Vasapeningagreiðslur til lífeyrisþega

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 13:33:58 (3116)

1998-01-28 13:33:58# 122. lþ. 53.2 fundur 374. mál: #A vasapeningagreiðslur til lífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[13:33]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Í haust lagði ég fram fyrirspurn og óskaði eftir skriflegu svari um vasapeningagreiðslur til lífeyrisþega. Svarið barst nokkru fyrir jól og var spurningum mínum til hæstv. heilbrrh. ágætlega svarað nema þegar kom að spurningu um svokallaða vasapeninga utan stofnana. Þá þótti mér svar hæstv. heilbrrh. vera ákaflega sérkennilegt þar sem spurt var um þær sérstöku vasapeningagreiðslur.

Í reglum kemur fram að tekjulitlir lífeyrisþegar, nánast tekjulausir, eiga rétt á vasapeningum sem eru rúmar 12 þús. kr. á mánuði ef þeir eru inni á stofnun. Þegar hæstv. umhvrh. Guðmundur Bjarnason var heilbrrh. réð hann nokkra bót á stöðu þeirra sjúklinga og vistmanna á stofnunum með því að setja í reglugerð nr. 213/1991 heimild til að greiða vasapeninga utan stofnana, sem voru tvöfaldir sjúkradagpeningar, sem dag eru um 1.300 kr., daglega ef menn fóru út af stofnun í sólarhring eða meira án þess að útskrifast. Nú er það algengt að fólk fer heim um jól, um helgar, jafnvel er deildum lokað tímabundið og menn eru sendir heim og þá er heimilt að greiða slíka vasapeninga utan stofnana.

Þegar ég spurði hæstv. heilbrrh. um þessa vasapeninga og hversu margir hafa fengið þá undanfarin ár er svarið sem ég fæ frá hæstv. ráðherra svohljóðandi og segir í skjalinu, með leyfi forseta. ,,Greiddir eru svonefndir ,,heim um helgar`` vasapeningar, en þeir sárafáu lífeyrisþegar sem fá þá eru taldir með í töflunni hér á undan, enda eru þeir fyrst og fremst vistmenn stofnana.``

Að sjálfsögðu var ég að spyrja um vistmenn stofnana, það var alveg ljóst. Ég var að spyrja um þá vistmenn stofnana sem fóru heim og fengu þessar greiðslur. Þar sem ég fékk alls ekki viðunandi svar við þeirri spurningu minni í skriflegu svari hef ég óskað eftir ítarlegra svari frá hæstv. heilbrrh. og þess vegna legg ég þessa spurningu fyrir að nýju:

Hversu margir ellilífeyrisþegar og öryrkjar sem dvelja á stofnunum hafa fengið greidda vasapeninga ,,utan stofnana`` samkvæmt þeirri reglugerð sem ég minntist á áðan? Ég óska hér með eftir því, herra forseti, að hæstv. heilbrrh. upplýsi það.