Launastefna ríkisins

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 15:45:35 (3150)

1998-01-28 15:45:35# 122. lþ. 54.91 fundur 180#B launastefna ríkisins# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[15:45]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp utan dagskrár því fátt er mikilvægara í sambandi við launamálin en að draga úr hróplegu launamisrétti kynjanna. Almennt virðist mér stefna ríkisstjórnarinnar í launamálum vera sú að draga úr miðstýringu við ákvörðun launa, færa meira vald til stjórnenda og auka með öllu móti möguleikana á staðbundnum og einstaklingsbundnum launasamningum. Þetta voru áhersluatriði í síðustu samningum og það mun mála sannast að undanfarnar vikur hafa stjórnendur og starfsmenn ráðuneyta og ríkisstofnana eytt heilum og hálfum dögum í að vinna úr þeim spilum sem þeir fengu í hendur í síðustu samningum.

Það er auðvitað of snemmt að dæma um reynsluna hér, en við höfum upplýsingar um hvernig þetta kerfi hefur reynst annars staðar, t.d. í Svíþjóð. Þar er komin nokkurra ára reynsla á slíkt einstaklingsbundið launakerfi og niðurstaðan þar er sú að launamunur kynjanna, einmitt það óréttlæti sem brýnast er að leiðrétta, hefur aukist umtalsvert á þeim tíu árum sem einstaklingsbundið launakerfi hefur verið við lýði. Munurinn hefur aukist og kemur það nú ekki heim og saman við fyrri yfirlýsingar hæstv. fjmrh. sem hefur haldið því á lofti að slíkt kerfi byði einmitt upp á möguleika til að rétta stöðu kvenna. En niðurstaðan í Svíþjóð er sú að stjórnendur hafa hagnast á þessu kerfi, karlar hafa hagnast á þessu kerfi og þeir sem kunna þá kúnst að koma sér vel við yfirmenn hafa hagnast. Erfiðismenn hins vegar, konur, stórir nafnlausir láglaunahópar og þeir óþægu hafa tapað. Sumir segja jafnvel að afnám þessa launakerfis sé mikilvægara en launahækkun og ekki eru það nú mikil meðmæli með núverandi launakerfi.

Ég tel nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. skýri betur hvað liggur að baki þessari stefnumörkun og hvers vegna og hvernig hann telur að hún geti orðið til að bæta hag launafólks og færa konum þessa lands aukið réttlæti í launamálum.