Fæðingarorlof

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 15:00:19 (3146)

1998-01-28 15:00:19# 122. lþ. 54.12 fundur 265. mál: #A fæðingarorlof# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. GGuðbj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[15:00]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um fæðingarorlof.

Frumvarpið var lagt fram í nóvember sl. og er miðað við lögin um fæðingarorlof og lögin um almannatryggingar eins og þau voru þá. Síðan hafa verið gerðar breytingar á þeim lögum með frv. ríkisstjórnarinnar, 43. mál, sem kom fram rétt fyrir jól og var afgreitt sem lög frá Alþingi fyrir áramót. Ég mun halda mig við texta frv. að mestu leyti en benda á til hægðarauka fyrir hv. nefnd sem fær málið til meðferðar hvar breytingar eru á gildandi lögum.

Ég vil geta þess að landsfundur Kvennalistans ályktaði fyrir rúmu ári að mjög æskilegt væri að fá frv. af því tagi sem hér er til umræðu fram á Alþingi. Þetta frv. er búið að taka mikinn tíma í vinnslu og var lagt fram rétt fyrir síðasta landsfund samtakanna. Var það mjög ánægjulegt og frv. fékk góðar undirtektir.

Flutningsmenn frv. eru auk mín hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Sighvatur Björgvinsson og Sigríður Jóhannesdóttir. Frumvarpið er því flutt af stuðningsmönnum allra stjórnarandstöðuflokkanna sem er að mínu mati mjög mikilvægt í ljósi þeirrar samvinnu sem á sér stað í þinginu.

Ég held að óhætt sé að lýsa því yfir að hér er á ferðinni eitt róttækasta eða framsæknasta lagafrv. sem hefur verið lagt fram á Alþingi á þessu sviði. Ef það verður samþykkt er ljóst að við munum geta verið stolt í samanburði við nágranna okkar á Norðurlöndum sem til þessa hafa staðið okkur mun framar á því sviði.

Í stuttu máli er kjarni þessa frv. sá að allir sem gegna launuðum störfum eða eru námsmenn fá tólf mánaða fæðingarorlof á þeim launum sem þeir fá á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að ráðherra skilgreini með reglugerð hvað teljist full laun, þ.e. hvort einungis er átt við dagvinnulaun eða hvort yfirvinna eða vaktaálag sé einnig tekið með eins og tíðkast í sumum kjarasamningum en ekki öðrum. Foreldrar geta skipt þessum tólf mánuðum með sér þannig að móðir taki a.m.k. sex mánuði, feðrum verði tryggðir þrír mánuðir auk tveggja vikna skömmu eftir fæðingu, þ.e. þrír og hálfur mánuður alls, og þremur mánuðum geta foreldrar skipt með sér að vild. Hér er sem sagt um að ræða þriggja og hálfs mánaðar sjálfstæðan rétt föður til fæðingarorlofs en að auki geta foreldrar skipt með sér þremur mánuðum í viðbót.

Þá er gert ráð fyrir að sú mismunun sem nú er á milli opinberra starfsmanna og bankamanna annars vegar og fólks á almennum vinnumarkaði hins vegar verði afnumin með því að allir fái greidd full laun í fæðingarorlofi. Allar greiðslur í fæðingarorlofi eiga að koma úr svokölluðum fæðingarorlofssjóði sem verði í vörslu lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar ríkisins. Útgjöld vegna greiðslna úr fæðingarorlofssjóði greiðast af framlagi atvinnurekenda til lífeyristrygginga og þá er gert ráð fyrir að allir atvinnurekendur greiði þarna inn eins og nú er.

Ég ætla þá að snúa mér að þingskjalinu sjálfu sem er nr. 333. I. kafli frv. fjallar um breytingar á lögum um fæðingarorlof, nr. 57/1987, með síðari breytingum. Lagt er til í 1. gr. að 2. gr. þeirra laga orðist svo, með leyfi forseta:

,,Foreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, eiga rétt á fæðingarorlofi í allt að tólf mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. þó ákvæði laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, um lengingu fæðingarorlofs af sérstökum ástæðum. Foreldrar geta tekið hluta fæðingarorlofs með hlutastarfi og lengist þá orlofið í hlutfalli við vinnu. Þá geta foreldrar einnig báðir verið í orlofi á sama tíma að fullu eða að hluta. Af tólf mánaða fæðingarorlofi eru sex mánuðir sérstaklega ætlaðir móður, þrír mánuðir ætlaðir föður en þremur mánuðum geta foreldrar skipt að vild. Taki faðir ekki fæðingarorlof sem honum er sérstaklega ætlað fellur sá hluti orlofsins niður.``

Ég vek sérstaklega athygli á þessum síðustu orðum því það hefur orðið reynslan víða að það virðist þurfa að eyrnamerkja feðrum fæðingarorlofið til að auka líkurnar á að þeir taki það.

Í 2. gr. frv. er fjallað um að konu sé heimilt að ,,hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Beri fæðingu að fyrir áætlaða töku fæðingarorlofs telst fæðingarorlofið hafið á fæðingardegi.`` Þetta eru ákvæði svipuð og eru í gildandi lögum en næst kemur: ,,Á fyrstu átta vikunum frá fæðingu barns skal faðir þess eiga rétt á fæðingarorlofi ásamt móður í tvær vikur á launum sem hvorki skerðir fæðingarorlof hans né móður.``

Þetta var lögfest rétt fyrir jólin fyrir fólk á almennum vinnumarkaði, og einnig hefur verið gefin út reglugerð fyrir ríkisstarfsmenn. Mér er ekki kunnugt um hvernig þetta mál stendur varðandi bankamenn.

Þá segir, með leyfi forseta: ,,Upphaf tólf mánaða fæðingarorlofs vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. 2. gr., miðast við þann tíma þegar barnið kemur á heimilið, enda staðfesti barnaverndar nefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef barn, sem ættleiða á, er sótt til útlanda skal ættleiðandi foreldri þó heimilt að hefja töku fæðingarorlofs við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt. Ákvæði 1. mgr. á einnig við þegar barn er ættleitt eða tekið í fóstur.``

Í 3. gr. frv. segir, með leyfi forseta: ,,Foreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, skulu fá greitt sem samsvarar fullum launum sínum í fæðingarorlofi. Um greiðslu fæðingarstyrks og fæðingardagpeninga og greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og lengingu á slíkum greiðslum af sérstökum ástæðum fer eftir ákvæðum laga um almannatryggingar.`` Og ég legg til breytingar á þeim á eftir í þessu frv.

Í 4. gr. er ákvæði til bráðabirgða, en þar er gert ráð fyrir að þær miklu réttarbætur sem lagðar eru til komi ekki allar í einu, heldur í áföngum. 4. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. gr. eiga foreldrar sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi frá gildistöku laga þessara til 1. janúar árið 2001 einungis rétt á fæðingarorlofi í allt að níu mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Frá þeim tíma til 1. janúar árið 2002 miðast orlofið við tíu mánuði, en tólf mánuði frá þeim tíma, sbr. þó í öllum tilvikum ákvæði almannatryggingalaga um lengingu fæðingarorlofs af sérstökum ástæðum.`` --- En þá er gert ráð fyrir lengingu og það mun einnig eiga við um þetta. --- ,,Af níu mánaða fæðingarorlofi er einn mánuður eingöngu ætlaður föður, [þ.e. eyrnamerktur föður] af tíu mánuðum eru tveir mánuðir ætlaðir föður, en af tólf mánuðum þrír mánuðir. Samanlagt fæðingarorlof foreldra verður aldrei lengra en níu mánuðir frá gildistöku laga þessara til 1. janúar 2001, tíu mánuðir frá þeim tíma til 1. janúar 2002, en tólf mánuðir frá þeim tíma. Taki faðir ekki fæðingarorlof sem honum er sérstaklega ætlað fellur sá hluti orlofsins niður.``

Þetta voru þær breytingar sem lagðar eru til á lögunum um fæðingarorlof frá 1987, með síðari breytingum.

Í II. kafla frv. er fjallað um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Í 5. gr. þessa frv. er lögð til breyting á 15. gr. almannatryggingalaganna sem fjallar um fæðingarstyrk, en eins og þingheimur veit fá þeir sem fá fæðingarorlofsgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins annars vegar greiddan fæðingarstyrk og hins vegar fæðingardagpeninga.

Þær breytingar sem lagðar eru til um fæðingarstyrk eru þær að í stað orðanna í a-lið ,,sex mánuði`` kemur: tólf mánuði. Þetta ákvæði á í raun eingöngu við um heimavinnandi húsmæður eða þá sem ekki eru virkir á vinnumarkaði. Lagt er til að þeir fái áfram fæðingarstyrk og hann verði í tólf mánuði en ekki í sex mánuði eins og núgildandi lög gera ráð fyrir.

Í 6. gr. frv. er lögð til breyting á 16. gr. almannatryggingalaganna en sú grein fjallar um fæðingardagpeninga. Lagðar eru til eftirfarandi breytingar á 16. gr.:

3. málsl. a-liðar orðist svo: ,,Þeir sem eiga rétt samkvæmt lögum þessum eða kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi eiga þó ekki rétt á greiðslum fæðingardagpen inga samkvæmt ákvæði þessu.``

Gert er ráð fyrir að þessi hefðbundna umræða um fæðingardagpeninga falli að mestu niður þar sem greidd verði sömu laun og fólk hafi á vinnumarkaði. Þessi grein er þó nauðsynleg. Í b-lið er lagt til að ,,sex mánuðir`` breytist í tólf mánuði og í c-lið að f-liður falli brott. Þarna er lagt til að dagpeningagreiðslur lengist úr sex mánuðum í tólf mánuði. Í reynd á þetta ákvæði eingöngu við námsmenn, þ.e. samkvæmt núgildandi lögum reiknast námsmönnum dagpeningar eins og þeir væru á vinnumarkaði. Þarna er lagt til að þær greiðslur til námsmanna verði í tólf mánuði eins og til annarra.

Í 7. gr. frv. er lagt til að ný grein, 16. gr. a, bætist við almannatryggingalögin, en aftur vil ég benda á að með lagabreytingunni frá í desember er orðin til ný grein í almannatryggingalögunum sem heitir 16. gr. a, þannig að eðlilegt væri að kalla þessa grein 16. gr. b og ég kem þeirri ábendingu á framfæri við hv. nefnd. Fyrirsögn þessarar greinar er Fæðingarorlofssjóður. Greinin hljóðar þá svo, með leyfi forseta:

,,a. Stofna skal sérstakan sjóð, fæðingarorlofssjóð, sem varðveita skal hjá Tryggingastofnun ríkisins. Foreldrar, sem leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi, eiga rétt á greiðslu úr sjóðnum samkvæmt þessari grein. Það er þó háð því skilyrði að foreldrar hafi að jafnaði átt lögheimili hér á landi og starfað hér á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðinguna og eigi lögheimili hér við fæðingu barnsins. Nánar skal kveðið á um lögheimilisskilyrði í reglugerð. Þeir sem eiga rétt samkvæmt kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi eiga þó ekki rétt til greiðslu úr fæðingarorlofssjóði samkvæmt ákvæði þessu þann tíma sem óskert laun eru greidd.``

[15:15]

b. Greiðslur úr fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi skulu nema fjárhæð sem samsvarar heildarlaunum þeirra samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Ákvæði 16. gr. um lengingu fæðingarorlofs af sérstökum ástæðum gilda einnig um foreldra sem fá greiðslur úr fæðingarorlofssjóði.

c. Greiðslur úr fæðingarorlofssjóði greiðast úr lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins gegn framvísun vottorðs læknis og sönnunar um launagreiðslur og atvinnuþátttöku viðkomandi samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.

d. Útgjöld lífeyristrygginga vegna greiðslna úr fæðingarorlofssjóði skulu greidd af framlagi atvinnurekenda til lífeyristrygginga.``

Ef frv. verður að lögum þarf að kanna hvort það kallar á breytingu á lögum um tryggingagjald. Það er ekki alveg ljóst að svo þurfi að vera.

Í 8. gr. frv. er fjallað um ákvæði til bráðabirgða svipað og ég ræddi um áðan, þ.e. gert er ráð fyrir að þessi lenging úr sex mánuðum í tólf eigi sér stað í þremur þrepum og að lögin verði endanlega komin í gildi árið 2002. Mér finnst það fyllilega til athugunar í nefnd þó að það standi ekki þarna beint að það væri kannski eðlilegast að fyrsta skrefið væri að allir yrðu hækkaðir upp á við, þ.e. allir fái full laun í sex mánuði áður en næstu skref eru stigin, þ.e. að lengja tímann.

Með frv. er mjög ítarleg greinargerð sem mun ekki vinnast tími til að lesa að öllu leyti en þar er í fyrsta lagi bent á hvað löggjöfin hér á landi er langt á eftir öðrum löndum og hvernig þetta hefur smátt og smátt verið að breytast. Ég ætla aðeins að byrja á sögunni því að þetta er mjög mikilvægt atriði.

,,Árið 1974 var samþykkt frumvarp sem tryggði konum sem forfölluðust frá vinnu atvinnuleysisbætur í 90 daga. Fram að þeim tíma höfðu aðrar konur en þær sem voru opinberir starfsmenn aðeins átt rétt á ákveðinni lágmarksupphæð í fæðingarstyrk við fæðingu barns. Árið 1980 var umsjón greiðslna í fæðingarorlofi flutt frá Atvinnuleysistryggingasjóði til lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar. Sama ár var öllum konum tryggður lágmarksréttur til fæðingarstyrks. Árið 1987 var greiðslum skipt upp í fæðingarstyrk annars vegar, sem er óháður atvinnuþátttöku, og fæðingardagpeninga hins vegar, sem miðast við vinnuframlag. Jafnframt voru greiðslur í fæðingarorlofi lengdar fyrst í fjóra mánuði en í áföngum upp í sex mánuði árið 1990. Konur, sem eru opinberir starfsmenn eða félagar í Sambandi íslenskra bankamanna, fá greidd laun frá vinnuveitanda í fæðingarorlofi í stað greiðslna frá Tryggingastofnun. Á vorþingi 1997 var gildandi lögum um fæðingarorlof, nr. 57/1987, og lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, breytt. Sú endurskoðun fól í sér nokkrar réttarbætur fyrir foreldra og börn, fyrst og fremst vegna fjölbura- og fyrirburafæðinga.``

Ég vona að hæstv. ráðherra sé í salnum því að mér hefur verið bent á að sú réttarbót taki einungis til leyfisins en ekki hafi um leið verið samið um sömu laun fyrir þessa viðbótarmánuði þannig að ríkisstarfsmenn sem fá þessa réttarbót fá greiðslu frá Tryggingastofnun. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver lapsus sé í kerfinu eða hvort þetta hafi ávallt verið ætlunin. Hins vegar var með breytingunum að mati flm. alls ekki gengið nægilega langt í því að bæta stöðu allra foreldra í fæðingarorlofi og þá sérstaklega feðra.

Samkvæmt reglum frá fjmrn. komu tvær vikur í viðbót samkvæmt tilkynningu nr. 13/1997 um tveggja vikna sérstakt fæðingarorlof fyrir feður frá og með 1. jan. 1998 og þá er mjög athyglisvert að feður fá greidd óskert dagvinnulaun og helming af meðaltalsyfirvinnu og vaktaálagi. Þetta er kannski réttlætt með því að ríkisstarfsmenn fá núna greidda yfirvinnu fyrir fyrstu þrjá mánuðina en ekki þrjá síðarnefndu. Nýjasta breytingin er þó sú eins og kom fram áðan að þessi réttur hefur einnig verið lögfestur fyrir fólk á almennum vinnumarkaði.

Sögulega hafa breytingarnar oft átt sér þann aðdraganda að stjórnarandstöðuþingmenn hafa flutt frv. áður en ríkisstjórnin hefur lagt fram frv. sín. Kvennalistinn hefur flutt fjölmörg frv. og þáltill. um þessi mál allt frá 1983. Það er vonandi að svo verði áfram að sá tónn sem er í frv. okkar kvennalistakvenna verði sá tónn sem endanlega verður ofan á.

Árið 1995 fluttu kvennalistakonur þáltill. um fæðingarorlof og þar má segja að þau markmið sem þar koma fram voru mikið til þau sömu og koma fram í þessu lagafrv.

Herra forseti. Það er mjög erfitt að ræða um þetta mál án þess að vekja athygli á því hvað hér er um mikið jafnréttismál að ræða. Það er mjög mikilvægt að átta sig á því að öll umfjöllun um að konur eða foreldrar njóti sömu réttinda til fæðingarorlofs þarf að taka mið af því hvort verið er að greiða fólki fyrir að eignast börn óháð atvinnuþátttöku eða hvort atvinnuþátttaka og laun á vinnumarkaði mótar réttarstöðuna og greiðslurnar. Núverandi fyrirkomulag er mjög mismunandi, þ.e. konur sem eru opinberir starfsmenn eða félagar í Sambandi ísl. bankamanna fá laun frá vinnuveitanda í fæðingarorlofi en ekki greiðslu frá Tryggingastofnun. Þær konur sem starfa hjá ríkinu halda launum sínum óskertum fyrstu þrjá mánuðina en fá eftir það grunnlaun en þetta á ekki við um feður. Ég ætla að sleppa löngum kafla úr greinargerðinni þar sem rætt er um réttarstöðu feðra en hægt er segja það í mjög stuttu máli að til þessa er með ólíkindum hvað réttarstaða feðra er slök. Þeir geta fengið hluta af fæðingarorlofi móður ef þeir eru á almennum vinnumarkaði en þar með skerðist réttur móður. Þeir hafa engan sjálfstæðan rétt nema þá þær tvær vikur sem nýlega hafa verið samþykktar. Þetta er jafnvel enn þá þrengra hjá opinberum starfsmönnum og eins og hefur m.a. komið fram í áliti kærunefndar Jafnréttisráðs frá 1993 er túlkun fjmrn. mjög þröng hvað varðar karlmenn sem vinna hjá hinu opinbera.

Flm. þessa frv. leggja mjög mikla áherslu á nauðsyn þess að tryggja betur rétt beggja foreldra til töku fæðingarorlofs, m.a. þriggja og hálfs mánaðar sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs. Það er mat flm. að á meðan kynbundinn launamunur er eins mikill og raun ber vitni verði slíkt ekki gert með því að heimila feðrum að taka hluta af leyfi móður. Hér er því lagt til að feður fái þriggja mánaða sjálfstæðan rétt auk þeirra tveggja vikna sem nú þegar er kominn í lög fyrir flesta feður, þó ekki alla.

Það er mat flm., og ég tel að það sé ein merkasta nýjungin í frv., að það verði að breyta fyrirkomulagi á greiðslum í fæðingarorlofi og stefnt er að því að foreldrar fái full laun. Lagt er til að stofnaður verði í þeim tilgangi sérstakur sjóður, fæðingarorlofssjóður, sem sé varðveittur hjá Tryggingastofnun ríkisins og greiðslur úr þeim sjóði eiga að tryggja foreldrum full laun í fæðingarorlofi samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur en fjármunir sjóðsins greiðast eins og fæðingardagpeningar úr lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Útgjöld lífeyristrygginga vegna greiðslna úr fæðingarorlofssjóði skulu greidd af framlagi atvinnurekenda til lífeyristrygginga. Á árinu 1996 námu þessar greiðslur 1.224 millj. en á fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir 1.450 millj. kr. Árið 1996 var 621 kona í fæðingarorlofi hjá ríkinu. Samtals gerði það 210 ársverk sem kostuðu ríkissjóð 300 millj. kr. með launatengdum gjöldum. Meðaltal ársverka reyndist 1.428 þús. en greidd dagvinna og yfirvinna fyrstu þrjá mánuðina eins og áður segir. Áætlað er að sveitarfélög hafi greitt 83 millj. kr. í fæðingarorlof árið 1994 og hjá aðildarbönkum Sambands ísl. viðskiptabanka var kostnaður 51,4 millj. árið 1996. Þessar upplýsingar komu fram í fróðlegu svari við fsp. hv. þm. Kristins Gunnarssonar á þinginu.

Þetta frv. sem er til umræðu kallar á mun hærri fjárveitingar bæði vegna áfangalengingar fæðingarorlofsins úr sex mánuðum í tólf og vegna þess er gert ráð fyrir að fólk á almennum vinnumarkaði haldi launum sínum í fæðingarorlofi líkt og ríkisstarfsmenn og bankamenn. Ég gef í greinargerðinni nokkrar frekari forsendur sem hægt er að nota til útreikninga. M.a. kemur fram að fjöldi lifandi fæddra barna á Íslandi var 4.280 árið 1995 og 4.329 árið 1996 og meðallaun karla og kvenna voru 1.682 og 875 þús. árið 1995 en 1.829 og 952 þús. árið 1996. Takið eftir launamun kynjanna sem hér kemur fram. Hann er alveg gífurlegur.

Þar sem frjósemi kvenna er 2,1 um þessar mundir má gera ráð fyrir að kostnaður við fæðingarorlof nemi um árslaunum á starfsævi hvers vinnandi manns. Hér er gert ráð fyrir að heimavinnandi fái fæðingarstyrk eins og verið hefur en í tólf mánuði í stað sex og að vinna námsmanna verði áfram metin sem vinna með tilliti til fæðingardagpeninga sem þyrftu að hækka í hlutfalli við laun á vinnumarkaði.

Ekki er einfalt að koma með nánari kostnaðartölur, m.a. vegna þess hve upplýsingar eru óaðgengilegar og einnig vegna þess að margir atvinnurekendur úti á hinum almenna vinnumarkaði greiða samkvæmt einkakjarasamningum mismun launa og greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt upplýsingum frá einstaklingum og einnig vil ég benda á svar á þskj. 311 þar sem bent er á ýmsa annmarka á því að áætla þennan kostnað nákvæmlega. Ég minni á að þetta er dýrt og viðurkenni það. Ég er þeirrar skoðunar að árslaun á mann í fæðingarorlofi á starfsævi sé nauðsynleg krafa til að búa megi sem bestan grunn í tengslum foreldra og nýfæddra barna þeirra strax á fyrsta æviárinu.

Ég hef ekki alveg lokið máli mínu, herra forseti, en vona að málið fái góðar undirtektir því að um mjög mikilvægt mál er að ræða.