Launastefna ríkisins

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 15:50:20 (3152)

1998-01-28 15:50:20# 122. lþ. 54.91 fundur 180#B launastefna ríkisins# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[15:50]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það væri betur að við værum á réttri leið, en við erum ekki á réttri leið meðan við stefnum hraðbyri til fortíðar. Aftur og ítrekað hefur hæstv. fjmrh. lýst því yfir að með þeim breytingum á launakerfi og í ríkisrekstrinum almennt hafi hann m.a. viljað ná tvennu fram í launakerfinu. Hæstv. ráðherra hefur sagt að hann hafi viljað gera launakerfið gagnsærra og hann hefur sagt að hann vilji draga úr launamun kynjanna.

Varðandi fyrra atriðið er nú að koma í ljós að hið gagnsæja launakerfi Friðriks Sophussonar, hæstv. fjmrh., er ekki gagnsærra en svo að ráðuneyti hans hefur haft forgöngu um að innleiða launaleynd hjá ríkisstofnunum og eru stéttarfélögin nú með lögfræðinga, fleiri en einn, að kanna hvernig þeim tilraunum hæstv. fjmrh. verði hnekkt. Ef það tekst ekki eftir þessum leiðum mun það mál koma til kasta Alþingis því verið er að brjóta gegn landslögum og að sjálfsögðu einnig gegn yfirlýsingum sem hér hafa verið gefnar af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Hvað síðara atriðið varðar og snertir umræðuna um launamun kynjanna var yfirlýsing og fyrirheit ríkisstjórnarinnar að allt yrði gert til að draga úr launamun kynjanna. Ég staðhæfi að launamisrétti almennt mun aukast í kjölfar þessara breytinga og þá ekki síst launamunur kynjanna. Með þessum breytingum er m.a. gert ráð fyrir að einstakar stofnanir verði sjálfstæðari um launamyndunina. Sá sem annast símavörslu hjá Tryggingastofnun mun hafa önnur laun en sá sem annast símavörslu hjá orkufyrirtækjum. Það segir sig sjálft að fyrirtæki sem hafa rúm fjárráð munu geta umbunað starfsfólki sínu umfram það sem gerist hjá fyrirtækjum sem eru fjársvelt. Hvaða stofnanir skyldu það vera? (Forseti hringir.) Spítalar og skólar. Nú spyr ég: Hvar starfa konur? (Forseti hringir.) Hvar starfa karlar? Hver halda menn að útkoman verði? Sú yfirlýsing hæstv. fjmrh. áðan að þetta sé til þess fallið að draga úr launamun er brandari þótt mönnum sé yfirleitt ekki hlátur í hug þegar verk þessarar ríkisstjórnar eru til umræðu.