Launastefna ríkisins

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 15:32:01 (3147)

1998-01-28 15:32:01# 122. lþ. 54.91 fundur 180#B launastefna ríkisins# (umræður utan dagskrár), Flm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[15:32]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Í kosningabaráttunni vorið 1995 var launamisrétti kynjanna eitt þeirra mála sem mikið var rætt. Þá lá fyrir ný skýrsla sem sýndi enn einu sinni svo ekki varð um villst að konur eru að meðaltali rúmlega hálfdrættingar á við karla í launum og að hluti launamunarins verður eingöngu skýrður með kynferði. Í kjölfar þeirrar umræðu setti núv. ríkisstjórn sér eftirfarandi markmið í stefnuyfirlýsingu sinni, með leyfi forseta:

,,Að vinna gegn launamisrétti af völdum kynferðis. Stuðlað verður að jöfnum möguleikum kvenna og karla til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína.``

Nefnd var sett á laggir til að kanna hvort nýtt starfsmat væri leið til þess að draga úr launamisrétti kynjanna og um þessar mundir er unnið að tilraun til nýs starfsmats þar sem ríkið, Reykjavíkurborg og einkaaðilar koma að verki.

Í fyrra hefti frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 hrósaði hæstv. fjmrh. sér af því að í kjarasamningum ríkisins á undanförnum árum hafi laun svokallaðra kvennastétta hækkað umfram laun annarra. Af þessu varð ekki dregin önnur ályktun en sú að það væri markmið ríkisstjórnarinnar að bæta kjör kvennastétta miðað við aðrar stéttir í þeim tilgangi að draga úr launamun kynjanna.

Því kom það verulega á óvart, hæstv. forseti, þegar lesa mátti í Morgunblaðinu þann 20. janúar sl. þau ummæli hæstv. fjmrh. að þegar talað hefði verið um að draga úr launamun milli kynja hefði verið átt við mun innan stétta en ekki á milli stétta. Þessi ummæli tengjast nýgerðum samningum við lækna og gagnrýni hjúkrunarfræðinga á vaxandi launamun milli heilbrigðisstétta en þau voru þannig fram sett að um almenna yfirlýsingu var að ræða sem ekki var hægt að skilja öðruvísi en þau voru sögð, þ.e. að átt væri við launamisrétti kynja innan stétta en ekki á milli þeirra.

Í glænýjum bæklingi Hagstofunnar um konur og karla má sjá línurit yfir launamun milli karla og kvenna en þau ná ekki lengra en til ársins 1995. Þau leiða í ljós að hlutfallið milli launa kvenna og karla hefur sáralítið breyst þótt konur hafi heldur bætt sinn hlut þegar litið er yfir tímabilið frá 1980. Dreifing tekna er allt öðruvísi meðal kvenna en karla og sýnir það sem við svo sem vissum að meginþorri útivinnandi kvenna fyllir lægri þrep launastigans meðan tekjurnar dreifast mun meira meðal karla. Það er afar athyglisvert þegar litið er á greitt tímakaup að hlutur verkakvenna og afgreiðslukvenna á almennum vinnumarkaði hefur farið lækkandi á undanförnum árum, sem minnir á þær fréttir sem bárust í upphafi árs um það hve hækkandi kaupmáttur skilar sér misjafnlega til launþega eftir kynferði. Þar skáru verkakonur og skrifstofukonur sig úr því þær fengu mun minna í sinn hlut en aðrir af margumræddu góðæri.

Myndin af kjörum opinberra starfsmanna árið 1996 er heldur skárri að því leyti að launabilið hefur ekki aukist en þar stingur mest í augu að munur milli dagvinnulauna er lítill hvort sem litið er á BSRB eða BHM, en þegar heildarlaun eru skoðuð breytist myndin verulega og þá stökkva karlarnir langt upp fyrir konurnar, væntanlega vegna sinnar alkunnu yfirvinnu og sporslukerfisins. Launamisrétti kynjanna er því enn til staðar svo sem við mátti búast þrátt fyrir fögur fyrirheit núv. ríkisstjórnar og þarf heldur betur að bretta upp ermar ef takast á að draga úr launamun kynjanna sem hefur því miður sáralítið breyst hér á landi frá því á 13. öld og jafnvel lengur en hann er auðvitað ekkert náttúrulögmál.

Í athyglisverðu viðtali í Morgunblaðinu á föstudaginn lýsti athafnakona daglegum veruleika þeirra kvenna sem sinna krefjandi starfi úti á vinnumarkaðnum ásamt því að annast heimili og börn. Frásögn hennar varð til þess að Morgunblaðið sá ástæðu til að taka málið upp í leiðara. Í viðtalinu segir, með leyfi forseta:

,,Þótt konan sé metnaðarfull og í jafnkrefjandi starfi og karlinn, tekur hún oftast sjálfviljug ábyrgð á búi og börnum.``

Ástæða þess að svona fer á mörgum heimilum er án efa sú að í samfélaginu er það enn viðtekið viðhorf að það sé kvenna að sjá um börn og heimili en karla að vera aðalfyrirvinnan. Þetta úrelta viðhorf er jafnframt undirrót launamunar kynjanna, konur eru álitnar ótryggari starfskraftur vegna bindingar yfir heimili og börnum. Karlarnir eru stikkfrí. Þessi mál eru í vítahring. Launamunur kynjanna veldur því um leið að karlar taka sér síður tíma til þess að sinna fjölskyldunni vegna þess að heimilið tapar þá meiri tekjum en ef konan gerir það.

Það er ástæða, hæstv. forseti, til að taka undir þessi orð en þau eiga þó aðeins við um hluta kvenna. Þeim konum fjölgar sem búa einar með eða án barna og eru margar hverjar að reyna að sjá sér og sínum farborða á þeim lágu launum sem svokölluðum kvennastéttum er boðið upp á.

Hæstv. forseti. Það þarf að breyta hugarfarinu og (Forseti hringir.) útrýma fordómum. Ég vil í framhaldi af þessu beina spurningum til hæstv. fjmrh.: Hvað átti ráðherrann við með ofangreindum ummælum sínum? Hefur orðið stefnubreyting hjá ríkisstjórninni eða hvernig ber að túlka þessi orð hans? Hver hefur þróunin orðið (Forseti hringir.) hvað varðar launajafnrétti kynjanna meðal ríkisstarfsmanna og hvað er að gerast í þeim málum nú? Til hvaða aðgerða ætlar ríkisstjórnin að grípa til að koma á launajafnrétti kynjanna?