Textun íslensks sjónvarpsefnis

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 14:32:45 (3141)

1998-01-28 14:32:45# 122. lþ. 54.10 fundur 196. mál: #A textun íslensks sjónvarpsefnis# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[14:32]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Sú tillaga sem hér var mælt fyrir, og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir flytur, snertir stóran hluta landsmanna og satt að segja næsta sérkennilegt ef tillaga af þessu tagi fer venjulega leið hér í þinginu. Hin venjulega leið væri að þingmaðurinn mælti fyrir henni, henni yrði vísað til nefndar og hún kæmi aldrei þaðan aftur af því þingmaðurinn er í stjórnarandstöðu og nýtur því ekki þess að málið fái þá þinglegu meðferð sem það á skilið. Ég fullyrði jafnframt að um þessa tillögu er mjög sterk samstaða. Það þarf að texta sjónvarpsefni skipulega. Sjónvarpið hefur að mínu mati engar gildar afsakanir til að koma í veg fyrir að þær óskir sem bornar eru fram í þessari þáltill. verði að veruleika.

Tækninni hefur fleygt fram svo að tæknilegar röksemdir sem settar voru fram fyrir sex eða átta árum í sambandi við þessi mál eru ekki lengur gildar. Það er auðveldara að texta efni nú en var fyrir tiltölulega stuttum tíma og miklu ódýrara. Auðvitað væri það lágmarkskurteisi, liggur mér við að segja, hjá sjónvarpsstöðvum sem vilja láta taka sig alvarlega að beita sér fyrir því og tryggja að textað efni sé eins mikið og mögulegt er. Auðvitað eru margs konar undantekningar í þeim efnum en svona á að gera það. Ég tel að þessar skyldur eigi auðvitað ekki aðeins að leggja á Ríkisútvarpið. Ég tel að einkastöðvar sem hér eru reknar, þó það virðist vera regla að gera minni kröfur til þeirra en annarra, eigi sjálfar að gera þá kröfu til sín að koma til móts við þau sjónarmið sem hér voru sett fram af hv. flutningsmanni. Ég tel reyndar að sú sjónvarpsstöð sem textaði efni með skipulegum hætti núna mundi óðara vinna nýjan markað ef um væri að ræða einkastöð með takmarkaðan hóp á bak við sig eins og er. Ég er sannfærður um að slík stöð mundi óðara vinna nýjan og stórvaxandi markað því hér er um að ræða þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga sem ekki heyra almennilega það sem kemur í sjónvarpi, m.a. vegna þess að alls konar ólíkum hljóðum er blandað við það tal sem fólk vill gjarnan nema.

Fyrir þinginu liggur í hv. menntmn. tillaga til þál. um viðurkenningu á íslenska táknmálinu sem móðurmáli heyrnarlausra. Það er annað mál en þó skylt enda ekki ólíkir hópar sem verið er að tala um. Sá hópur sem tillaga mín snertir er mun fámennari en sá sem hér er verið að tala um en engu að síður hefur tveimur mjög þýðingarmiklum málum verið hreyft. Ég hef orðið var við það í tillöguflutningi þingmanna á undanförnum árum að í raun og veru er mikill áhugi á þessu máli. En sjónvarpsstöðvarnar hafa komist upp með að víkja sér undan í þessum efnum. Það er mjög alvarlegt umhugsunarefni að þær skuli ekki virða jafnrétti þegnanna meira en fram kemur eins og hv. flutningsmaður lýsti áðan.

Ég kvaddi mér hér hljóðs, herra forseti, til að þakka hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur fyrir að flytja þessa tillögu. Í öðru lagi vil ég leggja á það áherslu að ég tel að hér sé um að ræða mál sem eigi að afgreiða. Það á að samþykkja svona mál og gera að veruleika. Það er engin afsökun fyrir að tryggja ekki að það efni sem hægt er að texta á annað borð verði textað. Það er meira að segja ódýrara og einfaldara að gera það núna en nokkurn tímann áður.