Umsókn Friðar 2000 um leigu á skólahúsnæði

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 13:55:09 (3126)

1998-01-28 13:55:09# 122. lþ. 53.5 fundur 383. mál: #A umsókn Friðar 2000 um leigu á skólahúsnæði# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[13:55]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég verð nú að segja að mér er nokkur vandi á höndum að koma hér og svara þessum spurningum því að hv. þm. lagði fyrir mig allt aðrar spurningar en ég átti að svara samkvæmt þingsköpum. Ég veit því ekki almennilega hvernig ég á að taka á málum og verð helst að biðja herra forseta að úrskurða í málum sem þessum þannig að tekið sé af skarið um það hvort spurningar hv. þm. hefðu ekki betur átt heima hér í gær þegar menn áttu að svara óundirbúnum fyrirspurnum, en núna undir þessum dagskrárlið þegar fyrir ráðherra eru lagðar spurningar sem hann á að svara samkvæmt þingsköpum og síðan gerist það í ræðustól að hv. þm. fer að ræða um allt annað (Gripið fram í.) en fyrirspurnirnar. Mér finnst að það sé spurning sem forsn. ætti að fjalla um hvernig eigi að taka á svona málum. Sérstaklega þar sem hv. fyrirspyrjandi situr líka í forsn. er enn þá brýnna að menn átti sig á því hvernig eigi að standa að þingsköpum að þessu leyti.

Að því er fyrirspurnirnar varðar þá eru þær þrjár. Það er í fyrsta lagi um Frið 2000 og Reykholt. Það liggur ljóst fyrir að hinn 20. janúar var undirritað samkomulag við aðra aðila en Frið 2000 um afnot af húsakosti í Reykholti. Menntmrn. hefur ritað undir samning milli ráðuneytisins annars vegar og hjónanna Óla Jóns Ólasonar og Steinunnar Hansdóttur hins vegar um að þau taki heimavistarhúsnæði Reykholtsskóla í Borgarfirði ásamt einbýlishúsi og sjálfstæðri geymsluaðstöðu á leigu.

Tildrög samningsins eru þau að sl. vor var skólahaldi hætt í Reykholti eftir að nemendum hafði fækkað þar ár frá ári. Ákveðið var að auglýsa eftir hugmyndum um starfsemi sem gæti fallið að staðháttum í Reykholti. Einnig voru þeir sem höfðu hug á að standa þar að rekstri beðnir að gefa sig fram. Margar tillögur bárust og sex aðilar sögðust reiðubúnir að standa að því að hrinda eigin hugmyndum í framkvæmd á staðnum ef rekstrarforsendur leyfðu. Allar hugmyndir um atvinnustarfsemi í Reykholti voru skoðaðar, m.a. af óháðum ráðgjafa, og varð niðurstaðan sú að gengið var til samninga við ofangreind hjón.

Leigusamningurinn er til fimm ára frá síðustu áramótum að telja. Leiga fyrir umrætt húsnæði er 10% brúttótekna af allri sölu gistingar, veitinga og þjónustu, þó þannig að leiga skal aldrei fara niður fyrir ákveðin mörk sem fara stighækkandi milli ára. Leigutaki hefur kauprétt á hinu leigða og skal hann tilkynna um áform sín eigi síðar en sex mánuðum fyrir lok leigutíma. Skal þá kaupverð þá vera 65 milljónir króna, framreiknað miðað við byggingarvísitölu í desember 1997. Leigugreiðslur er leigutaki hefur innt af hendi skulu renna upp í kaupverð eignanna. Menntamálaráðuneytið á forkaupsrétt að eignunum við síðari sölu.

Áform leigutaka eru að bjóða þjónustu sína allt árið og verður lögð áhersla á tengsl við sögu staðarins og að sinna minni hópum af ýmsu tagi auk hefðbundins gisti- og veitingareksturs. Ferðaskrifstofa Íslands hefur leigt heimavistina mörg undanfarin sumur fyrir hótel- og veitingarekstur undir merkjum Hótel Eddu.

Hagsýsla ríkisins kom fram fyrir hönd menntamálaráðuneytisins við samningagerðina og náið samráð var haft við heimamenn. Menntmrn. telur að nýting heimavistarhúsnæðis og mötuneytis með þessum hætti í Reykholti undir stjórn og á ábyrgð einkaaðila auðveldi aðra starfsemi á staðnum, m.a. á vegum Snorrastofu, sem sinnir vísindum, menningu og listum.

Þetta er svar við þriðju spurningunni og þarna er lýst hvernig ráðuneytið hefur staðið að því að ráðstafa þeim húsakosti sem fellur undir heimavistarhúsnæði Reykholtsskóla, einbýlishúsi og sjálfstæðri geymsluaðstöðu. Að því er varðar gamla skólahúsið sjálft þá hefur ráðuneytið látið athuga hvort það henti fyrir varaeintaka- og geymslubókasafn á vegum Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns, en með slíkri ráðstöfun á hluta húsakostsins mundu forsendur fyrir starfi Snorrastofu enn styrkjast.

Að því er varðar samskipti menntmrn. við Ástþór Magnússon þá hefur hann vísað þessum ákvörðunum ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis og ráðuneytið mun að sjálfsögðu svara bréfum umboðsmanns um málið og leggja fram öll gögn og allar forsendur fyrir þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið.

Ég hef sjálfur rætt við Ástþór um háskóla Friðar 2000 og sé í sjálfu sér ekkert á móti því að sá skóli starfi hér frekar en annars staðar. En það verður að fara eftir ákvörðunum þeirra sem að skólanum standa hvaða húsnæði þeir velja. Mér hefur skilist á forstöðumanninum eða hugmyndasmiðnum að skólahúsnæðið þurfi að vera innan ákveðinnar fjarlægðar frá Keflavíkurflugvelli þar sem fyrirlesararnir muni koma hér og hafa stutta viðtöl og þurfi þess vegna að geta kennt í nágrenni við Keflavíkurflugvöll til þess að sinna sínum störfum. Ég veit ekki hvort nokkurt húsnæði í umsjón menntmrn. er þannig staðsett, en þetta eru þau sjónarmið sem fram hafa komið.