Að lokum vil ég segja: Að sjálfsögðu vil ég taka í útrétta hönd hæstv. ráðherra sem auglýsir eftir því að við reynum að ná samkomulagi og sátt um þær breytingar sem verði gerðar á heilbrigðisþjónustunni og skipulagi hennar og öflun fjármuna til hennar. Að sjálfsögðu eigum við að stuðla að því að ná sátt um þessi efni.